Hoppa yfir valmynd
25. október 2013 Matvælaráðuneytið

Endurskoðun á iðnaðarlögum og löggiltum iðngreinum

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hafið vinnu við gerð frumvarps til breytinga á iðnaðarlögum, nr. 42/1978. Frumvarpið verður m.a. unnið með hliðsjón af niðurstöðum og tillögum nefndar um endurskoðun iðnaðarlaga, en nefndin skilaði skýrslu sinni til iðnaðarráðherra í febrúar 2012.

Í iðnaðarlögunum er mælt fyrir um löggildingu iðngreina, en löggiltar iðngreinar eru í dag tæplega 60 talsins og eru þær taldar upp í reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar. Samkvæmt iðnaðarlögunum hafa eingöngu þeir sem hafa sveinsbréf eða meistarabréf í viðkomandi iðngrein rétt til að kenna sig við þá iðngrein í starfsheiti sínu og eingöngu meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni hafa rétt til að starfa í viðkomandi iðngrein. Dæmi um löggiltar iðngreinar eru t.d. húsasmíði, pípulagnir, bifreiðasmíði, kjólasaumur, hattasaumur, myndskurður, leturgröftur, bakaraiðn, matreiðsla, stálsmíði, mótasmíði, rafvirkjun, ljósmyndun og hársnyrtiiðn.

Í samræmi við tillögur nefndar um endurskoðun iðnaðarlaga hyggst ráðuneytið leggja til að upptalning á löggiltum iðngreinum verði færð úr reglugerð um löggiltar iðngreinar yfir í iðnaðarlögin. Samhliða því verður reglugerð um löggiltar iðngreinar felld úr gildi.

Jafnframt verður lagt mat á það hvort áfram eigi að löggilda allar þær iðngreinar sem nú eru löggiltar. Þar verður sérstaklega skoðað hvort fella eigi niður löggildingu þeirra iðngreina sem ekki eru lengur kenndar hérlendis, en almennt eru ekki til námskrár eða námslýsingar fyrir þær greinar og fáir eða engir hafa lokið sveinsprófi í þeim iðngreinum síðastliðin ár eða áratugi.

Ráðuneytið hyggst einnig skoða hvort fella eigi niður löggildingu ljósmyndunar, en það mál hefur verið í skoðun hjá ráðuneytinu síðastliðin ár, eftir að erindi þar að lútandi barst ráðuneytinu frá Hagsmunasamtökum um ljósmyndun, sem er félag áhugaljósmyndara.

Ráðuneytið mun í byrjun nóvember gefa út umræðuskjal, þar sem farið verður ítarlega yfir helstu rökin með og á móti löggildingu þessara iðngreina. Í framhaldi af því hefst formlegt samráðsferli, þar sem hagsmunaaðilum gefst tækifæri til að gera athugasemdir við umræðuskjalið, en ráðuneytið mun jafnframt boða til samráðsfunda með helstu hagsmunaaðilum í nóvember. Gert er ráð fyrir að drög að frumvarpi til breytinga á iðnaðarlögum verði lögð fram til kynningar í framhaldi af samráðsferlinu.




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum