Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Horfur á árinu 2013 í samræmi við fyrra mat - athugasemd vegna umfjöllunar um skýrslu Ríkisendurskoðunar

Nokkur umræða hefur átt sér stað á opinberum vettvangi og á Alþingi um skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir fyrri hluta þessa árs, sem kom út í október sl.  Í skýrslunni er gerð grein fyrir greiðsluafkomu ríkissjóðs á umræddu  tímabili og stöðu einstakra fjárlagaliða í bókhaldi ríkisins.

Hefð er fyrir því að við þann samanburð séu tekin raunútgjöld, annars vegar, og greiðsluáætlun, hins vegar. Greiðsluáætlun byggir á áætlaðri dreifingu gjalda og tekna fyrir einstaka mánuði ársins sem getur tekið breytingum innan fjárlagaársins.  Samkvæmt upgjörinu var ríkissjóður rekinn með 16,7 mia. kr. greiðsluhalla á fyrri hluta ársins, en áætlanir gerðu ráð fyrir heldur meiri halla.

Líkt og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar er mat á greiðsluuppgjöri frábrugðið eiginlegu rekstraruppgjöri, en þar segir eftirfarandi:

„Þegar útkoma innan ársins er borin saman við áætlanir er rétt að hafa hugfast að ekki er gert eiginlegt rekstraruppgjör fyrir ríkissjóð nema fyrir heilt ár. Þetta hefur einkum þýðingu við mat á stöðu liða eins og lífeyrisskuldbindinga, vaxtagjalda, afskrifta skattkrafna o.s.frv. sem ekki eru gerðir upp innan ársins en greiðsluhreyfingar vegna þeirra á árinu kunna að vera aðrar en endanleg niðurstaða þeirra í ríkisreikningi. Þá eru í árshlutauppgjörum ríkissjóðs ekki taldir með fjárlagaliðir þar sem engar gjaldfærslur hafa ennþá átt sér stað á viðkomandi tímabili, en það á t.d. við um liðina 09-391 Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða, 09-711 Afskriftir skattkrafna og 09-990 Ríkisstjórnarákvarðanir. Ýmist eru fjárheimildir á þessum liðum millifærðar yfir á aðra liði eða færslur eru aðeins gerðar í lok ársins.“

Heildarhalli samkvæmt fjárlögum 2013 er tæpir 3,7 mia.kr. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur áður sett fram mat á afkomu ríkissjóðs á árinu 2013, eins og gerð er grein fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2014, þar sem fram kemur að horfur séu á að mun meiri halli verði á ríkissjóði á árinu en áætlað var, eða sem nemur rúmum 31 mia.kr. Vegur þar þungt að tekjur verði lægri sökum breyttra hagvaxtarhorfa, að áætlanir um hagnað af eignasölu gangi ekki eftir, skattabreytingar innan ársins sem Alþingi ákvað sl. sumar, að nokkrir veikleikar eru á gjaldahlið og að einstakar áhættuskuldbindingar raungerist, t.a.m. vegna taps Íbúðalánasjóðs.

Mikilvægt er að mat á greiðslustöðu ríkissjóðs fyrir einstök tímabil gefur takmarkaða mynd af raunverulegum afkomuhorfum á árinu öllu. Því miður bendir flest til að það mat ráðuneytisins, að afkoma fyrir árið í heild verði umtalsvert lakari en fjárlög gera ráð fyrir, sé rétt. Ráðuneytið mun á næstu dögum birta yfirlit yfir afkomu ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins ásamt mati á horfum fyrir árið allt sem er í samræmi við það mat sem hér er vitnað til.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum