Hoppa yfir valmynd
10. desember 2013 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Samráð um úrgang í hafi

Rusl á íslenskri strönd

Samráðsferli framkvæmdastjórnar Evrópusambandins á netinu um úrgang í hafi er nú á lokametrunum en frestur til að skila inn athugasemdum og skoðunum vegna þess rennur út 18. desember næstkomandi. Samráðsferlið er liður í því að setja markmið um takmörkun þessa úrgangs í samræmi við 7. umhverfisáætlun sambandsins sem verður samþykkt formlega á næstunni.

Óskað er eftir skoðunum almennings á því hvernig draga megi úr úrgangi í hafi. Er m.a. spurt um til hvers kyns aðgerða megi grípa í því skyni að draga úr úrgangi í hafi; hversu víðtækar slíkar aðgerðir eigi að vera og hvernig ólíkir aðilar geti lagt sitt af mörkum við að leysa það vandamál sem úrgangur í hafi er.

Um tíu milljón tonna af úrgangi enda í hafinu á hverju ári. Þessi úrgangur samanstendur m.a. af plasti, gleri, viði, málmum og fleiru og er oft á tíðum afar lengi að brotna niður í náttúrunni. Vandamálið verður til við að úrgangurinn verður viðskila við „eigendur“ sína á ströndum og á hafi úti. Rannsóknir hafa sýnt að plast er meginuppistaða þess úrgangs sem velkist um í hafinu, og þá sérstaklega plastumbúðir, s.s. drykkjarflöskur og plastpokar. Þá hefur reynslan sýnt að töluvert fiskveiðibúnaðar, s.s. ónýt net og reipi, endar í hafinu, sem og hreinlætisúrgangur á borð við dömubindi, eyrnapinna og smokka. Vandamálið magnast við það hversu langan tíma plast tekur að brotna niður í hafinu. Þá vill það kvarnast niður í minni einingar og þannig er hætta á því að það komist í fæðukeðjuna í gegn um fiska og aðrar lífverur hafsins. 

Talið er að um 80% af úrgangi í hafi berist þangað af landi með árfarvatni, afrennsli eða vindum. Sérstaklega er talið að slakar aðstæður til sorphirðu í grennd við ár eða strandir geti aukið verulega á vandamálið. Þar af leiðandi er stefnumörkun varðandi meðhöndlun úrgangs á landi sérlega mikilvæg þegar kemur að því að hindra það að rusl berist á haf út.

Evrópusambandið vinnur nú að endurskoðun þriggja úrgangstilskipana en málið varðar fleiri tilskipanir og stefnur sambandsins á þessu málasviði. Verða niðurstöður samráðsins nýttar við endurskoðun stefnumótunar ESB í úrgangsmálum sem aftur er líkleg til að hafa áhrif á lagaumgjörð sambandsins þar að lútandi.

Skv. EES-samningnum er Íslendingum skylt að innleiða löggjöf ESB í úrgangsmálum og því gæti málið varðað þá með beinum hætti.

Frestur til að taka þátt í samráðinu er til 18. desember 2013.

Samráðsferli um úrgang í hafi

Nánari upplýsingar 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira