Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2013 Dómsmálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Vel heppnuð fræðsluþing Vitundarvakningar um land allt

Lokið er röð fræðsluþinga, sem haldin voru í október um land allt á vegum Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi. Þátttaka var góð og sátu þau um 830 manns. Fyrsta fræðsluþingið var á Sauðárkróki 1. október þar sem um 120 þátttakendur voru mættir. Síðasta fræðsluþingið var haldið í Reykjavík með um 150 þátttakendum.

Frá fræðsluþingi vitundarvakningar á Hvolsvelli.
Frá fræðsluþingi vitundarvakningar á Hvolsvelli.

Hlutverk Vitundarvakningar er að kortleggja, samhæfa og stuðla að umfangsmiklu forvarnarstarfi í málaflokknum í samstarfi við viðkomandi aðila, huga að rannsóknum varðandi ofbeldi gegn börnum og stuðla að aukinni samfélagsvitund um málaflokkinn. Fræðsla og forvarnir beinast fyrst og fremst að börnum, fólki sem vinnur með börnum, réttarvörslukerfinu og almenningi.

Að Vitundarvakningu standa þrjú ráðuneyti, innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti. Ráðherrar þessara ráðuneyta mættu á flest þingin.

Á fræðsluþinginu í Hafnarfirði sátu allir ráðherrarnir í pallborði þau Eygló Harðardóttir, húsnæðis- og félagsmálaráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Auk þeirra fjölluðu fimm fyrirlesarar á þingunum um einkenni þolenda kynferðisbrots, skaðlega kynhegðun barna og klám, rannsókn kynferðisbrota og annarra brota gegn börnum, réttindi barna og myndina Fáðu já auk annars fræðsluefnis.

Fundurinn í Hafnarfirði var tekinn upp og hægt er að skoða upptökuna á vef Vitundarvakningar.

Fræðsluþingin voru endurgjaldslaus og stóðu öllum opin. Fólk sem vinnur með og í þágu barna og ungmenna var sérstaklega hvatt til að sækja þau.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum