Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Breytingar í útlendingamálum

Undanfarið hefur farið fram umfangsmikil vinna að breytingum á meðferð útlendingamála hér á landi. Þáttur í þeirri vinnu er það frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga sem nú er til meðferðar hjá Alþingi, en þar er lögð áhersla á hraðari málsmeðferð, vandaðra verklag og bætta nýtingu fjármagns, samhliða því sem komið verður á fót sjálfstæðri úrskurðarnefnd sem fer með kærumál í útlendingamálum. Innanríkisráðherra hefur skipað þverpólitíska nefnd um málefni útlendinga á Íslandi sem m.a. mun fylgja eftir framkvæmd umræddra breytinga.

Í samræmi við þessi áform, með hliðsjón af framkvæmd í nágrannalöndum og að höfðu samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, verða útdrættir úr úrskurðum ráðuneytisins vegna útlendingamála hér eftir birtir á á vefnum www.urskurdir.is þar sem birtir eru úrskurðir ráðuneyta og kærunefnda og dómar Félagsdóms. Við slíka birtingu verður að fullu tekið tillit til sjónarmiða er varða persónuvernd einstaklinga.

Með þessu breytta fyrirkomulagi er leitast við að koma til móts við sjónarmið sem fram hafa komið við vinnu að þessum málaflokki síðustu ár, m.a. við vinnslu skýrslu nefndar um málefni útlendinga utan Evrópska efnahagssvæðisins sem skipuð var af þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni. Svipuð sjónarmið hafa komið fram við þá vinnu sem nú stendur yfir í ráðuneytinu. Með birtingu forsendna úrskurða er leitast við að koma á framfæri upplýsingum sem erindi geta átt við almenning og varpa um leið ljósi á starfsemi stjórnvalda auk þess að miðla upplýsingum og fordæmum sem komið geta viðeigandi aðilum að gagni. 

Birting forsendna úrskurða er til þess fallin að styrkja réttaröryggi og fyrirsjáanleika í beitingu regluverksins og stuðlar að bættri málsmeðferð í málefnum útlendinga hér á landi.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira