Hoppa yfir valmynd
10. október 2013 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpar ráðstefnu um þróun orkumála á norðurslóðum - Ráðherranefnd um málefni norðurslóða sett á fót

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti í dag lokaerindi á ráðstefnu um þróun orkumála á norðurslóðum, Arctic Energy Summit, sem haldin var á Akureyri. Ráðstefnan verður næst haldin á Íslandi árið 2017. 

Í erindi sínu ræddi forsætisráðherra meðal annars þær öru breytingar sem eiga sér stað á norðurslóðum og mikilvægi heildstæðrar nálgunar til að nýta tækifærin og takast á við þær áskoranir sem í þeim felast. Þá greindi ráðherra frá stofnun sérstakrar ráðherranefndar um málefni norðurslóða, sem ætlað er að tryggja samræmda og heildstæða hagsmunagæslu Íslands á æðstu stigum stjórnsýslunnar. Mun forsætisráðherra stýra nefndinni og í henni eiga auk hans fast sæti utanríkisráðherra, innanríkisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Forsætisráðherra ræddi ennfremur tækifæri til auðlindanýtingar á Drekasvæðinu og samhengi mögulegs efnahagslegs ávinnings og samfélagslegrar ábyrgðar. Í þeim efnum væru í þróun hugmyndir um að setja á fót alþjóðlega viðbragðs- og björgunarmiðstöð á Íslandi. Einnig áréttaði forsætisráðherra mikilvægi sjálfbærni í orkumálum og tækifæri Íslands til nýtingar  og þekkingarmiðlunar á hreinni og endurnýjanlegri orku. 

Að lokum fjallaði forsætisráðherra um farsælt samstarf norðurskautsríkjanna sem færi mjög vaxandi, meðal annars innan Norðurskautsráðsins. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum