Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2013 Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra kynnti sér aðkomu einkaaðila að samgöngumálum

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra fundaði á mánudag með Ketil Solvik-Olsen, ráðherra samöngu- og fjarskiptamála, í nýrri ríkisstjórn Noregs. Á fundi sínum, sem fram fór í Osló, ræddu ráðherrarnir um sameiginleg verkefni ríkjanna tveggja er snúa að samgöngu- og fjarskiptamálum. Þá ræddi Hanna Birna sérstaklega við norska ráðherrann um aðkomu einkaaðila að vegaframkvæmdum.

Hanna Birna Kriistjánsdóttir og norskur starfsbróðir hennar Ketil Solvik-Olsen
Hanna Birna Kriistjánsdóttir og norskur starfsbróðir hennar Ketil Solvik-Olsen

Fjölmörg samgöngumannvirki hafa á síðustu árum verið reist og rekin af einkaaðilum í Noregi, ýmist með eða án fjárhagslegrar aðkomu norska ríkisins. Ljóst er að Íslendingar geta lært af Norðmönnum í þessum málum við frekari uppbyggingu innviða hér á landi. Sérfræðingar á vegum norska samgöngu- og fjarskiptaráðuneytisins sátu einnig fundinn og fóru yfir þau mál sem voru til umræðu.

Innanríkisráðherra hefur á undanförnum vikum viðrað þá hugmynd, bæði í ræðu og riti, að einkaaðilar komi að frekari uppbyggingu innviða hér á landi. Þannig væri hægt að flýta fyrir framkvæmdum sem þegar eru á 12 ára samgönguáætlun auk þess sem huga mætti að öðrum framkvæmdum. Til stendur að rýna frekar þessa möguleika í samstarfi við Vegagerðina á næstu misserum og má ætla að horft verði til reynslu Norðmanna í þessum málum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum