Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2014 Utanríkisráðuneytið

Játning Norðurlandabúa 

Auður Edda Jökulsdóttir
Ég ætla að hefja þennan pistil á játningu: Þegar ég gekk til liðs við utanríkisþjónustuna með próf í alþjóðastjórnmálafræði frá Bretlandi upp á vasann var ég í hópi þeirra sem höfðu fremur takmarkaðan áhuga á Norðurlöndum og  norrænu samstarfi.  Í mínum huga, líkt og margra samstarfsfélaga, taldist norrænt samstarf  til „mjúku málanna“. Flest höfðum við hinsvegar brennandi áhuga á hinni hörðu utanríkispólitík eins og öryggis og varnarmálum. Ég viðurkenni fúslega að því lengur sem ég hef starfað að alþjóðamálum hefur virðing mín fyrir Norðurlöndum og norrænni samvinnu dýpkað.  Norðurlöndin eru til fyrirmyndar um flest og þá ekki einungis á efnahagssviðinu.   Á fáum stöðum  jarðkringlunnar er friður og virðing fyrir lýðræði meiri en þar.  Hvergi hvílir samfélagsskipan á jafn traustum gildum á borð við velferð, umburðarlyndi og  jafnrétti.  Óvíða er menningin frjórri og menntunin betri. Samskipti „frændþjóða“  fara oftast fram á norrænum tungumálum og ákvarðanir eru samhljóða. 

Hvergi utan Norðurlandanna er norrænt samstarf jafn náið og í Berlín. Þýskaland er mikilvægur og öflugur bandamaður ekki einungis Íslands, heldur allra Norðurlandanna í tvíhliða og fjölþjóðlegu samstarfi.  Með flutningi höfuðborgarinnar til Berlínar árið 1999 skapaðist einstakt tækifæri til að reisa sameiginlegt sendiráðaþorp í hjarta Berlínar. Lagt var í það þrekvirki að reisa einnig sérstaka menningar- og viðskiptamiðstöð die Nordischen Botschaften  eru nú vel þekkt stærð í Berlín og Þýskalandi. Við sem störfum fyrir hönd Íslands finnum að við njótum sjálfkrafa  meira álits og virðingar sem hluti  þeirra.  Norræna samstarfið tekur vissulega mikinn tíma fyrir fámennt starfslið Íslands, en við höldum okkar hlut og vel það.  Ísland nýtur einnig allrar aðstöðu til jafns á við hin löndin en greiðir einungis 6% af heildarkostnaði við reksturinn.

Eitt fjölmargra samnorrænna verkefna sendiráða Norðurlandanna í Berlín er Frauenfrühstück eða morgunverður  sendiherranna í tilefni af alþjóðadegi kvenna. Í fyrra var  Frú Vigdís Finnbogadóttir, aðal ræðumaður og mættu á fjórða hundrað gesta til okkar.  Með okkur Vigdísi á myndinni eru samstarfskonur mínar í sendiráði Íslands í Berlín.


Norræn samstarfsverkefni nema nokkrum tugum talsins ár hvert. Sem staðgengill sendiherra sinni ég málefnum á sviði stjórnmála, viðskipta, menningar, kynningar og upplýsingamála.  Það er oft ómetanlegt að geta leitað til norræna samstarfsfélaga eftir ráðum og upplýsingum. Í krafti norræna samstarfsins hef ég náð að kynnast fjölda háttsettra aðila í þýskri stjórnsýslu, stjórnmálum og viðskiptum sem ég hefði tæplega kynnst ein míns liðs. Þessi tengsl  nýtast vel þegar kemur að því að sinna hagsmunum Íslands á ólíkum sviðum í einu helsta efnahagsveldi heims. 


 Óvíða í heiminum er aðstaða Íslendinga jafn góð og hér í Berlín til að koma á framfæri því sem við  best kunnum og getum. Tækifærin eru mikil á þessum stóra markaði, og sendiráðið er til þjónustu reiðubúið.  Fyrirtæki og stofnanir geta nýtt  fjölbreytta aðstöðu í sendiráðinu, íslenska sendiherrabústaðnum sem er sérhannaður til kynningarstarfsemi, eða í Felleshus þar sem er að finna stóra ráðstefnu- og mótttökusali. Hin Norðurlöndin taka yfirleitt forystu um skipulagningu samnorrænna verkefna.  Á þessu ári, formennskuári Íslands í Norðurlandasamstarfinu, fannst okkur þó kominn tími til að Ísland tæki ábyrgð og aukna vinnu fyrir Norðurlöndin. Við vinnum nú hörðum höndum að skipulagningu árlegrar sumarsýningar Norðurlandanna í  Felleshus í Berlín. Starfrækt verður Pop-up tónlistarkaffihús búið hönnun ungra norrænna hönnuða.  Í september verður efnt til umfangsmikillar dagskrár  sem mun skapa aukinn virðisauka fyrir sókn norrænna tónlistarmanna, hönnuða og  fyrirtækja í skapandi greinum inn á þýska markaðinn.

Auður Edda Jökulsdóttir er sendiráðunautur í sendiráði Íslands í Berlín


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum