Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Launarannsóknir og jafnrétti á vinnumarkaði

Aðgerðahópur um launajafnrétti
Aðgerðahópur um launajafnrétti

Aðgerðahópur sem vinnur að framkvæmd verkefna til að eyða kynbundnum launamun hefur skilað félags- og húsnæðismálaráðherra skýrslu um framvindu einstakra verkefna sem snúa að bættum launarannsóknum, innleiðingu jafnlaunastaðals og leiðum til að draga úr kynskiptingu starfa á vinnumarkaði.

Aðgerðahópurinn starfar á grundvelli aðgerðaáætlunar um launajafnrétti kynjanna sem samþykkt var í ríkisstjórn í september árið 2012 og viljayfirlýsingu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um samstarf til að eyða kynbundnum launamun.

Nýútkomin skýrsla er vinnu- og áfangaskýrsla aðgerðahóps um launajafnrétti kynjanna fyrir 2012–2013. Hún hefur að geyma samantekt um nýlegar launarannsóknir og launakannanir auk umfjöllunar um norrænt samstarf og fyrirmyndir að verkefnum. Annars vegar er fjallað um þau verkefni sem eru í vinnslu og hins vegar þau sem framundan eru.

Ýmsar áhugaverðar staðreyndir um stöðu jafnréttismála eru dregnar fram í skýrslu aðgerðahópsins. Þar má til dæmis sjá að konur eru meirihluti nemenda á öllum skólastigum nema svokölluðu viðbótarstigi sem felur í sér starfsnám á mörkum framhaldsskóla- og háskólastigs. Árið 2012 voru konur 52% nemenda á framhaldsskólastigi, 38% nemenda á viðbótarstigi, 62,5% nemenda á háskólastigi og 62,4% nemenda á doktorsstigi. Konur eru í meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólanámi alls staðar á Norðurlöndunum en á Íslandi er hlutfallið þó áberandi hæst eða tæp 67%.

Í skýrslunni er fjallað um nýlegar kannanir og rannsóknir á kynbundnum launamun sem gerðar hafa verið hér á landi en byggjast á ólíkri aðferðafræði. Niðurstöðurnar hafa sýnt mun frá 7–18% eftir því hvernig er mælt og til hvaða hópa og svæða mælingarnar ná til. Markmið skýrsluhöfunda er að finna mæliaðferðir og að samstarfsaðilar komi sér saman um skýribreytur sem nýta má fyrir nýja og víðtæka launarannsókn sem er ætlað að ná jafnt til almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Aðgerðahópurinn ráðgerir að launarannsóknin verði framkvæmd á árinu 2014 en hópurinn mun einnig standa fyrir gerð rannsóknarskýrslu sem gefi heildstæða mynd af stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.

Skýrsluhöfundar segja að staðalmyndir um konur og karla virðist ráða miklu um námsval ungs fólks sem hafi aftur áhrif á starfsval þegar að atvinnuþátttöku kemur. Þrátt fyrir miklar breytingar á liðnum áratugum sé íslenskum vinnumarkaður enn mög kynskiptur og er meðal annars bent á að hlutfall karla af vinnuafli í umönnunarstörfum sé mun lægra hér en annars staðar á Norðurlöndum. Starfsstéttir þar sem annað kynið er í miklum meiri hluta (2/3 hlutar starfsfólks) eru kallaðar kvenna- eða karlastéttir. Samkvæmt þessu telst skrifstofufólk og kennarar í leik-, grunn- og framhaldsskólum hér á landi til kvennastétta en véla- og vélgæslufólks til karlastétta. Jafnari kynjaskiptingu er að finna hjá sérfræðingum, sérmenntuðu starfsfólki og ósérhæfðu starfsfólki. Að jafnaði eru laun lægri í kvennastéttum en í karlastéttum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum