Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2013 Innviðaráðuneytið

Teymi þrjú: Þriðji fundur um skilvirk félagsleg úrræði í húsnæðismálum

  • Nefndarheiti: Teymi  3 – Skilvirk félagsleg úrræði í húsnæðismálum.
  • Nr. fundar: 3.
  • Staður og stund: Velferðarráðuneytinu, 19. nóvember 2013, kl. 11.
  • Fundarstjóri: Elsa Lára Arnardóttir.
  • Mætt: Ásta G. Hafberg (Samtök leigjenda), Björk Vilhelmsdóttir (Reykjavíkurborg), Björn Arnar Magnússon (Brynja hússjóður Öryrkjabandalagsins), Gunnhildur Gunnarsdóttir (Íbúðalánasjóður), Gyða Hjartardóttir (Samband íslenskra sveitarfélaga), Hólmsteinn Brekkan (Þingflokkur Pírata), Magnús Norðdahl (Alþýðusamband Íslands), Kristinn Dagur Gissurarson (Þingflokkur Framsóknarflokksins), Þorbera Fjölnisdóttir (Sjálfsbjörg) og Þorsteinn Kári Jónsson (Þingflokkur Bjartrar framtíðar).
  • Fundarritari: Sigrún Jana Finnbogadóttir.

Dagskrá:

1. Danska leiðin.

MN kynnti dönsku leiðina svokölluðu og notaðist við glærur sem unnt er að nálgast á eftirfarandi vefslóð:

http://www.asi.is/Portaldata/1/Resources/documents/N_tt_kerfi_almennra_h_sn__isl_na_a__danskri_fyrirmynd_(3).pdf

Í umræðum um dönsku leiðina kom fram að samhliða kerfinu væri gert ráð fyrir einhvers konar stuðningi til þeirra sem á þurfi að halda í formi húsnæðisbóta. Fram kom að það væri áhyggjuefni hversu mikið fjármagn ríkið þyrfti að leggja til í almenna kerfið, þ.e. almenna leigumarkaðinn, en á móti var bent á að líta yrði á þetta fjármagn sem fjárfestingu því kerfið yrði sjálfbært eftir tiltekinn tíma. Ennfremur var bent á að leigumarkaðurinn væri mjög erfiður í Danmörku líka þar sem erfitt er að komast inn í kerfið auk þess sem minni kröfur væru gerðar til húsnæðis en hérlendis. Þá var þeirri spurningu varpað fram hvort danska leiðin hefði verið kostnaðarmetin og kostnaður við hana borinn saman við kostnað við kerfið eins og það er í dag. Loks kom fram að í Danmörku væri heildstætt leigukerfi viðurkennt fyrir alla sem það kjósa, byggt á ódýrustu fáanlegu fjármögnun, sérstaklega styrktri vegna skilgreinda hópa þegar við ætti, og sé þannig ekki bara þá sem þurfa félagslega aðstoð heldur „blandi byggð“.

2. Blönduð byggð hjá Reykjavíkurborg.

BV kynnti verkefni sem er liður af húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar sem lýtur að blandaðri byggð. Umfjöllun um húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar og verkefnið (sjá frá glæru 30) er unnt að nálgast á eftirfarandi vefslóð: http://reykjavik.is/sites/default/files/husnaedisstefna_og_uppbygging_i_reykjavik-kynning-januar2014.pdf

Í umræðum um verkefnið kom fram að tilgangurinn með því sé að breikka leigjendahóp sem nú leigir hjá Félagsbústöðum, meðal annars þannig að stúdentum og öðrum félagasamtökum sé boðið að leigja hluta þessara húsa og framleigja til sinna félagsmanna. Fram kom að grundvallarskilyrði sé leigjendur fái húsnæðisbætur. Fjárfestar hafi greint frá því að erfitt sé að koma inn á markaðinn því fólk vilji frekar kaupa þar sem það sé ódýrara að greiða af láni til kaupanna með tilliti til vaxtabóta. Ennfremur kom fram að áhugavert væri að sjá hvað kerfi svipað því sem verið er að vinna að hjá Reykjavíkurborg myndi kosta fyrir allt landið. Jafnframt kom fram að þetta kerfi væri í miklu samræmi við hugmyndafræðina sem liggur að baki dönsku leiðinni.

3. Næsti fundur

Ákveðið að næsti fundur yrði haldinn þann 26. nóvember 2013, kl. 11.30 í velferðarráðuneytinu.

Fleira var ekki tekið fyrir.

Sigrún Jana Finnbogadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum