Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Hafa konur áhuga á varnarmálum?

Anna Jóhannsdóttir
Anna Jóhannsdóttir

Þegar ég hóf störf sem fastafulltrúi hjá Atlantshafsbandalaginu í ágúst síðastliðnum og byrjaði að kynnast kollegum og starfsmönnum bandalagsins, vöktu fjölmargir þeirra athygli mína á því að með komu minni hefði verið sett nýtt met, þar sem aldrei hefðu verið jafn margar konur sendiherrar bandalagsríkjanna hér í Brussel.  Mér fannst þetta nokkuð einkennilegt. Við erum núna samtals þrjár, af 28 fastafulltrúum.  Það er í mínum huga í rauninni ekki hlutfall til að hrópa húrra fyrir, en verulega mikil framför frá því sem verið hefur undanfarin ár.

Á þessu málefnasviði, þ.e. í varnar- og öryggismálum, er hugarfarsbreyting að eiga sér stað.  Það gerist ekki síst með samstarfi innan bandalagsins með líkt þenkjandi ríkjum, sem lyfta málefnum og berjast fyrir þeim.

Hluti starfsfólk fastanefndar Íslands hjá NATO, frá vinstri Sigrún Jónsdóttir, Anna Jóhannsdóttir, Erna Sigríður Hallgrímsdóttir, Auðbjörg Halldórsdóttir og Steinunn Pálsdóttir.Dæmi um slíkt er áhersla Íslands og fjölmargra samstarfsþjóða hér, á ályktun öryggisráðs Sþ. um konur, frið og öryggi (ályktun 1325).  Það er ekki síst dropinn sem holar steininn þegar þessi mál ber á góma og það skiptir máli að taka þau upp alls staðar þar sem Ísland á sæti við borðið og getur haft áhrif, jafnt í NATO sem annarsstaðar.

Hægt og sígandi hefur tekist að breyta hugarfarinu og síðustu fimm árin hefur verið unnið ötullega að því að viðmið og áherslur sem þessu tengjast inngreypt í starfið, skipulag og áætlanir um aðgerðir og verkefni sem Atlantshafsbandalagið kemur að.  Það sem einu sinni var jaðarmálefni, er orðið hluti af stefnu og ályktunum leiðtoga bandalagsins.

Konur taka æ ríkari þátt í uppbyggingu stjórnkerfis og friðarumleitunum eftir átök, en það skiptir líka máli að efla og hvetja konur í ríkjum sem við störfum með, eða vinnum með á annan hátt, hvort sem er með þróunarstarfi, friðargæslu eða við uppbyggingu eftir átök. 

Fylgst með flotaæfingumÍ fyrri störfum mínum sem yfirmaður íslensku friðargæslunnar sá ég mjög glöggt hvernig fulltrúar sem við sendum til Balkanríkjanna, Afganistan og fleiri svæða, til þess beinlínis að efla þátttöku kvenna, jafnrétti og eflingu mannréttinda, gátu haft afgerandi áhrif.

Til þess að svara spurningunni sem ég byrjaði á hér í upphafi, þá er engin spurning að áhugi er fyrir hendi, en það skiptir máli að virkja hann og efla, nákvæmlega eins og það skiptir máli að bæði kynin komi að starfi á alþjóðavettvangi almennt, njóti almennra mannréttinda og taki þátt í að skapa öryggi og frið. 

Í starfi og þátttöku Íslands hjá NATO eru fjölmörg áherslumál og þættir þar sem við höfum sérstöðu og sérþekkingu sem við getum lagt af mörkum. Málefnið konur, friður og öryggi er svo sannarlega mikilvæg stoð í þeim áherslum.

Anna Jóhannsdóttir er fastafulltrúi Íslands hjá NATO

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum