Hoppa yfir valmynd
10. október 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

SignWiki í úrslit

Nýsköpunarverkefnið SignWiki, sem þróað hefur verið af Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, er komið í úrslit Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna í opinberum rekstri.

Nýsköpunarverkefnið SignWiki, sem þróað hefur verið af Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, er komið í úrslit Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna í opinberum rekstri (EPSA). Verðlaunin eru veitt annað hvert ár og er keppt í þremur flokkum.  SignWiki keppir í flokki sem kallast Evrópa/ríkjaflokkur og eru fjögur önnur verkefni tilnefnd. Samfélagsmiðlar lögreglunnar, sem  lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þróaði, er einnig komið í úrslit en í flokki staðbundinna verkefna.

Í ár voru 230 verkefni tilnefnd til verðlaunanna frá 26 ríkjum og stofnunum ESB/EES. Flestar tilnefningarnar komu frá Spáni (46) og Póllandi (36) en fimm frá Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskar stofnanir eru meðal þátttakenda.  47 verkefni hafa þegar fengið sérstakar viðurkenningar sem framúrskarandi verkefni (Best practice), þar af þrjú frá Íslandi; SignWiki, Samfélagsmiðlar lögreglunnar og LibroDigital, sem Hljóðbókasafni Íslands gerði.

Úrslitin verða kynnt við sérstaka athöfn í Maastricht í lok nóvember. Verðlaunin eru veitt fyrir snjalla lausn við að veita opinbera þjónustu á tímum þrenginga  „Weathering the storm: Creative solutions in a time of crisis“.

Fjölskyldur heyrnarlausra barna, kennarar, nemendur í táknmálsfræði við Háskóla Íslands og fleiri sem nota þjónustuna hafa gefið SignWiki mjög góða dóma og talið að um sé að ræða byltingarkenndar breytingar á miðlun efnis. Táknmálstalandi einstaklingar benda á að vefurinn hafi opnað marga nýja glugga inn í íslenskt samfélag og þeir sem ekki tala táknmál hafa með SignWiki fengið tæki til þess að bæta úr því að einhverju leyti. Með SignWiki er t.d. hægt að dreifa námskeiðum í íslensku táknmáli, fróðleik um það, stuðningi við kennara, orðabók, málfræðigreinum, ýmiss konar fræðslu og fleiru og í reynd eru möguleikarnir nánast óþrjótandi. Vefurinn er gagnvirkur og býður upp á þátttöku þeirra sem nota hann.

Vefurinn hefur líka vakið athygli fólks í öðrum löndum þar sem hann er afar ódýr og öflugur og mjög auðvelt er að setja hann upp hvar sem er. Síðurnar og allt ritaða efnið er vistað hér á landi á „wiki búgarði“ Samskiptamiðstöðvarinnar en myndböndin á Youtube. Samskiptamiðstöðin er búin að setja upp síðu fyrir Noreg, Finnland, Færeyjar, Tansaníu og Namibíu. Mörg önnur lönd hafa sýnt áhuga á að fá slíkan þekkingarbrunn settan upp fyrir sig, t.d. Malaví og  Nígería.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum