Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 25/2013.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 25. október 2013

í máli nr. 25/2013:

SALUS

gegn

Nýjum Landspítala ohf. 

Með kæru 10. september 2013 kærir samstarfshópurinn SALUS ákvörðun varnaraðila, vegna forvals fyrir hönnunarútboð auðkennt nr. 15453 „Nýr Landspítali við Hringbraut, meðferðarkjarni og rannsóknarhús“, þess efnis að kærandi uppfylli ekki kröfur forvalsgagna til þess að taka þátt í útboðinu. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt þyki að stöðva innkaupaferlið að kröfu kæranda, en aðrar kröfur bíða úrskurðar. Varnaraðila hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda.

Hinn 23. apríl 2013 auglýsti varnaraðili framangreint forval vegna hönnunar meðferðarkjarna og rannsóknarhúss sem ætlunin er að verði hluti af nýjum Landspítala við Hringbraut. Frestur til að senda inn þátttökubeiðni rann út 18. júlí 2013, en fimm þátttökubeiðnir bárust, þ.á m. frá kæranda. Með fyrirspurn 13. ágúst 2013 óskaði varnaraðili eftir nánar tilgreindum upplýsingum vegna þátttökubeiðnar kæranda, m.a. varðandi sérfræðiþekkingu tiltekins ráðgjafafyrirtækis kæranda í hönnun spítala og um starfsreynslu tiltekins lykilstarfsmanns. Kærandi brást við ósk þessari með tveimur tölvuskeytum 15. ágúst 2013 þar sem m.a. var að finna lista yfir sérfræðinga í spítalahönnun og nánari upplýsingar um starfsreynslu umrædds starfsmanns. Með bréfi 21. ágúst 2013 var kæranda hins vegar tilkynnt að forvalsnefnd hefði komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki kröfur forvalsgagna til þess að taka þátt í fyrirhugðuðu hönnunarútboði. Nánar tiltekið var talið að ráðgjafafyrirtæki kæranda uppfyllti ekki kröfur forvalsgagna hvað varðaði sérþekkingu í hönnun spítala þar sem sérfræðingar þess mynduðu ekki nægilega breiðan hóp sérfræðinga til þess að geta veitt ráðgjöf í hönnun tæknikerfa. Sérfræðingar fyrirtækisins í spítalahönnun væru arkitektar að mennt og þrátt fyrir reynslu af hönnun sjúkrahúsa væri það mat forvalsnefndar að fyrirtækið skorti tilskilda tækniþekkingu til að geta veitt ráðgjöf í hönnun tæknikerfa. Þá var talið að tiltekinn lykilstarfsmaður uppfyllti ekki kröfur forvalsgagna til verkfræðihönnunar um að hafa á sl. 15 árum unnið í fimm ár að brunatæknilegri hönnun fyrir stórar og meðalstórar byggingar samkvæmt skilgreiningu forvalsgagna.

Kæra kæranda lýtur að lögmæti framangreindrar ákvörðunar varnaraðila um að kærandi hafi ekki uppfyllt kröfur forvalsgagna. Telur hann í fyrsta lagi að kærandi hafi yfir að ráða breiðum hópi sérfræðinga sem séu fyllilega til þess bærir að veita ráðgjöf um hönnun tæknikerfa sjúkrahúsa. Forvalsgögn hafi ekki gert sérstakar kröfur til menntunar þeirra sérfræðinga sem skyldu koma að hönnun tæknikerfa og því sé ólögmætt að útiloka kæranda frá þátttöku í útboði á þeim forsendum að boðnir sérfræðingar hefðu ekki tilskylda menntun. Í öðru lagi byggir kærandi að meginstefnu á því að að hinn tilgreindi lykilstarfsmaður hafi uppfyllt skilyrði forvalsgagna um tilskilda reynslu af brunatæknilegri hönnun fyrir stórar og meðalstórar byggingar.  

Niðurstaða

Í grein 0.7.6 í fyrrgreindum forvalsgögnum er kveðið á um að ef ráðgjafafyrirtæki á sviði starfsemi og hönnunar spítala sé ekki hluti af hönnunarteymi umsækjanda þurfi umsækjandi að hafa samning eða viljayfirlýsingu slíks fyrirtækis, en að í slíku skjali skuli koma fram nöfn a.m.k. þriggja sérfræðinga í hönnun tæknikerfa spítala. Í greininni er því næst fjallað nánar um þá reynslu sem fyrirtækið skuli hafa af hönnun spítala. Þá segir að fyrirtækið skuli hafa „innan sinna raða breiðan hóp sérfræðinga sem veitt geta ráðgjöf í hönnun sérhæfðra sjúkrahúsdeilda, einnig tæknikerfa s.s. rörpóstkerfa, sorp- og línflutningskerfa, AGV vagna, PET scan, Core Lab, Da Vinci, sjálfvirkra lyfjaafgreiðslukerfa o.s.frv.“.

Meðal framlagðra gagna málsins er svonefnt formblað A5, útfyllt af kæranda, ásamt fylgiskjölum, þar sem fram koma upplýsingar um það ráðgjafafyrirtæki sem kærandi studdi umsókn sína í forvalinu við. Að mati nefndarinnar sýna þessar upplýsingar einungis að umrætt ráðgjafafyrirtæki sé með sérhæfingu á sviði skipulags og arkitektónískrar hönnunar spítala. Hins vegar er það mat nefndarinnar að kærandi hafi ekki, á þessu stigi málsins, sýnt fram á það með viðhlítandi hætti að umrætt fyrirtæki fullnægi áskilnaði forvalsgagna um sérfræðikunnáttu á tæknikerfum spítala. Að þessu virtu er það niðurstaða nefndarinnar að ekki hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögum nr. 84/2007 um opinber innkaup eða reglum settum samkvæmt þeim sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar varnaraðila, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, eins og ákvæðinu var breytt með 15. gr. laga nr. 58/2013. Þegar af þessari ástæður verður því að hafna kröfu kæranda þess efnis að kærunefnd stöðvi innkaupaferlið um stundarsakir. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn kærunnar úrskurðar kærunefndar. 

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, SALUS, um að stöðvað verði innkaupaferli vegna forvals fyrir hönnunarútboð nr. 15453 auðkennt „Nýr Landspítali við Hringbraut, meðferðarkjarni og rannsóknarhús“, er hafnað.

 

Reykjavík, 25. október 2013.

 Skúli Magnússon 

Ásgerður Ragnarsdóttir

Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn