Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Daglegar annir og 1660 skilríki

Sturla Sigurjónsson sendiherra í Kaupmannahöfn
Sturla Sigurjónsson

Daglegar annir og 1660 skilríki

Árangur af daglegum störfum í sendiráði getur í sumum tilfellum verið ill mælanlegur eða komið í ljós á lengri tíma. Margbreytileg samskipti í síma, með tölvupóstum og á fundum geta greitt götu einstakra Íslendinga, varið íslenska hagsmuni, laðað erlenda ferðamenn til Íslands eða undirbúið viðburði á vegum sendiráðsins, án þess hægt sé nákvæmlega að bókfæra árangur.

Samt eru sumir verkþættir þess eðlis að tölfræðin getur gefið vísbendingar um hluta starfseminnar. Eins og gerist víða, höfum við í sendiráðinu reynt að gera upp árið 2013. Talning hefur leitt í ljós að þá  voru gefin út 1,660 skilríki, aðallega vegabréf og ökuskírteini, og hver afgreiðsla tekur að meðaltali 30-45 mínútur. 

Þannig má leiða að því líkum að alls hafi farið 1100 vinnustundir í þessi mikilvægu störf sem jafngildir 138 samfelldum vinnudögum! Hingað komu 574 Íslendingar til að kjósa utankjörstaðar og þurftu margir leiðbeiningar um merkingu fylgiskjala og sendingu kjörseðils. Afgreiðslur vegna aðstoðarmála og almennra fyrirspurna voru um 700 talsins og vörðuðu t.d. samskipti íslenskra borgara við opinberar stofnanir í Danmörku, íslenska fanga, sjúklinga, dauðsföll og aðstandendur.

Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn er til húsa í Norðurbryggju á KristjánshöfnStarfsmenn sendiráðsins hafa tekið að sér sum þeirra verkefna sem að sendiráðsprestur gegndi áður en sú staða var lögð niður. Svarað var rúmlega 200 ferðamálafyrirspurnum, þ.á m. mörgum sem áður bárust skrifstofu Ferðamálaráðs í Kaupmannahöfn sem var lokað. Skráðar viðskiptafyrirspurnir voru rúmlega 100, aðallega frá smáum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi og í Danmörku. 

Sífellt fleiri Íslendingar í Danmörku stunda fjarnám við íslenska skóla og alls þreyttu 162 próf í sendiráðinu á árinu en starfsmenn sendiráðsins þurfa að samræma próftökuna við hvern skóla, taka á móti gögnum, fylgjast með nemendum í prófi og senda aftur svör þeirra. Þá voru útgefin 15 svonefnd lífsvottorð, sem eðli málsins samkvæmt krefjast þess að umsækjandi komi í sendiráðið, auk þess sem framkvæmdar voru um 40 lögbókendagerðir. Loks má nefna að 599 gestir sóttu ýmsa viðburði í sendiherrabústaðnum, m.a. tónleika íslenskra tónlistarmanna. Þá er ekki meðtalið það sem varðar hin þrjú ríkin sem sendiráðið gegnir, þ.e. Búlgaríu, Rúmeníu og Tyrkland.

 Sturla Sigurjónsson er sendiherra í Kaupmannahöfn

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum