Hoppa yfir valmynd
8. október 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ofanflóðagarðar á Ólafsfirði vígðir

Frá vígslu varnargarðanna í Hornbrekku.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, vígði á dögunum ný snjóflóðamannvirki við hátíðlega athöfn í Hornbrekku á Ólafsfirði. Þar með er lokið gerð og frágangi ofanflóðavarna í Ólafsfirði.

Hættusvæði vegna ofanflóða ná til nokkuð stórs hluta byggðarinnar í Ólafsfirði og voru ítarlegar upplýsingar um ofanflóðasögu Ólafsfjarðar lagðar til grundvallar hættumatinu þegar það var unnið.  Þessi saga nær allt frá 17. öld og fram til okkar daga og eru atburðirnir misalvarlegir.  Af nýrri viðburðum má nefna að árið 2004 féllu smærri flóð úr Tindaöxl ofan Hornbrekku.  Í mars 2009 féll 150 metra breitt snjóflóð úr Tindaöxl í miðri hlíð rétt innan við þéttbýlið og í lok apríl á þessu ári féllu stór snjóflóð í Skeggjabrekkudal.

Við undirbúning og gerð varnargarðanna var sérstök áhersla lögð á útlit þeirra, uppgræðslu og gerð göngustíga þannig að framkvæmdirnar falla vel umhverfinu. Um leið stuðla þær að bættri aðstöðu til útivistar. 

Ofanflóðasjóður fjármagnaði framkvæmdina að stærstum hluta en einnig kom sveitarfélagið Fjallabyggð að fjármögnun. Veðurstofa Íslands sá um hættumat, frumathugun var í höndum Verkfræðistofu Siglufjarðar og Teikna á lofti, Verkfræðistofa Austurlands sá um hönnun og um umhverfisskipulag og uppgræðslu sá Landslag landslagsarkitektar. Verktakar voru G.V. Gröftur ehf en Framkvæmdasýsla ríkisins fór með umsjón og verkeftirlit.

"" Frá vígslu varnargarðanna í Hornbrekku. 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum