Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 28/2013.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

 

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 29. nóvember 2013

í máli nr. 28/2013:

Logaland ehf.

gegn

Landspítala  

Með kæru 20. nóvember 2013 kærir Logaland ehf. verðfyrirspurnir Landspítala  auðkenndar nr. 16/2013 „Almennar stungunálar“, nr. 17/2013 „Innrennslisnálar ungbarna“, nr. 18/2013 „Sprautur án skrúfgangs“ og nr. 19/2013 „Blóðgas sprautur með og án nálar“. Þá kærir kærandi einnig „fyrirkomulag innkaupa á öðrum vörum sem tilgreindar voru í rammasamningsnútboði Ríkiskaupa nr. 15066.“  Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfum kæranda um að stöðva „það innkaupaferli sem verðfyrirspurnirnar hafa sett af stað“ og „núverandi innkaupaferli/samningsgerð á öðrum vörum sem voru tilgreindar í útboði nr. 15066“. Varnaraðila hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda.

Af gögnum málsins verður ráðið að á árinu 2011 hafi kærandi tekið þátt í útboði auðkenndu nr. 15066 „Rammasamningsútboð. Ýmsar gerðir af nálum, vökva- og blóðgjafasettum o.fl. fyrir heilbrigðisstofnanir.“ Kveður kærandi að útboðið hafi verið afturkallað og fellt niður í kjölfar kæru kæranda til kærunefndar. Þá liggur fyrir að 23. október 2013 birti varnaraðili á vef sínum verðfyrirspurnir auðkenndar nr. 16/2013 og 17/2013 og 5. nóvember verðfyrirspurnir auðkenndar nr. 18/2013 og 19/2013, en hér er um að ræða margar þær sömu vörur og voru boðnar út í fyrrnefndu rammasamningsútboði. Kærandi kveðst fyrst hafa tekið eftir þessum fyrirspurnum á vef varnaraðila 6. nóvember 2013.  

Kæra kæranda byggir að meginstefnu á því að varnaraðila hafi borið að bjóða út innkaup á þeim vörum sem framangreindar verðfyrirspurnir lúta að, sem og aðrar þær vörur sem boðnar voru út í framangreindu rammasamningsútboði nr. 15066, í samræmi við þau innkaupaferli sem lög nr. 84/2007 um opinber innkaup áskilja. Þá byggir kærandi jafnframt á því að lágmarkskröfur eða valforsendur verðfyrirspurnanna séu svo óljósar og huglægar að þær fullnægi ekki áskilnaði sömu laga.  

Niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 10. gr. laga nr. 58/2013, eru lögvarðir hagsmunir ekki skilyrði kæru þegar um er að ræða ætlað brot gegn skyldu til að nota lögákveðið innkaupaferli eða auglýsa innkaup. Er kæranda því heimilt að hafa uppi kröfu um stöðvun umræddra innkaupa á þeim grundvelli sem áður er lýst.

Við mat á áætluðu virði innkaupa skal miða við þá heildarfjárhæð sem kaupandi kemur til með að greiða fyrir innkaup, að frátöldum virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga um opinber innkaup. Við þennan útreikning skal taka tillit til heildarfjárhæðar, þar á meðal hvers konar valfrjálsra ákvæða og hugsanlegrar endurnýjunar samnings. Er í málinu fram komið að varnaraðili hyggst í þremur tilvikum gera samninga um áðurlýstar vörur til tveggja ára með heimild til framlengningar tvívegis til eins árs. Verður því að leggja til grundvallar að gildistími fyrirhugaðra samninga sé fjögur ár.

Í máli þessu hefur varnaraðili lagt fram gögn úr sölukerfi sínu sem sýna keypt magn og verðmæti þeirra vara sem áðurnefndar verðfyrirspurnir lúta að vegna ársins 2012. Af þeim verður ráðið að heildarverðmæti þessara vara nær ekki viðmiðunarfjárhæð samkvæmt 20. gr. laga um opinber innkaup jafnvel þótt miðað sé við fjögur ár. Með hliðsjón af 1. mgr. 27. gr. laganna telur kæruefnd hins vegar, eins og málið liggur fyrir nú, líkur standa til þess að rétt sé að horfa til samanlagðs virðis umræddra samninga sem ætlunin er að koma á, einkum þeirra samninga sem lúta að verðfyrirspurnum nr. 16 og 17 annars vegar og nr. 18 og 19 hins vegar. Ef þetta er lagt til grundvallar myndi samanlagt virði umræddra samninga ná viðmiðunarfjárhæðum 20. gr. laganna. Hafa því verið leiddar verulegar líkur að því að varnaraðila hafi því borið að gæta lögákveðinna innkaupaferla við umrædd innkaup. Með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013, verður því fallist á kröfu kæranda um að stöðvuð verði fyrrnefnd innkaupaferli, svo sem nánar greinir í ákvörðunarorðum.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins að hafin séu innkaup vegna annarra þeirra vara sem féllu undir rammasamningsútboð nr. 15066. Eru því ekki efni til þess að fallast á stöðvunarkröfu kæranda frekar en þegar hefur verið gert. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn kærunnar úrskurðar kærunefndar. 

Ákvörðunarorð:

Innkaupaferli varnaraðila, Landspítala, samkvæmt verðfyrirspurnum auðkenndum nr. 16/2013 „Almennar stungunálar“, nr. 17/2013 „Innrennslisnálar ungbarna“, nr. 18/2013 „Sprautur án skrúfgangs“ og nr. 19/2013 „Blóðgas sprautur með og án nálar“ eru stöðvuð um stundarsakir.

 

Reykjavík, 29. nóvember 2013.

Skúli Magnússon

Stanley Pálsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn