Hoppa yfir valmynd
11. október 2013 Matvælaráðuneytið

Starfshópur um endurskoðun laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun fyrirhugaða endurskoðun á lögum nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Verður starfshópur með fulltrúum fjögurra ráðuneyta skipaður til verksins og mun hann kalla eftir sjónarmiðum frá hagsmunaaðilum.

Í maí sl. skilaði Fjárfestingavaktin tillögum til ráðherra um úrbætur á samkeppnishæfni Íslands varðandi beina erlenda fjárfestingu. Meðal tillagna í skýrslunni eru ýmsar breytingar á lögum sem snerta erlendar fjárfestingar, s.s. breytingar á  skattalögum, lög um ívilnanir og lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, kaupa á landi og á umræddum lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Leggur vaktin til að lögin verði endurskoðuð í heild sinni enda barn síns tíma. Þá snúist þau fyrst og fremst um boð og bönn en betra sé að þau hafi jákvæðari tón og að þá mætti gera takmarkanir skýrari.

Fjárfestingavaktin leggur sérstaklega til þrjár efnisbreytingar á lögunum. Í fyrsta lagi að ákvæði laganna um sérstaka nefnd um beinar erlendar fjárfestingar verði fellt brott. Í stað þess verði forsendur leyfisveitinga gerðar skýrari og ferlið innan hefðbundinnar stjórnsýslu gagnsærra.

Í öðru lagi leggur vaktin til að ákvæði laganna er lúta að tilkynningarskyldu verði felld brott.

Í þriðja lagi leggur vaktin til að tryggt sé að öryggisákvæði laganna, sem heimilar stjórnvöldum að grípa inní ef erlend fjárfesting þykir varða við öryggi eða almannaheill, sé beitt í samræmi við skýran og lögbundinn feril.

Í skýrslu Fjárfestingarvaktarinnar eru ekki lagðar fram tillögur um breytingar á 4. gr. laga um 34/1991 er varða eignarhlut erlendra fjárfesta í fiskveiðum og fiskvinnslu, vatnsvirkjunum eða flugrekstri.

Jafnframt hafa borist athugasemdir frá ESA vegna tilkynningarskyldu um alla erlenda fjárfestingu.

Í ljósi framangreinds mun iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipa starfshóp til að endurskoða lögin og auk fulltrúa iðnaðar- og viðskiptaráðherra eigi sæti í hópnum fulltrúar fjármálaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, utanríkisráðherra og innanríkisráðherra.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum