Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2013 Matvælaráðuneytið

Sigurður Ingi Jóhannsson í ferð um austurland 4.-5. nóvember 2013.

Ráðherra í vélasal Eskju
Ráðherra í vélasal Eskju


Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótti sjávarútvegsfyrirtæki á Austurlandi í fyrri viku, mánudag og þriðjudag. Þar með hefur ráðherra lokið við hringferð um landið, en tilgangurinn var að heyra í stjórnendum sjávarútvegsfyrirtækja um framtíðarhorfur og skipulag. Ráðherra flaug ásamt fylgdarliði til Hafnar í Hornafirði og fyrsti viðkomustaður var Skinney/Þinganes. Fór mestur tími í að ræða svo kallaða samningaleið í sjávarútvegi, veiðileyfagjöld, úthlutun á úthafsrækjukvóta og hlutdeildarsetningu makríls. En í makrílnum eiga Hornfirðingar, eins og margar austfirskar útgerðir, mikið undir.

Því næst lá leið til Fáskrúðsfjarðar, nánar tiltekið í Loðnuvinnsluna. Þar var gengið um sali fjölmargra deilda fyrirtækisins undir leiðsögn forsvarsmanna þess. Ljóst er að Loðnubræðslan er hornsteinn í héraði.

Heimsóknum í fyrirtæki lauk svo hjá Eskju á Eskifirði. Verksmiðjustjórinn sýndi ráðherra glæsilega verksmiðju og þar, eins og víðar á Austurlandi, hefur verið skipt yfir í rafmagnsþurrkun á mjölinu. Úrvals prótín það og bragðið hreint ekki svo illa! Kvöldverður var snæddur í boði bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar í svo kölluðu Randulfssjóhúsi. Þar ræður ríkjum Sævar Guðmundsson, sem tók á móti mannskapnum og flutti stutta sögulega hugvekju um húsið, sem er allt hið merkilegasta.

Forsvarsmenn Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað voru heimsóttir næsta dag og þar gafst tími til að fara yfir rekstur þessa stóra og mikla fyrirtækis auk þess sem vinnslusalir voru gaumgæfðir. Fram kom í máli forsvarsmanna að góðir tímar hefðu verið í uppsjávarveiðum að undanförnu, en  menn töldu sig sjá fram á að þeim væri að ljúka, þótt verð væru enn viðunandi. Síðan var haldið upp á Hérað og flogið „suður“.  

Útgerðarmenn sem rætt var við í ferðinni báru sig allvel og sögðu undanfarin misseri hafa verið afar góð; aflabrögð ágæt og verð á markaði hátt. Menn hafa nýtt góða afkomu, fyrst og fremst til að fjárfesta og víða mátti sjá hvar íslenskt hugvit og handverk var í fyrirrúmi í stórum og glæsilegum vinnslusölum. Stærsta breytingin felst í að skipta úr olíukyndingu við þurrkun yfir í rafmagn. Með því sparast stórfé og ekki síður verðmætur gjaldeyrir. En um leið bentu menn á það, að auka þyrfti afhendingaröryggi á rafmagni á Austurlandi, því lítið mætti út af bera á álagstíma.

Ráðherra um bor í Ljósafelli SU-70












Sigurður Ingi um borð í Ljósafellinu SU-70, ísfisktogara Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.


Ráðherra um bor í Ljósafelli SU-70
Ráðherra um bor í Ljósafelli SU-70

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum