Hoppa yfir valmynd
17. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Hjúkrunarheimilið Nesvellir í Reykjanesbæ tekið í notkun

Hjúkrunarheimilið Nesvöllum
Hjúkrunarheimilið Nesvöllum

Nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili við Nesvelli í Reykjanesbæ var vígt síðastliðinn föstudag og fyrstu íbúarnir fluttu inn um helgina. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra óskaði Suðurnesjamönnum til hamingju með glæsilegt hjúkrunarheimili. Hann sagði vel hafa verið vandað til verksins og að því muni heimamenn á svæðinu búa til framtíðar.

Heimilið skiptist í sex búsetueiningar sem hver er með aðstöðu fyrir tíu íbúa. Fjölmenni var á vígsluhátíðinni og mikill áhugi fólks á því að skoða heimilið. Í ávarpi sem heilbrigðisráðherra flutti gerði hann meðal annars að umtalsefni þá þróun sem orðið hefur á skipulagi og hönnun hjúkrunarheimila á liðnum árum með áherslu á mannhelgi og virðingu við íbúana: „Auðvitað ráðast aðstæður ekki einungis af húsakostinum sjálfum, hugmyndafræðin að baki rekstrinum og þjónustunni sem veitt er skiptir kannski meginmáli – en þetta styður líka hvað við annað. Ég er viss um að íbúar þessa fallega heimilis á Frá vígslu NesvallaNesvöllum munu njóta þess að búa hérna. Fyrir starfsfólk og stjórnendur er það örugglega skemmtileg og spennandi áskorun að gera heimilið að þeim notalega stað sem efni standa til ef vel er á málum haldið. Aðstandendur íbúanna hafa líka hlutverki að gegna og geta lagt sitt af mörkum til þess að skapa hér hlýlegt og notalegt samfélag.“

Inn á nýja heimilið flytja allir íbúar hjúkrunarheimilisins Garðvangs, fólk sem dvalið hefur í hjúkrunarrýmum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og nokkrir íbúar hjúkrunarheimilisins Hlévangs. Garðvangi verður lokað en ráðist í endurbætur á Hlévangi. Hrafnista mun reka heimilið á Nesvöllum og tekur jafnframt við rekstri Hlévangs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum