Velferðarráðuneytið

Íslensk ungmenni vinna mest jafnaldra sinna á Norðurlöndunum

Fánar Norðurlanda. Ljósmynd: Johannes Jansson/norden.org
Fánar Norðurlanda. Ljósmynd: Johannes Jansson/norden.org

Miklu munar á atvinnuþátttöku ungs fólks á Norðurlöndunum. Á Íslandi vinna 52% ungmenna á aldrinum 1519 ára, í Danmörku um 44%, 35% í Noregi, 24% í Finnlandi en í Svíþjóð aðeins 16%. Vinnuaðstæður ungs fólks eru til umfjöllunar í nýjasta tölublaði Arbetsliv i Norden sem fjallar um vinnumál á Norðurlöndunum.

Í blaðinu er sagt frá nýrri skýrslu um vinnuaðstæður ungs fólks sem tekin var saman að frumkvæði Norrænu ráðherranefndarinnar og kynnt á ráðstefnu í Stokkhólmi í dag. Mörg ungmenni eru í láglaunastörfum sem krefjast engrar skilgreindrar kunnáttu eða þekkingar og vinnutíminn er gjarna óreglulegur segja skýrsluhöfundar. Oft er þetta ungt fólk sem vinnur með námi en einnig ungmenni sem hafa hætt skólagöngu snemma. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að ungt fólk er líklegra til að lenda í vinnuslysum en fullorðnir, þótt minni líkur séu á dauðaslysum við störf hjá ungu fólki.

Skýrsluhöfundar benda meðal annars á að sífellt fjölgi í hópi ungs fólks á aldrinum 15–19 ára sem vinnur hlutastörf og það eigi einkum við um stúlkur sem í vaxandi mæli sinni afgreiðslustörfum sem eldri konur unnu áður. Fjölgun hlutastarfa virðast hafa neikvæð áhrif á vinnuumhverfi ungs fólks. Ástæðurnar telja skýrsluhöfundar þær að fólk í hlutastörfum fái minni handleiðslu við upphaf starfs og minni fræðslu varðandi öryggismál, verklag og fleiri þætti sem snúa að öryggi og heilsu. Einnig er bent á að vinnutími fólks í hlutastörfum sé gjarna utan dagvinnutíma og því fáir ef nokkrir starfsmenn með reynslu á staðnum til að veita unga fólkinu stuðning og leiðsögn.

Greinin í Arbetsliv i Norden fjallar um ýmsar hliðar þessara mála og nauðsyn þess að Norðurlandaþjóðirnar geri áætlanir og setji sér skýr markmið til að bæta vinnuaðstæður ungs fólks.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn