Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Samið við Reykjanesbæ um áframhaldandi þjónustu við hælisleitendur

Útlendingastofnun hefur samið við Reykjanesbæ, fyrir hönd innanríkisráðuneytisins, um áframhaldandi þjónustu við hælisleitendur. Gildir sá samningur út árið með heimild til framlengingar um ár.

Í samningnum er gert ráð fyrir að sveitarfélagið taki að sér þjónustu við allt að 70 hælisleitendur og í viðauka með samningnum er tilgreint í hverju þjónustan skal fólgin svo sem í húsnæði, framfærslu, heilbrigðisþjónustu, túlkaþjónustu, ráðgjöf og tómstundum. Skömmu fyrir jól var hliðstæður samningur gerður við Reykjavíkurborg.

Samningarnir eru liðir í því hlutverki stjórnvalda að tryggja þjónustu við hælisleitendur meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum en á síðastliðnu ári hefur verið unnið að sérstöku átaki í hælismálum hvað varðar málsmeðferðartíma og búsetu hælisleitenda. Áframhaldandi samningur við Reykjanesbæ er stór þáttur í því verkefni.

Á myndinni eru frá hægri þau Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, sem skrifuðu undir samninginn.

Útlendingastofnun og Reykjanesbær hafa samið um áframhaldandi þjónustu við hælisleitendur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira