Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 1/2014.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 24. janúar 2014

í máli nr. 1/2014:

Spennandi ehf.

gegn

Fasteignum Akureyrarbæjar

Með kæru 7. janúar 2014 kærir Spennandi ehf. innkaup Fasteigna Akureyrarbæjar á vatnsrennibraut og uppgöngustigahúsi við Sundlaug Akureyrar samkvæmt svonefndri verðkönnun. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva innkaupaferlið. Varnaraðila hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda.

Af gögnum málsins verður ráðið að hinn 28. ágúst 2013 hafi varnaraðili óskað tilboða frá átta tilgreindum aðilum, þ.á m. kæranda, í vatnsrennibrautir og uppgöngustigahús við Sundlaug Akureyrar án þess að um hafi verið að ræða opinbera auglýsingu. Voru kröfur varnaraðila settar fram í bréfi auðkennt „verðkönnun“ og skyldu bjóðendur skila inn tilboðum á svonefndum verðkönnunarblöðum. Bera gögn málsins með sér að tilboð hafi borist frá þremur aðilum, þ.á m. kæranda, og að hinn 19. desember 2013 hafi kæranda verið tilkynnt að varnaraðili hyggðist ganga til samninga við annan bjóðanda.

Kæra kæranda byggir að meginstefnu á því að varnaraðila hafi borið að bjóða út innkaup á þeim vörum sem að framan eru greindar í samræmi við lög nr. 84/2007 um opinber innkaup. Það hafi hann ekki gert og breyti engu þó að varnaraðili hafi kosið að setja innkaup sín í búning verðkönnunar. Þá hafi varnaraðili sniðgengið lagalegar skyldur sem á honum hvíldu  samkvæmt lögunum. 

Niðurstaða

Eins og mál þetta liggur fyrir að svo stöddu verður að leggja til grundvallar að varnaraðili sé opinber aðili í skilningi 2. mgr. 3. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Einnig verður við það að miða að með framangreindum innkaupum hafi verið stefnt að gerð vörusamnings í skilningi 3. mgr. 4. gr. laganna yfir viðmiðunarfjárhæðum 78. gr. laganna, en fyrir liggur að sá samningur sem til stendur að gera í kjölfar innkaupaferlis varnaraðila er að fjárhæð ríflega 99 milljónir króna. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laganna skal við framkvæmd innkaupa yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 78. gr. þeirra fylgja ákvæðum 35. – 43. gr. tilskipunarinnar og þeim reglum sem þar er vísað til, eftir atvikum eins og þeim kann að hafa verið breytt skv. 79. gr. tilskipunarinnar, en að öðru leyti skal farið að reglum 2. þáttar laganna með þeim frávikum sem upp eru talin í ákvæðinu. Í því felst meðal annars að innkaup skulu fara eftir þeim innkaupaferlum sem tilgreind eru í V. kafla laga um opinber innkaup og eftir atvikum í samræmi við reglur VI., VII., VIII og IX. kafla laganna.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að framangreind innkaup hafi farið fram í samræmi við þá innkaupaferla og þær reglur sem lög um opinber innkaup áskilja samkvæmt framangreindu. Hafa því verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup. Með vísan til 1. mgr. 96. gr. laganna, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013, verður því fallist á kröfu kæranda um að framangreint innkaupaferli verði stöðvað, svo sem nánar greinir í ákvörðunarorðum. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn kærunnar úrskurðar kærunefndar.

Ákvörðunarorð:

Innkaupaferli varnaraðila, Fasteigna Akureyrarbæjar, vegna kaupa á vatnsrennibraut og uppgöngustigahús við Sundlaug Akueyrar samkvæmt verðkönnun 28. ágúst 2013, er stöðvað um stundarsakir.

Reykjavík, 24. janúar 2013.

Skúli Magnússon       

Ásgerður Ragnarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn