Hoppa yfir valmynd
27. október 2013 Forsætisráðuneytið

Fundur forsætisráðherra og varaforsætisráðherra Kína

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra átti síðla gærdags fund með Ma Kai varaforsætisráðherra Kína í Þjóðmenningarhúsinu. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sat ennfremur fundinn, en með varaforsætisráðherra Kína í för voru m.a. varautanríkisráðherra og varaiðnaðarráðherra landsins. 

Á fundinum voru tvíhliða samskipti ríkjanna til umræðu, málefni norðurslóða, mannréttindamál og alþjóðamál. 

Hvað tvíhliða samskipti áhrærir ræddu ráðherrarnir meðal annars mikilvægi fríverslunarsamnings Íslands og Kína, sem undirritaður var fyrr á árinu og er nú til umfjöllunar á Alþingi, og þau tækifæri sem í honum felast. Þá áréttaði forsætisráðherra áframhaldandi vilja til samstarfs á sviði orkumála, bæði í Kína en einnig í þriðju ríkjum. Ferðamál voru einnig rædd og ört vaxandi fjöldi kínverskra ferðamanna hingað til lands, sem og vilji til að greiða fyrir frekari flugsamgöngum milli landanna tveggja. Ennfremur var rætt um samkomulag á sviði vinnumála sem nú er á lokastigi. 

Forsætisráðherra greindi frá stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum norðurslóða og þeim tækifærum og áskorunum sem felast í auknum möguleikum til auðlindanýtingar og opnun siglingaleiða. Var samstarf Íslands og Kína á norðurslóðum rætt í þessu samhengi, þ.m.t. á vísindasviðinu. 

Mannréttindamál voru ítarlega rædd á fundinum og fór forsætisráðherra yfir afstöðu Íslands til mannréttindamála. Hvatti forsætisráðherra m.a. kínversk yfirvöld til að fullgilda alþjóðasáttmála um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og auka samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar á sviði mannréttindamála, þ.á.m. í málefnum Tíbet. Einnig ræddu ráðherrarnir efnahagsvöxtinn í Kína og hinn mikla árangur sem náðst hefur í að vinna gegn fátækt í landinu. Þá var komið inn á jafnréttismálin þar sem varaforsætisráðherra Kína sagði Ísland vera fyrirmynd annarra. 

Í umræðu um alþjóðamál hverfðist umræðan um málefni Norður Kóreu og Sýrland. Hvatti forsætisráðherra kínversk yfirvöld til að beita áfram áhrifum sínum með uppbyggilegum hætti gagnvart Norður Kóreu. Þá lýsti forsætisráðherra ánægju með diplómatíska þróun mála í Sýrlandi en áréttaði mikilvægi þess að koma á vopnahléi svo starfsmenn Efnavopnastofnunarinnar geti unnið vinnu sína og nauðsynleg mannúðarastoð nái fram að ganga. 

Varaforsætisráðherra Kína bauð að lokum forsætisráðherra að heimsækja Kína við fyrsta tækifæri.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum