Hoppa yfir valmynd
19. desember 2013 Félagsmálaráðuneytið

Birtir til á Suðurnesjum

Fimm árum eftir efnahagshrun er farið að birta til á Suðurnesjum segir í nýrri skýrslu Suðurnesjavaktarinnar um aðstæður á svæðinu. Þar er meðal annars fjallað um atvinnuástand, húsnæðismál, fjárhagslega stöðu heimilanna, skólamál og fleira.

Suðurnesjavaktin lýkur formlega störfum um áramótin en hún hefur starfað undir merkjum velferðarvaktarinnar frá árinu 2011 með það að markmiði að efla samstarf allra sveitarfélaga á Suðurnesjum á sviði velferðarmála.

Í inngangi að skýrslu Suðurnesjavaktarinnar segir m.a: „Núna fimm árum eftir efnahagshrun er fyrst óhætt að segja að farið sé að birta til á svæðinu. Samfélagið á Suðurnesjum hefur gefið vel í að undanförnu og farið úr því að bíða eftir tækifærunum í að nýta tækifærin og styrkleikana sem eru hér til staðar og vinna markvisst að því að gera Suðurnesin að enn betra samfélagi. Aðgerðir á vegum ríkis og sveitarfélaga eru að skila sér og má sem dæmi nefna að samstarf á milli aðila í velferðarþjónustu hefur styrkst með tilkomu Suðurnesjavaktarinnar, frumkvöðlastarfsemi á Ásbrú hefur farið vaxandi með tilkomu atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar, þróunarverkefni um eflingu menntunar á Suðurnesjum skilaði áhugaverðum niðurstöðum og nýjar áherslur í skólastarfi á Suðurnesjum eru að skila árangri.“

Helstu niðurstöður úr skýrslu Suðurnesjavaktarinnar:

  • Dregið hefur verulega úr atvinnuleysi á Suðurnesjum. Í maí 2012 mældist atvinnuleysi á svæðinu 9,4% en var 5,4% í september 2013. Á landinu öllu mældist atvinnuleysi í september 3,8%. 32% einstaklinga á atvinnuleysisskrá eru undir 30 ára aldri.
  • Hlutfall heimila í vanskilum er hæst á Suðurnesjum en 17% íbúa á Suðurnesjum yfir 18 ára aldri eiga í alvarlegum vanskilum. Næst á eftir Suðurnesjum kemur Suðurland með 10,7% og höfuðborgarsvæðið með 9,7%.
  • Eignir Íbúðalánasjóðs eru flestar á Suðurnesjum eða samtals 811. Frá því í apríl 2012 hefur eignum sjóðsins á svæðinu fjölgað um 40%. Nauðungarsölum heimila á Suðurnesjum fer enn fjölgandi og stefnir í metfjölda nauðungarsala árið 2013.
  • Mikil vinna hefur verið lögð í að skilgreina styrkleika svæðisins og tækifæri til vaxtar. Fjölbreytt og metnaðarfull verkefni hafa verið lögð fram sem ætlað er að mæta þeim erfiðleikum sem steðjað hafa að svæðinu.
  • Meðaltalsárangur grunnskólanema í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði á samræmdum prófum nú í haust er sá besti frá upphafi mælinga.

Suðurnesjavaktin var sett á fót tímabundið í byrjun árs 2011 með stuðningi velferðarráðuneytisins. Upphaflega var ráðgert að hún starfaði til ársloka 2012 en verkefnið var framlengt til loka þessa árs.

Áfangaskýrsla Suðurnesjavaktarinnar 2013

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira