Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2013 Forsætisráðuneytið

Skýrsla forsætisráðherra um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi

Forsætisráðherra flutti í dag Alþingi skýrslu um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Sérfræðingahópur var skipaður í ágúst undir formennsku Sigurðar Hannessonar og hefur hópurinn unnið að tillögum um útfærslu á höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Hópurinn byggir sína vinnu á þeim forsendum sem fram komu í þingsályktuninni, þ.e. að leiðrétta eigi þann forsendubrest sem heimili urðu fyrir vegna verðbólguskots áranna 2007-2010. Leiðréttingin skal vera almenn en meta skal hvort setja skuli þak á þá fjárhæð sem hvert heimili getur fengið. Einnig verður metinn fýsileiki þess að ná fram lækkun höfuðstóls með skattaafslætti. Skipaðir hafa verið fjórir undirhópar sérfræðinganefndarinnar. Einn hópurinn undirbýr tillögur um framkvæmd leiðréttingarinnar, annar um stofnun leiðréttingarsjóðs, þriðji um notkun skattkerfisins til að ná fram markmiðunum og sá fjórði um hvata til að skuldbreyta lánum í óverðtryggð. Einnig hafa utanaðkomandi sérfræðingar verið fengnir til að vinna afmarkaða hluta t.d. mat á efnahagslegum áhrifum. Þá er að hefjast vinna við gerð frumvarps um höfuðstólsleiðréttingar.

Undirhópur sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun vinnur a því að meta kosti og galla þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð í tengslum við þetta verkefni. Markmið slíks sjóðs er að flýta fyrir framkvæmd leiðréttingar en sem kunnugt er stendur til að nýta hluta þess svigrúms sem myndast við skuldaskil fallinna fjármálafyrirtækja í leiðréttinguna.

Vinnuhópur skipaður sérfræðingum velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis hefur sett fram tillögur um hvernig gera megi yfirskuldsettum íbúðareigendum kleift að losna undan eftirstöðvum, sem veðið sjálft stendur ekki undir, án gjaldþrots. Þær tillögur sem meðal annars hafa verið teknar til skoðunar eru breytingar á lögum um samningsveð, stofnun félags sem leysti til sín yfirveðsettar eignir, samningar við kröfuhafa um niðurfellingu skulda og sérstakan fyrningatíma á kröfum sem eftir standa við nauðungarsölu.
Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur skipað sjö manna verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála sem hefur það hlutverk að leggja fram tillögur að framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Verkefnisstjórnin hélt sinn fyrsta fund í september 2013 og hefur fundað reglulega síðan.

Í þessu viðamikla verkefni verður kannað hvaða fyrirkomulag á fjármögnun almennra húsnæðislána á Íslandi sé hagkvæmast og hvernig slíku fyrirkomulagi verði komið á. Jafnframt verður skoðað hvernig unnt er að tryggja virkan leigumarkað hér á landi sem og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa. Í því sambandi verður kannað með hvaða hætti stjórnvöld geti sinnt afmörkuðu hlutverki sem felst í veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði. 

Þá hefur frumvarp um lögfestingu flýtimeðferðar dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna þegar verið lagt fram og samþykkt á Alþingi.

Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum var skipaður í ágúst undir formennsku Ingibjargar Ingvadóttur. Hópurinn hefur kynnt sér helstu gögn og fundað með hagsmunaaðilum og sérfræðingum. Efnisyfirlit, verkáætlun og verkaskipting liggur fyrir. Skoðuð verða áhrif afnáms verðtryggingar nýrra neytendalána á neytendur, lánveitendur, fasteignamarkað og efnahagslíf og lagðar fram tillögur að útfærslu og tímasettri áætlun ásamt mótvægisaðgerðum. Áætluð skil eru uppúr miðjum desember.

Unnið er að frumvarpi til laga um veitingu fjárhagsaðstoðar til greiðslu tryggingar á kostnaði vegna gjaldþrotaskipta til þeirra sem engan kost eiga annan en að fara fram á gjaldþrotaskipti á eignum sínum. Áætlað er að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í lok nóvember 2013.

Frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi um afnám stimpilgjalda af lánsskjölum í samræmi við þingsályktunina. Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald af lánsskjölum verði afnumið en stimpilgjald vegna eignaryfirfærslna fasteigna hækkað um 0,4% í tilviki einstaklinga. Einnig er með frumvarpinu lögð til mikil einföldun á framkvæmd og innheimtu gjaldsins. Með afnámi stimpilgjalda af lánsskjölum dregur úr kostnaði við lántöku og einnig mun sú aðgerð auka hreyfanleika viðskiptavina milli banka og stuðla þannig að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði.

Þá var frumvarp lagt fyrir og samþykkt á Alþingi um skýrar heimildir til Hagstofu Íslands til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum