Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 11/2013

Hinn 8. janúar 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 11/2013

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 537/2012;

 

Arnar Þórarinn Barðdal

gegn

þrotabúi LB09 ehf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dags. 3. maí 2013, sem Haukur Örn Birgisson hrl. sendi Hæstarétti Íslands fyrir hönd Arnars Þórarins Barðdal, var óskað eftir endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 537/2012 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 14. febrúar 2013. Hinn 9. mars 2013 tóku gildi lög nr. 15/2013 um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 15/2013 gilda þau um meðferð og afgreiðslu á beiðnum um endurupptöku mála sem borist höfðu Hæstarétti eftir 1. janúar 2013. Innanríkisráðuneytið kom erindi endurupptökubeiðanda á framfæri við nefndina 4. júní 2013. Af hálfu gagnaðila, þrotabús LB09 ehf., var athugasemdum komið á framfæri með bréfi dags. 26. júní 2013. Þess var óskað af hálfu endurupptökunefndar að endurupptökubeiðandi léti nefndinni í té afrit málsgagna hæstaréttarmálsins. Gögnin bárust 25. nóvember 2013.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa í þessu máli Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Sigurður Tómas Magnússon.

II. Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 537/2012, sem kveðinn var upp 14. febrúar 2013, var rift greiðslum LB09 ehf. til endurupptökubeiðanda, sem samtals námu 25.787.998 krónum, sem inntar höfðu verið af hendi skömmu áður en LB09 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Endurupptökubeiðandi hafði verið stjórnarmaður félagsins, framkvæmdastjóri og eini hluthafi þess. Hæstaréttur taldi vafalaust að LB09 ehf. hafi verið ógjaldfært þegar greiðslurnar voru inntar af hendi. Þá taldi rétturinn að þær hafi á ótilhlýðilegan hátt verið til hagsbóta fyrir endurupptökubeiðanda á kostnað annarra kröfuhafa. Vísað var í þessum efnum til 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og því slegið föstu að endurupptökubeiðanda hafi mátt vera þetta ljóst. Öðrum skilyrðum lagaákvæðisins fyrir riftun var einnig fullnægt að mati Hæstaréttar og var dómur héraðsdóms um riftun nefndra greiðslna því staðfestur auk þess sem endurupptökubeiðandi var dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og vísar til þess að öllum skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt og því beri að endurupptaka málið fyrir Hæstarétti. Tilvísun endurupptökubeiðanda til skilyrða ákvæðsins lúta að skilyrðum 1. mgr. 167. gr. sömu laga, sem vísað er til í 1. mgr. 169. gr.

Byggt er á því af hálfu endurupptökubeiðanda að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og að honum verði ekki kennt um það. Mat Hæstaréttar á ógjaldfærni hins gjaldþrota félags, LB09 ehf., hafi byggt á árangurslausri kyrrsetningargerð hjá því félagi sem hafi gefið ranga mynd af eignum og  skuldum félagsins á þeim tíma sem hún fór fram. Sú kyrrsetningargerð hafi farið fram til tryggingar á gengistryggðum skuldbindingum félagsins við Landsbankann hf. Ekki hefði legið fyrir dómstólum, hvorki héraðsdómi né Hæstarétti, að bankinn hefði síðar lækkað fjárkröfur sínar þar sem gengistrygging þeirra hafi verið ólögmæt. Endurupptökubeiðandi byggir á því að með tilliti til þeirrar lækkunar sé ekki vafalaust að félagið hafi verið orðið ógjaldfært og að verulegar líkur hafi verið á því að eignir þess hefðu nægt fyrir skuldum og því hafi kyrrsetning ekki átt að fara fram.

Á því var byggt af hálfu endurupptökubeiðanda að honum hafi verið ókunnugt um lækkun Landsbankans hf. á kröfum sínum í þrotabúið. Skiptastjóri hafi kosið að upplýsa það ekki fyrir dómi þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst að meginmálsástæða endurupptökubeiðanda fyrir sýknu af riftunarkröfu hafi lotið að því að LB09 ehf. hafi ekki verið ógjaldfært er umdeildar greiðslur áttu sér stað. Þessar upplýsingar hafi ekki verið aðgengilegar fyrir endurupptökubeiðanda fyrr en degi fyrir munnlegan málflutning í Hæstarétti. Honum hafi ekki gefist svigrúm til að afla skriflegra gagna þar að lútandi fyrir málflutning en lögmaður gagnaðila hafi staðfest upplýsingarnar munnlega við málflutninginn. Í ljósi þess að skiptastjóri hafi búið yfir staðfestum upplýsingum um lækkun krafna Landsbankans hf. allan þann tíma sem málið var til meðferðar fyrir dómi án þess að upplýsa endurupptökubeiðanda um það teljist þessar upplýsingar ný gögn í skilningi a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Endurupptökubeiðanda verði ekki um kennt að hafa ekki lagt þessar upplýsingar fram í málinu þar sem hann hafi fyrst fengið senda leiðrétta kröfulýsingu Landsbankans hf. og staðfestingu skiptastjóra á að bankinn hefði viðurkennt ólögmæti gengistryggingar lánanna eftir að málið var dæmt í Hæstarétti.

Endurupptökubeiðandi byggir á því að nefnd leiðrétt kröfulýsing og staðfesting skiptastjóra á lækkun krafna Landsbankans hf. falli að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 167. gr. þannig að leiddar séu sterkar líkur að því að fram séu komin ný gögn sem muni leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Þessar upplýsingar breyti að hans mati verulega forsendum fyrir mati Hæstaréttar á ógjaldfærni félagsins í skilningi 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Endurupptökubeiðandi byggir svo á því að skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. sé fullnægt með vísan til fjárhæðar þeirra greiðslna sem rift var með dómi Hæstaréttar. Sú heildarfjárhæð, 25.787.998 krónur, feli í sér stórfellda fjárhagslega hagsmuni fyrir endurupptökubeiðanda.

Þá var þess óskað að réttaráhrif dóms Hæstaréttar yrðu felld niður á meðan leyst yrði úr beiðni um endurupptöku með vísan til 3. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

IV. Athugasemdir gagnaðila

Gagnaðili, þrotabú LB09 ehf., krefst þess að endurupptökubeiðni verði hafnað. Af hans hálfu er því eindregið andmælt að dregin hafi verið dul á atriði er varða kröfur Landsbankans hf. sem lýst hafði verið í þrotabú LB09 ehf. Kröfuskrá hafi verið komið á framfæri við lögmann endurupptökubeiðanda 9. maí 2011 þar sem fram kom hver afstaða skiptastjóra til krafna Landsbankans hafi verið í fyrstu. Engar athugasemdir hafi borist og engra frekari gagna óskað að sinni. Óskað hafi verið aftur eftir kröfuskránni 27. september 2011. Þá hafi endurupptökubeiðandi haft samband 29. nóvember 2011 og innt eftir afstöðu skiptastjóra til krafna Landsbankans. Af því tilefni hafi endurupptökubeiðandi verið upplýstur um að bankinn hafi komið endurútreikningum tveggja af lánum sínum á framfæri og unnið væri að því af hálfu skiptastjóra að staðreyna þá útreikninga. Næst er þess getið að skiptastjóri hafi tilkynnt endurupptökubeiðanda 7. júní 2012 að aflað hefði verið útreikninga til að staðreyna útreikninga bankans og tekin yrði endanleg afstaða til krafnanna eftir samanburð þessara útreikninga. Samdægurs mun endurupptökubeiðandi hafa óskað eftir afriti af þessum útreikningum. Þeir munu hafa verið sendir þennan sama dag. Endurupptökubeiðanda var kynnt 27. júní 2012 að haldinn yrði skiptafundur þar sem tekin yrði afstaða til krafna bankans. Enn mun endurupptökubeiðanda hafa verið send orðsending 27. júlí 2012 þar sem skiptastjóri kynnti fundargerð skiptafundar þar sem fram kom endurskoðuð afstaða til krafna Landsbankans hf. Afrit fundargerðarinnar fylgdi tölvubréfi skiptastjóra. Enn hafi frekari gögn verið látin í té að ósk lögmanns endurupptökubeiðanda 1. október 2013 sem báru með sér að bankinn hafði leiðrétt kröfulýsingu sína. Þá hafi endurupptökubeiðandi óskað fundar skiptastjóra sem fram hafi farið 2. nóvember 2012. Á þeim fundi hafi málefni tengd kröfum Landsbankans hf. og breytingar á þeim verið rædd í þaula.

Af hálfu gagnaðila er vakin sérstök athygli á því að gagnaöflunarfrestur í hæstaréttarmálinu hafi verið til 14. nóvember 2012. Af hálfu gagnaðila er á því byggt að ekkert af ofangreindum gögnum hafi verið lagt fram í málinu eða þessum upplýsingum komið á framfæri af hálfu endurupptökubeiðanda.

Í ljósi framangreindra upplýsinga komi málatilbúnaður endurupptökubeiðanda um grandleysi um upplýsingar um leiðréttingu lána Landsbankans hf. gagnaðila í opna skjöldu. Sérstaklega er áréttað að öllum fyrirspurnum endurupptökubeiðanda hafi verið svarað samdægurs af hálfu gagnaðila og öll gögn sem hafi verið óskað eftir látin af hendi án tafar.

Af hálfu gagnaðila er því andmælt sérstaklega að á skiptastjóra þrotabús LB09 ehf. hafi hvílt sérstök hlutlægnisskylda sem opinberum sýslunarmanni og honum því borið að leggja ofangreind gögn fram. Áréttað er það mat á réttarstöðu skiptastjóra að meginskyldan felist í að gæta hagsmuna þrotabúsins en vegna 2. mgr. 80. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. standi þeim sem lögvarða hagsmuni hafa opin leið til að fá afrit gagna úr fórum búsins.

Þá er vísað til forsendna Hæstaréttar um mat á gjaldfærni hins gjaldþrota félags. Að mati gagnaðila fólst í þeim sú afstaða að horfa verði til þess tíma sem hinir riftanlegu gerningar fóru fram óháð síðari tíma endurútreikningum. Ótvírætt sé að félagið hafi verið ógjaldfært á þeirri stundu. Skorti því á að fullnægt sé skilyrðum b-liðar 1. mgr. 167. gr.

Þá byggir gagnaðili einnig á því að sönnunarbyrði um gjaldfærni hins gjaldþrota félags hafi hvílt á endurupptökubeiðanda allt frá því að beiðni um kyrrsetningu var tekin fyrir en þeirri gerð lauk án árangurs. Af hálfu gagnaðila eru rakin ýmis úrræði sem endurupptökubeiðanda hafi staðið til reiðu til að hrekja það að félagið væri ógjaldfært. Ekki hafi verið gripið til þeirra. Engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu endurupptökubeiðanda önnur en greinargerðir og áfrýjunarstefna. Gagnaðili áréttar málsforræði endurupptökubeiðanda sem hann hafi ekki nýtt sér við meðferð málsins fyrir dómstólum til að færa sönnur á gjaldfærni félagsins og að ekki séu forsendur til að hann eigi að fá annað tækifæri til þess nú.

Loks telur gagnaðili að c-liður 167. gr. eigi ekki við enda geti fjárhæð dómkröfu ein og sér ekki réttlætt endurupptöku.

V. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. lög nr. 15/2013. Í 169. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Í 1. mgr. 167. gr. er kveðið á um að nefndin geti orðið við beiðni um að mál verði endurupptekið ef fullnægt er eftirfarandi skilyrðum:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Vegna óskar endurupptökubeiðanda um frestun réttaráhrifa á meðan mál þetta er til meðferðar áréttast að heimild til að fresta réttaráhrifum dóms samkvæmt 3. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála er bundin við að á endurupptöku sé fallist. Fresta má réttaráhrifum í kjölfar þess. Af þessum sökum eru ekki forsendur að lögum til að taka ósk endurupptökubeiðanda um frestun réttaráhrifa til greina meðan málið er til meðferðar hjá endurupptökunefnd.

Endurupptökubeiðandi byggir á því að öllum skilyrðum 1. mgr. 167. gr. sé fullnægt.

Þannig er byggt á því af hálfu endurupptökubeiðanda að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 167. gr. sé fullnægt og talið að sterkar líkur hafi verið leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar fyrir Hæstarétti og honum verði ekki kennt um það. Í þeim efnum er byggt á því að ekki hafi verið gerð grein fyrir því fyrir Hæstarétti að Landsbankinn hf. hafi lækkað lýstar kröfur sínar í þrotabú LB09 ehf. þar sem lán hans hafi í öndverðu verið bundin erlendum gjaldmiðlum með ólögmætum hætti. Byggt er á að endurupptökubeiðanda hafi ekki verið kunnugt um þetta og honum verði því ekki kennt um að þessar upplýsingar hafi ekki legið fyrir. Þá er á því byggt að skylda hafi hvílt á skiptastjóra þrotabús LB09 ehf. að upplýsa um þetta og leggja fram gögn þar að lútandi.

Af hálfu gagnaðila er þessum málatilbúnaði andmælt og vísað til samskipta aðila um nærri eins og hálfs árs skeið, frá 9. maí 2011 til 2. nóvember 2012, þar sem ítrekað hafi verið fjallað um lán Landsbankans hf., lögmæti gengistrygginga þeirra og útreikning á fjárhæðum lánanna en slíka útreikninga hafi Landsbankinn hf. látið í té, skiptastjóri látið yfirfara og endurreikna auk þess sem endurupptökubeiðandi hafi sjálfur látið framkvæma slíka útreikninga. Í engu hafi upplýsingum verið haldið frá endurupptökubeiðanda og brugðist hafi verið skjótt við óskum hans um afhendingu gagna. Honum hefði þannig verið í lófa lagið að leggja þau fram í dómsmálinu ef hann hefði talið tilefni til. Gagnaðili studdi sjónarmið sín í þessum efnum við ýmis gögn meðal annars töluverðan fjölda tölvubréfa sem bera með sér að hafa gengið á milli endurupptökubeiðanda, lögmanna hans og skiptastjóra LB09 ehf.

Endurupptökubeiðandi hefur ekki andmælt sjónarmiðum og framlögðum gögnum af hálfu gagnaðila í þessum efnum. Af því verður ekki dregin önnur ályktun en sú að endurupptökubeiðandi hafi búið að nauðsynlegum upplýsingum um lán Landsbankans hf. er málið var til meðferðar fyrir Hæstarétti. Þess er enda getið af hálfu endurupptökubeiðanda í endurupptökubeiðni að málið hafi verið reifað með hliðsjón af þessum upplýsingum við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti. Þessar upplýsingar lágu þannig fyrir Hæstarétti þegar rétturinn kvað upp dóm sinn. Í dómi Hæstaréttar er fjallað um ógjaldfærni LB09 ehf. með þessum orðum:

Í ljósi þess að LB09 ehf. var komið í veruleg vanskil gagnvart NBI hf. á þessum tíma hlaut áfrýjanda, sem var eigandi alls hlutafjár, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins, að vera kunnugt um greiðsluerfiðleika þess. Þá eru gögn málsins ótvíræð um að á þeim tíma, sem umrædd kyrrsetningargerð fór fram hjá félaginu, voru skuldir verulegar umfram eignir þess sem síðan leiddi til þess að bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Þessum gögnum hefur áfrýjandi ekki hnekkt. Þá liggur fyrir að þegar fyrstu tvær greiðslurnar voru inntar af hendi voru skuldir félagsins við NBI hf. komnar í vanskil. Er því vafalaust að LB09 hf. var ógjaldfært þegar greiðslurnar voru inntar af hendi.

Með vísan til framanritaðs eru ekki forsendur til þess að telja sterkar líkur leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar dómsmálið var til meðferðar. Þá er einnig ótvírætt samkvæmt málsforræðisreglu einkamálaréttarfars, sbr. 46. gr. laga um meðferð einkamála að það hefði staðið endurupptökubeiðanda næst að láta í té gögn og upplýsingar um þau atriði sem hann taldi máli skipta til þess að færa sönnur að málatilbúnaði sínum. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 167. gr. er þannig ekki fullnægt. Auk þess þykir engum líkum leitt að því að ný gögn muni leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Gögn um endurreikning krafna Landsbankans hf. og lækkun þeirra falla ekki að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 167. gr. um ný gögn, enda lágu upplýsingar um endurútreikninga á kröfunum fyrir þegar málið var flutt fyrir Hæstarétti, eins og áður gat og voru endurupptökubeiðanda aðgengileg.

Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verður öllum þremur skilyrðum málsgreinarinnar í stafliðum a – c að vera fullnægt til þess að mál verði endurupptekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju. Liggur þannig fyrir með vísan til framaritaðs að ekki eru forsendur til að fallast á endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 537/2012.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Arnars Þórarins Barðdal um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 537/2012, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 14. febrúar 2013, er hafnað.

 

Ragna Árnadóttir formaður

Björn L. Bergsson

Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn