Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 15/2013

Hinn 2. janúar 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 15/2013:

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 227/2011

Ásmundur S. Jónsson

Sæmundur Þ. Einarsson og Rafbrú sf.

gegn

Sigríði Katrínu Þorbjörnsdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I.                   Beiðni um endurupptöku

Með beiðni til endurupptökunefndar, dags. 20. júní 2013, fór Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. þess á leit fyrir hönd Sigríðar K. Þorbjörnsdóttur að hæstaréttarmál nr. 227/2011, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 8. desember 2011, yrði endurupptekið. Með erindi endurupptökunefndar, dags. 3. október 2013, var endurupptökubeiðanda gefinn kostur á að rökstyðja hvernig skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 væru uppfyllt. Svar barst frá endurupptökubeiðanda með erindi dags. 8. nóvember 2013.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Kristbjörg Stephensen og Þórdís Ingadóttir.

II.                Málsatvik

Í hæstaréttarmáli nr. 227/2011 voru Ásmundur S. Jónsson, Sæmundur Þ. Einarsson og Rafbrú sf. sýknuð af kröfu Sigríðar K. Þorbjörnsdóttur um skaðabætur vegna tjóns sem hún kvaðst hafa orðið fyrir þegar rafstraumur fór um hana þegar hún baðaði sig á heimili sínu. Hæstiréttur hnekkti þar með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. febrúar 2010 þar sem henni voru dæmdar bætur vegna miska og varanlegrar örorku vegna slyssins.

III.             Grundvöllur beiðni.

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að Hæstiréttur hafi ekki byggt á niðurstöðu sérfróðra meðdómsmanna um tæknileg atriði og því séu sterkar líkur  leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilum verði ekki kennt um það, sbr. skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Þá rökstyðji Hæstiréttur niðurstöðu sína fyrst og fremst með því að dómur héraðsdóms byggi á málsástæðu sem ekki komi fram í stefnu. Endurupptökubeiðandi telur því að ekki sé vísað rétt til stefnu þar sem málsástæða sú, sem Hæstiréttur vísi til, sé skýrt tekin fram í henni.

Einnig telur endurupptökubeiðandi að stórfelldir hagsmunir aðila séu í húfi og þar með séu skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. uppfyllt, en endurupptökubeiðandi hafi þurft að glíma við mjög alvarlegar afleiðingar slyssins og hafi þær valdið því að hann hafi verið óvinnufær og tekjulaus frá því er slysið varð.

Endurupptökubeiðandi rökstuddi í endurupptökubeiðni sinni ekki hvernig hann taldi að skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. væru uppfyllt, og var honum sérstaklega gefinn kostur á að gera grein fyrir því með erindi endurupptökunefndar, dags. 3. október 2013. Í erindinu kom m.a. fram eftirfarandi:

Endurupptökunefnd getur orðið við beiðni um að málið verði endurupptekið í Hæstarétti ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt sbr. 1. mgr. 169. gr., sbr. 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Öll framangreind skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að fallist verði á beiðni um endurupptöku dómsmálsins.

Í svari sínu til endurupptökunefndar, dags. 8. nóvember 2013, heldur endurupptökubeiðandi því fram að þessi túlkun, að öll skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála þurfi að vera uppfyllt, eigi sér ekki stoð í lagatextanum heldur komi fram í greinargerð með frumvarpi til laga um meðferð einkamála þar sem fjallað sé um endurupptöku óáfrýjaðs máls, þ.e. endurupptöku fyrir héraðsdómi. Hæstiréttur sé áfrýjunardómstóll. Sú áhersla, sem lögð sé á ný gögn í b-lið fyrrgreinds ákvæðis geti því eðli máls samkvæmt ekki átt við um endurupptöku máls fyrir Hæstarétti, en þar gildi sú meginregla að óheimilt sé að leggja fram ný gögn. Þá sé vandséð hvernig öll þrjú skilyrði 1. mgr. 167. gr. geti verið til staðar í einu og sama málinu. Virðist ekki hafa verið gætt að þessum mun á dómstigunum tveimur við lagasetninguna. Endurupptökubeiðandi telur því að endurupptökunefnd eigi ekki að líta til skilyrðis b-liðar 1. mgr. 167. gr. við meðferð endurupptökubeiðna mála fyrir Hæstarétti.

IV.              Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum. Þá segir í 2. mgr. 168. gr. að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Í 1. mgr. 169. gr. segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Endurupptökunefnd lítur svo á að til að fallist verði á endurupptöku þurfi öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í máli nr. 10/2013.

Af hálfu endurupptökubeiðanda er því haldið fram að endurupptökunefnd eigi að líta framhjá skilyrðum b-liðar 1. mgr. 167. gr. um ný gögn þegar fjallað er um beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls, ákvæðið geti eðli málsins ekki átt við um mál fyrir Hæstarétti því þar gildi sú meginregla að óheimilt sé að leggja fram ný gögn.

Ekki er unnt að fallast á þetta sjónarmið endurupptökubeiðanda. Í lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, var upphaflega einungis fjallað um endurupptöku óáfrýjaðs máls, sbr. þágildandi 157. gr. laganna. Í athugasemdum með 157. og 158. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 91/1991 kom m.a. fram eftirfarandi:

Er heimilað að vissum skilyrðum fullnægðum að leita ákvörðunar Hæstaréttar um að mál verði endurupptekið fyrir héraðsdómi og dómur felldur þar á það á ný. Sambærilegar heimildir eru ekki fyrir hendi í lögum nr. 85/1936, en í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, er að finna heimildir til endurupptöku óáfrýjaðra mála á vettvangi þeirra laga og í VI. kafla laga nr. 75/1973 eru heimildir til endurupptöku mála sem hafa verið dæmd fyrir Hæstarétti. Mjög lítið hefur reynt á reglur um endurupptöku opinberra mála og endurupptöku einkamála fyrir Hæstarétti í framkvæmd. Er þess því varla að vænta að ákvæði XXVI. kafla hafi teljandi raunhæft gildi, en þau geta átt rétt á sér í varúðarskyni.

Í 1. mgr. 157. gr. er að finna skilyrði fyrir endurupptöku máls eftir reglum XXVI. kafla, en þau eru talin í þremur stafliðum við málsgreinina. Þessum skilyrðum þarf öllum að vera fullnægt til þess að orðið geti af endurupptöku. Þau eru sama efnis og skilyrði fyrir endurupptöku dæmds máls fyrir Hæstarétti skv. l. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1973 og má því telja að ekki sé þörf á sérstökum skýringum á þeim hér.

Með lögum nr. 38/1994, um breyting á lögum um meðferð einkamála nr. 91, 31. desember 1991, var bætt við nýjum kafla, XXVII. kafla, með einni grein sem hafði að geyma ákvæði um endurupptöku máls sem hefur verið dæmt í Hæstarétti, og varð hún að 169. gr. Skilyrði fyrir endurupptöku máls voru talin upp í stafliðum a – c í 1. mgr. 169. gr. Fram kom í greinargerð með frumvarpi því sem varð að áðurgreindum lögum að umrædd ákvæði væru tekin upp úr 59. gr. laga nr. 75/1973 með óverulegum breytingum.

Loks var ákvæði 1. mgr. 169. gr. breytt með lögum nr. 15/2013 um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála þannig að um efnisleg skilyrði endurupptöku er vísað til 167. gr. laganna og er ákvæðið í þeirri mynd nú.

Af framansögðu er ljóst að öll skilyrði stafliða a – c 1. mgr. 167. gr. þurfa að vera uppfyllt, svo unnt sé að verða við beiðni um endurupptöku óáfrýjaðs máls. Þessi túlkun ákvæðisins, sem á sér stoð í orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum, sem og dómaframkvæmd Hæstaréttar, samanber til dæmis dómur Hæstaréttar í máli nr. 420/2012. Þá er skýrt af orðalagi 1. mgr. 169. gr. og lögskýringargögnum að skilyrði endurupptöku hæstaréttarmáls eru í engu frábrugðin skilyrðum endurupptöku óáfrýjaðs máls.

Endurupptökubeiðandi hefur rökstutt hvernig hann telur að skilyrðum a- og c-liðar 1. mgr. 167. gr. sé fullnægt. Hann hefur ekki fært rök fyrir því hvernig skilyrði b-liðar sama ákvæðis eru uppfyllt. Þegar af þeirri ástæðu verður að telja að skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt og beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 227/2011 því bersýnilega ekki á rökum reist. Er henni því synjað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Sigríðar K. Þorbjörnsdóttur um endurupptöku máls nr. 227/2011 sem dæmt var í Hæstarétti 8. desember 2011 er hafnað.

 

Ragna Árnadóttir formaður

Kristbjörg Stephensen

Þórdís Ingadóttir

 


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn