Hoppa yfir valmynd
11. október 2013 Matvælaráðuneytið

Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald skulu betrumbætt

Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Á þeim tæpu sjö árum síðan lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald komu til framkvæmda hafa komið í ljós ýmsir vankantar á lögunum. Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra áform sín um heildstæða endurskoðun á lögunum sem miðar m.a. að því að gera rekstrarumhverfið hagstæðara, ekki síst fyrir smærri aðila, en í dag eru sömu skilyrði og skyldur lagðar á rekstraraðila gistiþjónustu óháð stærð og umfangi þjónustunnar. Einnig er nauðsynlegt að koma til móts við ýmis sjónarmið og lagfæra agnúa á lögunum á grundvelli reynslu síðustu ára.

Frá því að lögin tóku gildi hafa aðstæður í íslensku atvinnulífi tekið miklum breytingum, erlendum ferðamönnum hefur fjölgað  til mikilla muna og samhliða hefur leyfislausum aðilum í gististarfsemi stórfjölgað. Með því að starfrækja leyfislausa gististaði er ekki aðeins verið að skekkja samkeppni heldur er þar ekki um að ræða neitt eftirlit með öryggi og heilbrigðismálum. Mikilvægt er að eftirlit með gististarfsemi verði virkara og heimildum í lögum skýrlega beitt til þess að árangur náist.  Samhliða þarf að endurskoða lögin um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eins og áður segir og gera rekstrarumhverfið hagstæðara fyrir smærri aðila í ferðaþjónustu ásamt því að skýra verkferla við eftirlit með leyfisskyldri starfsemi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun setja á fót samstarfsvettvang  þar sem saman koma fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og fulltrúar frá innanríkisráðuneyti vegna lögreglu- og sýslumannsembættanna en þessir aðilar gegna lykilhlutverki við eftirlit og útgáfu leyfa. Þá er aðkoma umhverfisráðuneytisins einnig mikilvæg vegna skipulagsmála auk aðkomu Ferðamálastofu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka aðila í ferðaþjónustu (SAF).


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum