Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Kærð ákvörðun Matvælastofnunar varðandi hýsingu hrossa í hesthúsum að Funaholti 1 og 2 í Kópavogi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hinn 26. nóvember 2013 kveðið upp svohljóðandi:

ÚRSKURÐ

Kröfugerð

Með stjórnsýslukæru dags. 25. október 2013, kærði Gunnar Már Zophaníasson, kt. 161251-2469, hér eftir nefndur kærandi, bréf Matvælastofnunar dags. 19. janúar 2012 varðandi hýsingu hrossa í hesthúsum að Funaholti 1 og 2 í Kópavogi. Kærandi krefst þess að skýrsla Matvælastofnunar dags. 19. janúar 2012 verði ómerkt. Viðurkennt verði við kæranda að Matvælastofnun hafi brotið skyldur sínar á réttindum kæranda, þar sem hann hafi ekki verið viðstaddur úttekt á hrossum í hans umsjá í samræmi við ákvæði laga.

Um kæruheimild gildir 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum og venju.

Málsatvik

Samkvæmt fyrirliggjandi stjórnsýslukæru dags. 25. október 2013 og gagna málsins voru málsatvik með þeim hætti að þann 18. janúar 2012 fór Matvælastofnun í eftirlit til kæranda í hesthús að Funaholti 1 og 2 í Kópavogi. Tilefni eftirlitsins var kvörtun sem héraðsdýralækni Suðvesturumdæmis barst þess efnis, að í Funaholti 1 og 2 í Kópavogi væru hýst hross við óviðunandi aðstæður. Eftirlitið var framkvæmt af héraðsdýralækni Suðvesturumdæmis, eftirlitsdýralækni í Suðvesturumdæmdi og búfjáreftirlitsmanni í Kópavogi. Kærandi var ekki viðstaddur þegar eftirlitið fór fram og eftir framangreinda skoðun var kæranda sent bréf dags. 19. janúar 2012 þar sem þeim tilmælum var beint til kæranda, þ.e. eiganda og ábyrgðamanna hrossanna, að bæta þyrfti aðbúnað hrossa og trippa í fyrra húsinu hið fyrsta. Með vísan til gagna málsins aðhafðist Matvælastofnun ekki frekar í málinu eftir að framangreint bréf var sent til kæranda. Kærandi óskaði eftir því við héraðsdýralækni Suðvesturumdæmis, með tölvupósti 24. apríl 2013, að fá gögn málsins afhent. Kærandi ítrekaði beiðni sína með tölvupósti til Matvælastofnunar dags. 15. maí 2013. Matvælastofnun svaraði erindi kæranda með bréfi dags. 29. maí 2013.

Kærandi kærði framangreint bréf Matvælastofnunar dags. 19. janúar 2012 til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins með kæru dags. 25. október 2013. Með bréfi sama dag veitti ráðuneytið kæranda frest til 15. nóvember 2013 til að koma á framfæri frekari upplýsingum um ástæður þess að kæran barst að loknum kærufresti í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Sama dag óskaði ráðuneytið einnig eftir gögnum frá Matvælastofnun vegna málsins. Með bréfi dags. 7. nóvember 2013 bárust ráðuneytinu gögn Matvælastofnunar þ.e. framangreint bréf stofnunarinnar dags. 19. janúar 2012 sem áður hafði borist til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru dags. 25. október 2013. Með bréfi 5. nóvember 2013 bárust ráðuneytinu frekari upplýsingar frá kæranda vegna stjórnsýslukæru.

Málsástæður og lagarök í stjórnsýslukæru

Kærandi vísar til þess í kæru að þann 18. janúar 2012 hafi héraðsdýralæknir Suðvesturumdæmis haft samband við sig og upplýst að farið hefði verið inn í hesthúsin Funaholti 1 og 2 í Kópavogi fyrr sama dag. Þar voru skoðuð hross í umsjá kæranda vegna ábendinga um dýraníð. Héraðsdýralæknir upplýsti kæranda um að ástand hrossanna væri gott, þó þau væru blaut, en kæranda myndi berast skýrsla vegna skoðunarinnar. Kærandi bendir á að í aðdraganda athafnarinnar hafi aldrei verið reynt að hafa samband við sig sem umráðamann hrossanna í samræmi við ákvæði laga. Kærandi hafi frétt af athöfninni í framangreindu símtali við héraðsdýralækni, eftir að hún hafði farið fram. Kærandi telur að með framangreindri athöfn hafi verið brotið gegn 15. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., þar sem kemur fram að óheimilt sé að fara í þessum tilgangi inn í gripahús án leyfis ábúenda eða umráðamanns búfjár nema að undangengnum dómsúrskurði. Telur kærandi að um íþyngjandi athöfn sé að ræða þar sem ekki hafi verið gætt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og brotið hafi verið gegn 15. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald þar sem ekki var aflað dómsúrskurðar áður en skoðunin fór fram.

Kærandi telur einnig að athöfnin og aðdragandi hennar brjóti gegn rannsóknarreglu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr., 13. gr. og 20. gr. stjórnsýslulaga og skyldu að leiðbeina um kæruheimild skv. 26. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi kærandi ekki verið upplýstur um kærufrest eða hvernig hann gæti borið sig að í málinu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga sbr. 27. gr. sömu laga.

Kærandi telur að í bréfi Matvælastofnunar dags. 19. janúar 2012 hafi ekki komið fram upplýsingar sem gefið hafi tilefni til aðgerða af hálfu Matvælastofnunar. Þá hafi ekki verið tilefni til svo íþyngjandi aðgerða og raun bar vitni. Kærandi vísar til þess í kæru að samkvæmt bréfi Matvælastofnunar 19. janúar 2012 hafi verið blaut hross í öðru húsinu. Kærandi vísar til meðfylgjandi gagna og bendir á að mikil bleytutíð með umhleypingum hafi verið þann 18. janúar 2012 og vikuna þar á undan. Hestagerðin hafi verið blaut og þegar eftirlit Matvælastofnunar fór fram þann 18. janúar 2012 hafi morgunverkum verið lokið. Þá hafi hrossin farið út í gerðin og vellt sé í bleytunni og drullunni sem þar hafði myndast. Kærandi bendir einnig á að öllum sem halda hross á húsi sé skylt að hleypa þeim út í a.m.k. klukkustund á dag sbr. 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 160/2006 um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa. Kærandi bendir einnig á að samkvæmt skýrslu Matvælastofnunar hafi hrossin haft nægt fóður sem sé í samræmi við 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 160/2006.

Kærandi bendir einnig á að hann hafi leitað skýringa hvers vegna málið sé til komið. Hafi kæranda borist þau svör að ábending hafi borist frá starfsmanni áhaldahús Kópavogs sem einnig gengdi starfi búfjáreftirlitsmanns í Kópavogi. Hafi kæranda einnig borist þær upplýsingar að engin frekari gögn séu hjá stofnuninni vegna málsins. Kærandi vísar til þess í kæru að það sé meiðandi og þungbært að vera sakaður um dýraníð og telur kærandi sig hafa verulega hagsmuni af því að hin ólögmæta og kærða aðgerð sé ógild, enda sé hún haldin verulegum annmörkum.

Rökstuðningur

Kæra í máli þessu er byggð á 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir „Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.“ Með vísan til kæru dags. 25. október 2013 er kærð skýrsla Matvælastofnunar dags. 19. janúar 2012. Í skýrslunni er að finna lýsingu á aðstæðum við eftirlit Matvælastofnunar sem framkvæmt var 18. janúar 2012. Í skýrslunni segir m.a. „Undirrituð vilja beina þeim tilmælum til eiganda og ábyrgðamanna hrossanna að bæta þurfi aðbúnað hrossa og trippa í fyrra húsinu hið fyrsta. Æskilegast væri að flytja hrossin annað en að öðrum kosti þarf að tryggja að undirlag sé ávalt þurrt og snyrtilegt.“ Með vísan til orðalags skýrslunnar telur ráðuneytið að um sé að ræða tilmæli en ekki stjórnvaldsákvörðun. Hefur sú túlkun verið staðfest í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 1395/1995 frá 15. febrúar 1996. Þá telur ráðuneytið með vísan til gagna málsins að skýrsla Matvælastofnunar sé þess eðlis að vera hluti af stjórnsýslumeðferð stofnunarinnar. Stofnunin hafi ekki aðhafst frekar í málinu en að beina framangreindum tilmælum til kæranda. Ráðuneytið telur því að skýrsla Matvælastofnunar sem slík feli ekki í sér að vera stjórnvaldsákvörðun og því hafi Matvælastofnun ekki verið skylt að leiðbeina um kærufrest og kæruleiðir sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið telur að almennt eftirlit stjórnvalda teljist ekki til stjórnvaldsákvarðana en við eftirlit kunna þó að koma fram upplýsingar sem geta orðið kveikjan að stjórnsýslumáli þar sem tekin verður stjórnvaldsákvörðun. Með vísan til gagna málsins aðhafðist Matvælastofnun ekki frekar í málinu eftir að kæranda voru send framangreind tilmæli með bréfi stofnunarinnar 19. janúar 2012. Ráðuneytið telur að eftirlit að Funaholti 1 og 2 í Kópavogi þann 18. janúar 2012 hafi verið hluti af málsmeðferð stofnunarinnar og ekki falið í sér að vera stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til ráðuneytisins. Ákvarðanir sem snúa að eftirliti eða málsmeðferð geta þrátt fyrir það verið kæranlegar ef stjórnvald tekur stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til æðra stjórnvalds. Þar sem meðferð málsins lauk ekki með töku stjórnvaldsákvörðunar er ekki unnt að taka kæruna til efnislegrar meðferðar og ber að vísa kærunni frá.

Ráðuneytið bendir einnig á að framangreint eftirlit fór fram þann 18. janúar 2012 en stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu 25. október 2013, eða þegar liðnir voru 20 mánuðir frá því að eftirlitið fór fram. Samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Ef kæra berst að liðnum framangreindum fresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Undantekningar eru veittar ef afsakanlegt er að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæra verði tekin til meðferðar sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Með bréfi kæranda dags. 5. nóvember 2013 barst ráðuneytinu frekari upplýsingar vegna kærunnar. Í bréfinu kemur fram að kæranda hafi ekki verið leiðbeint af hálfu Matvælastofnunar um kæruheimild og kærufresti. Þá vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis nr. 3055/2000 frá 29. maí 2001er varðar leiðbeiningaskyldu stjórnvalda og tilvik þar sem afsakanlegt er að kæra hafi ekki borist innan kærufrests. Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga segir „Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“ Eins og áður hefur verið rakið er liðið meira en ár frá því eftirlit Matvælastofnunar fór fram og skýrsla stofnunarinnar barst til kæranda. Ráðuneytið telur að afsakanlegar ástæður eða veigamiklar ástæður fyrir því að kæra barst ekki fyrr geti ekki réttlætt frávik frá 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Hefur sú túlkun verið staðfest í álitum umboðsmanns Alþingis nr. 2770/1999 frá 26. október 2000 og 2675/1999 frá 27. október 2000.

Með vísan til framangreinds er ekki unnt að taka framangreinda kæru til efnislegrar meðferðar og ber að vísa henni frá.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Stjórnsýslukæru Gunnars Más Zophaníassonar, kt. 161251-2169 dags. 25. október 2013 er vísað frá.

 

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 

                                               Ólafur Friðriksson                              Rebekka Hilmarsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn