Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2014 Utanríkisráðuneytið

Brot úr sögu sendiráðs

Gunnar Gunnarsson

Sendiráðið í Stokkhólmi var þriðja sendiráð Íslands. Því var komið á fót í júlí 1940. Var það nokkuð fyrr en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum ríkisstjórnarinnar og gerðist ekki síst fyrir tilstilli Finns Jónssonar alþingismanns sem var í Svíþjóð í síldarsöluerindum á þessum tíma. Í símskeytum til Íslands lagði hann mikla áherslu á að sendiráð yrði stofnað í Stokkhólmi og Vilhjálmur Finsen fenginn til að veita því forstöðu. Vilhjálmur var á þessum tíma nýkominn til Danmerkur frá Osló eftir að hafa fengið fyrirskipun frá Þjóðverjum um að hverfa úr landi. Hann var skipaður sendifulltrúi 27. júlí og opnaði sendiráð í Stokkhólmi 31. júlí 1940 í einu herbergi á Strand Hotel. Sendiráðið flutti seinna á árinu í annað húsnæði og næstu árin var flutt a.m.k. þrisvar sinnum þar til árið 1948 að húsnæði fékkst að Kommendörsgatan 35 en þar hefur sendiráðið verið staðsett allar götur síðan.

Stærsta verkefni sendiráðsins í Stokkhólmi frá upphafi kom inn á borð Vilhjálms Finsen á haustmánuðum 1943 með símskeyti frá Vilhjálmi Þór þáverandi utanríkis- og atvinnumálaráðherra. Óskað var eftir að sendiráðið kannaði hvort unnt væri að fá smíðaða 45 fiskibáta í Svíþjóð. Bátarnir áttu að vera af tveimur stærðum, 50 og 80 rúmlesta. Íslenska ríkistjórnin ætlaði að selja bátana til sveitarfélaga og sjávarútvegsfyrirtækja. Stríðið gerði það að verkum að sækja þurfti um leyfi til sænskra stjórnvalda og fékkst það í desembermánuði sama ár. Alls tóku þátt í þessu verkefni 19 bátasmíðastöðvar í Svíþjóð sem stofnuðu með sér félag í Gautaborg og þegar upp var staðið voru bátarnir 50 talsins. Bátana hannaði Bárður G. Tómasson skipaverkfræðingur frá Ísafirði.

Væntanlega hefur bátasmíðin verið helsta skýringin á fjölda starfsmanna í sendiráðinu þegar Áslaug Skúladóttir mætti þar til starfa árið 1945. „Það var fjölmennt starfslið í sendiráðinu um þessar mundir, ég held við höfum verið alls tíu eða jafnvel tólf“ segir Áslaug í greinarkorni sem birtist í ritinu „Kolonía í hálfa öld 1934-1984“. Áslaug fór til starfa í Gautaborg 1946 til aðstoðar Ólafi Sigurðssyni yfirverkfræðings bátasmíðanna. Ýmis vandamál komu upp sem þurfti að finna lausn á. Einhvern tímann þegar ekki fékkst mikilvægur tækjakostur í nokkra báta í tæka tíð og allt hafði verið fullreynt var brugðið á það ráð að heita á Strandakirkju. Og viti menn „þá tókst að fá þessi tæki strax daginn eftir“, segir Áslaug í sinni skemmtilegu frásögn.

Að stríðinu loknu voru gerðir reglulegir viðskiptasamningar milli Íslands og Svíþjóðar. Íslendingar vildu tryggja sér kaup á timbri, síldartunnum og öðrum timburvörum og jafnframt sölu á saltsíld. Svíar fóru ítrekað fram á hlunnindi í íslenskri landhelgi varðandi síldveiðar en því var hafnað. Íslendingar fóru ítrekað fram á lögvernd á heitinu „Íslandssíld“ en það vildu Svíar ekki. Með tímanum lögðust svo viðskiptasamningar af. Viðskipti hafa gengið greiðlega þrátt fyrir það en nú orðið er ekki mikið um íslensku síldina.

Til er í sendiráðinu ritsmíð eftir Benedikt Gröndal sem var sendiherra í Stokkhólmi á árabilinu 1982-1987 og ber hún heitið „Óþörf sendiráð?“ Á rúmum 50 blaðsíðum ver höfundur tilvist sendiráða Íslands á Norðurlöndum. Tilefni skrifanna er samkvæmt formálsorðum gagnrýni á sendiráðin í þjóðfélagsumræðunni. Ritsmíðin var gefin út í bæklingi 1986 og eru augljósar hliðstæður í röksemdum við þær sem heyrst hafa í umræðunni á undanförnum árum. Ýmsar fróðlegar upplýsingar koma þar fram, m.a. þær að í árslok 1985 voru í kringum 3300 Íslendingar með búsetu í Svíþjóð. Um þessar mundir eru þeir milli sjö og átta þúsund. Í sendiráðinu starfa fjórir, þar af tveir útsendir starfsmenn. Það segir sig kannski sjálft að þjónusta við Íslendingana er allstór partur af starfsemi sendiráðsins en líkt og önnur tvíhliða sendiráð eru viðskiptamál, menningarmál og pólitísk mál á dagskrá eftir því sem við á hverju sinni.

Fróðleik um sendiráðið í Stokkhólmi og samskipti Íslands og Svíþjóðar er að finna í ritum Péturs J Thorsteinssonar Utanríkisþjónusta Íslands og Utanríkismál sem gefin voru út í þremur bindum 1992 og jafnframt í Æviminningum Vilhjálms Finsen , Enn á heimleið, útgefnar 1956.


Gunnar Gunnarsson er sendiherra í Stokkhólmi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum