Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2013 Matvælaráðuneytið

Áherslur sjávarútvegsráðherra í ræðu á aðalfundi LÍÚ

Sigurður Ingi Jóhannsson í ræðupúlti á aðalfundi LÍÚ
Sigurður Ingi Jóhannsson í ræðupúlti á aðalfundi LÍÚ
Sigurður Ingi sjávarútvegsráðherra ávarpaði aðalfund LÍÚ þann 24. október sl.  Í ræðu sinni kom hann inn á þann óstöðugleika og óróa sem verið hefur í umræðum um sjávarútveg undanfarin ár og að hans vilji stæði til þess að því tímabili myndi ljúka. Framundan væru tímar samráðs og samstarfs með það að markmiði að ná sátt sem flestra um þessa mikilvægu undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það væri mikilvægt að hefja umræðu um sjávarútveg og þau fyrirtæki sem honum tengjast upp á hærra plan og fagna þeim árangri sem náðst hefur í rekstri margra fyrirtækja sem skila þjóðarbúinu arði, hvort sem er í formi gjalda, skatta, starfa eða öðru.

Í ræðu sinni vék ráðherra að þeirri innleiðingu sem nú er unnið að á samningaleið en hún byggir á niðurstöðum sáttanefndarinnar svokölluðu sem skilaði tillögum þessa efnis til þáverandi ráðherra haustið 2010. Skýrt verði kveðið á um að þjóðin sé eigandi auðlindarinnar og að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun. Til að skapa nauðsynlega festu og forðast kollsteypur sé hins vegar eðlilegt að útgerðir fái rétt til nýtingar í tiltekinn tíma, til dæmis 20-25 ár, með skýrum framlengingarákvæðum.  

Gert er ráð fyrir að leyfilegur heildarafli skiptist í tvo flokka: Annars vegar til þeirra sem eru handhafar aflahlutdeilda og nýta hana á grundvelli samnings, hins vegar í flokk sem ætlað er að stuðla að þróun og uppbygginu í atvinnu-, félags- og byggðamálum. Hlutfall í þessa flokka tæki mið af skiptingunni sem er í lögunum í dag.

Ráðherra vék að því að samningi um nýtingu fylgdi ábyrgð og mikilvægt væri að huga að ólíkum markmiðum fiskveiðistjórnunarlaganna þegar kemur að rekstri og rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækjanna, s.s. eins og  hagkvæmni, umhverfissjónarmiðum og byggðasjónarmiðum.  Fyrir þennan fyrirsjáanlega afnotarétt sé eðlilegt að útgerðirnar greiði gjald sem þarf að vera sanngjarnt fyrir báða aðila og tryggja umhverfi sem hvetur til þróunar og nýsköpunar enda sé vöxturinn í sjávarútvegi  í afleiddu fyrirtækjunum. Þau verða til með öflugu samstarfi við veiðar og vinnslu sem ekki má draga máttinn úr með óhóflegri gjaldtöku.

Sigurður Ingi kom einnig inn á stöðu makrílviðræðnanna en ekki tókst að ljúka samningi eins og vonir stóðu til á síðasta fundi. Ísland muni áfram leggja sitt af mörkum í þeirri viðleitni að ná samkomulagi um ábyrga nýtingu stofnsins en Ísland hafði t.d. frumkvæði að því að boða til þeirrar samningalotu sem nú stendur yfir. Þetta var gert þrátt fyrir viðskiptahótanir Evrópusambandsins, ekki vegna þeirra. Ráðherra greindi jafnframt frá því að í ráðuneytinu stæði nú yfir vinna við að greina það hvernig best væri staðið að hlutdeildasetningu makríls til íslenskra skipa.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum