Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2014 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra á ársfundi Samtaka atvinnulífsins

Formaður SA, framkvæmdastjóri, ágætu ársfundargestir.
Það var vel til fundið hjá Samtökum atvinnulífsins að beina sjónum, á ársfundi sínum, að framtíðinni og þeim gríðarlegu tækifærum sem duglegt og skapandi fólk, miklar auðlindir til lands og sjávar og sterkir innviðir geta leyst úr læðingi.

Ísland situr nú um miðbik lista IMD rannsóknarstofunnar í Sviss yfir samkeppnishæfni 60 landa. Það sem slær okkur illa við þennan samanburð er að á sjö árum hefur Ísland fallið niður listann um 25 sæti!

Hvað sem líður umræðu um hversu vel slíkir listar mældu raunverulega stöðu mála áður en alþjóða-fjármálakreppan skall á er ljóst að við höfum sem þjóð sóað miklum tíma á undanförnum árum.

Það telst vísindalega sannað að glataðan tíma finni maður ekki aftur – þótt víða sé leitað. Því er lausnin ekki að hengja haus heldur að sækja fram.

Í greiningu sinni á niðurstöðum rannsóknarinnar lítur IMD tvo áratugi aftur í tímann og skilgreinir þjóðir sem bætt hafa stöðu sína á listanum um fimm sæti eða meira sem sigurvegara.

Þjóðir sem hafa færst aftur um fimm sæti eða meira hafa hins vegar tapað í baráttunni um samkeppnishæfni á síðustu áratugum að mati IMD sem bendir á að Evrópa standi halloka í samkeppnishæfni þar sem hvorki fleiri né færri en 12 Evrópulönd hafa færst aftur um fimm sæti eða meira.

Ísland er eitt af þessum löndum. Um Ísland og Írland segir IMD að samkeppnishæfni þurfi að vera sjálfbær og að of hraður uppgangur geti leitt til mikils falls.

Samkeppnishæfni í rannsókn IMD er metin með tvenns konar aðferðum; annars vegar með hlutlægum mælikvörðum sem auðvelt er að reikna út og hins vegar með huglægum spurningum sem lagðar eru fyrir stjórnendur fyrirtækja.

Það er mjög athygli vert að Ísland kemur hlutfallslega mun verr út úr þeim þáttum sem rekja má til huglægra svara stjórnenda en þeim áþreifanlegu.

Ísland skrapar botninn í mörgum þessara mælikvarða þar sem stjórnendur í löndunum 60 gefa sínu landi einkunn. Margt er kúnstugt í þessum svörum stjórnenda, svo sem að gagnsæi í stjórnsýslu sé meira í kínverska alþýðulýðveldinu en á Íslandi.

Af þessu má draga tvær ályktanir, fyrir utan þá augljósu að taka verði slíkum rannsóknum með fyrirvara.
Önnur er sú að áfallið sem þjóðin varð fyrir breytti ofmati á stöðu fjármálageirans fyrir krísuna í vanmat á stöðu Íslands almennt eftir krísuna.

Í staðinn fyrir að allt væri frábært varð allt hræðilegt. Hitt er að allt frá efnahagshruninu hefur markvisst verið unnið að því að tala land og þjóð niður.

Slíkt er ekki gert í útlöndum, heldur fyrst og fremst hér heima.

Forsenda árangurs er að hafa trú á því að hægt sé að ná árangri. Það sama á við um einstaklinga, íþróttalið, fyrirtæki, byggðarlög og þjóðir hvað þetta varðar. Enn er sterk sú umræða að við eigum varla rétt á að berjast fyrir okkar eigin hagsmunum. Það sé jafnvel fullreynt að við getum staðið á eigin fótum og því sé betra að ákvarðanir í mikilvægum hagsmunamálum okkar, svo sem peningamálum, séu teknar af öðrum en okkur sjálfum. Síðasta ríkisstjórn á stóran þátt í þessari orðræðu um dugleysi þjóðarinnar.

Til er fólk sem leit á vissan hátt á efnahagslegar ófarir Íslands sem sinn stærsta sigur, sem réttlætingu á eigin skoðunum. Loksins var komin sönnun þess að Ísland og Íslendingar væru ekkert svo merkilegir og jafnvel hálf-glataðir aular.

Loksins hlutu allir að sjá að Íslendingar hefðu í gegnum tíðina aldrei getað stjórnað sér sjálfir.

Loks var komin réttlæting fyrir byltingarstjórn sem myndi brjóta á bak aftur það hræðilega samfélag sem byggt var upp á Íslandi á 20.öld.

Þetta er ekki stór hópur, og slíkur hópur hefur alltaf verið til, en hann hefur færst mjög í aukana á undanförnum árum og lætur sérstaklega mikið í sér heyra nú þegar draumurinn um vonlausa Ísland er að fjara út og allt horfir til betri vegar í efnahagslífi landsins.

Svo eru þeir til sem virðast bara alls ekki þola að heyra góðar fréttir og enn síður að rætt sé um tækifæri landsins. Fyrir nokkrum dögum var ég beðinn að veita viðtal um mál sem ég hef mikið rætt á undanförnum árum, tækifæri Íslands á norðurslóðum.

Ég rakti þau í stuttu máli eins og ég hef oft gert áður. Það var líka spurt út í nýja skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og ég lýsti miklum áhyggjum af niðurstöðunum og tók undir að Íslendingar þyrftu að leggja sitt af mörkum til að bregðast við þróuninni og að við hefðum ýmsar leiðir til þess, m.a. þá að miðla þekkingu okkar á endurnýjanlegum orkugjöfum og fiskveiðum.

Jafnframt fælu möguleikar okkar á sviði matvælaframleiðslu ekki aðeins í sér tækifæri heldur líka skyldur gagnvart mannkyninu því að við þyrftum að leggja okkar af mörkum við að brauðfæða heiminn.

Bara nokkuð fallegt þótt ég segi sjálfur frá.

Ég hugsaði með mér að þá væri maður loksins búinn að segja eitthvað sem allir hlytu að geta glaðst yfir.

En það var ekki. Til er hópur sem má ekki heyra minnst á að hér séu tækifæri eða að við séum að gera eitthvað rétt, allra síst á sviði orkumála eða fiskveiða.

Árangur mannkynsins og framfarir frá upphafi byggjast ekki hvað síst á aðlögunarhæfni.

Við Íslendingar munum leggja okkar af mörkum við að bæta heiminn bæði með því að halda aftur af óæskilegri þróun og með því að laga okkur að aðstæðum.

Það er tímabært að segja skilið við hugarfar afturhalds, neikvæðni og niðurrifs. Flest bendir enda til að svartnættinu sé að slota og trú á eigin getu að eflast. Það er einna helst í innstu myrkviðum netsins og í ræðustól Alþingis að hagsmunaverðir svartnættisins halda vöku sinni.

Í raunheimum er hins vegar bjartsýni að aukast, vel studd af hagtölum og framtíðarspám.

Hver er staðan í raun, nú þegar áhrifin af breyttri stefnu við stjórn landsins eru farin að koma fram:

 • Hagvöxtur tók óvæntan kipp á síðasta ársfjórðungi 2013 og nú er útlit fyrir mikinn áframhaldandi hagvöxt, jafnvel þann mesta í Evrópu.
 • Hagvöxturinn er fyrst og fremst knúinn áfram af öflugum útflutningi en ekki af einkaneyslu. Útflutningur sem hlutfall af landsframleiðslu hefur aldrei mælst hærri en nú síðan mælingar hófust en.
 • Afgangur af viðskiptajöfnuði er mikill sem gefur þjóðarbúinu færi á að grynnka á skuldum sínum.
 • Fjárfesting er að aukast eftir nokkurra ára sögulegt lágmark.
 • Slakinn í þjóðarbúskapnum er óðum að hverfa sem þýðir að hagkerfið er að framleiða verðmæti í samræmi við getu.
 • Vöxtur í einstökum atvinnugreinum er gríðarlega mikill, svo sem í ferðaþjónustu.
 • Jákvæðar breytingar eru að eiga sér stað í hefðbundnum frumframleiðslugreinum. Þannig er bylting að eiga sér stað í fullvinnslu sjávarafurða og margar nýjungar í annarri matvælaframleiðslu.
 • Tugir fjárfestingarverkefna, stór sem smá, eru til skoðunar í iðnaði.
 • Erlendir bankar eru farnir að sækja til landsins í leit að nýjum verkefnum í stað þess að krefjast uppgreiðslu á hinum gömlu.
 • Nýsköpun og þróun í skapandi greinum ber frumkvöðlahugsun Íslendinga gott vitni.
 • Atvinnuleysi fer minnkandi og 4.000 ný störf hafa orðið til, nettó, frá því að ný ríkisstjórn tók við.
 • Kjarasamningar sem gerðir hafa verið gefa fyrirheit um aukinn stöðugleika á næstu árum og aukinn kaupmátt.
 • Nú horfa menn raunar fram á mestu kaupmáttaraukningu frá árinu 2007 að minnsta kosti, mestu kaupmáttaraukningu í Evrópu.
 • Skuldaleiðréttingar munu lækka húsnæðisskuldir landsmanna og auka ráðstöfunarfé heimilanna.
 • Verðbólga er undir viðmiðunarmörkum Seðlabankans og ekkert í farvatninu sem bendir til að verðbólga muni aukast á næstunni.
 • Gert er ráð fyrir afgangi á fjárlögum í fyrsta skipti í mörg ár.
 • Bjartsýni bæði almennings og stjórnenda fyrirtækja er að aukast, og skyldi engan undra.

Það er nú þess vegna sem ég sá ástæðu til að nefna það í ræðu ekki alls fyrir löngu að það er mikilvægt að forsvarsmenn í hinum ýmsu samtökum atvinnurekenda héldu sig sólarmegin í tilverunni eins og tilefni er til.
Þetta er langur listi af jákvæðum þáttum í hagkerfinu; þáttum sem færst hafa til betri vegar á skömmum tíma. Verkefnin sem við blasa á sviði hagstjórnar eru engu að síðar fjölmörg. Gæta þarf þess að hagkerfið ofhitni ekki við þessar aðstæður. Nú þegar sér fyrir endann á skuldaleiðréttingum ríkisstjórnarinnar eru önnur brýn verkefni ríkisstjórnarinnar í farvatninu, svo sem endurskoðun á peningastefnu og skipulagi Seðlabankans og uppbygging húsnæðislánakerfisins og heilbrigðs fjármálamarkaðar.

Losun fjármagnshafta er þó engu að síður stærsta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Við megum ekki hætta á að okkur fari að líða vel í því skjóli sem höftin  veita. Í kringum höftin verður til iðnaður fólks, hverra hæfileikar væru betur nýttir í virðisaukandi starfsemi. Verð á mörkuðum bjagast vegna haftanna. Þrýstingur á að losa um höftin kemur ekki frá heimilunum því fæst þeirra finna fyrir þeim með beinum hætti. Staðreyndin er hins vegar sú að höftin rýra samkeppnishæfni þjóðarinnar hvert einasta ár sem þau eru við lýði, draga úr trúverðugleika Íslands og gera okkur erfiðara um vik að skapa þeirri kynslóð sem er að vaxa úr grasi ákjósanleg skilyrði til að búa á Íslandi.

Það er þó orðið öllum ljóst að nauðsynlegt skilyrði fyrir afnámi hafta er að skuldaskilum fallinna banka sé lokið með þeim hætti að þau ógni ekki efnahagslegum stöðugleika. Af því verður að sjálfsögðu enginn afsláttur gefinn. Betri skilningur á því virðist vera að myndast hjá þeim sem höndla með kröfur á hina föllnu banka svo sem sést á því að verð á kröfunum hefur lækkað að undanförnu. Nái slitastjórnir ekki að leggja fram nauðasamning sem samræmist efnahagslegri stöðu Íslands til framtíðar blasir við að taka verður föllnu bankana til gjaldþrotaskipta.   

Í gær kynnti sérfræðihópur sem unnið hefur að því að meta stöðuna og möguleikana á afléttingu hafta niðurstöður sínar fyrir forsætis og fjármálaráðherra. Hópurinn skilaði afar góðu verki og ég er bjartsýnn á að við munum sjá hreyfingu á þessum málum áður en langt um líður.  

Góðir áheyrendur. Sem betur fer höfum við Íslendingar ástæðu til að vera bjartsýnir á framtíðina. Ég vona að engum hérna inni sárni þótt ég minni aftur á að landið býr yfir gríðarlegum tækifærum til framtíðar og að ný sóknarfæri eru að skapast vegna mannauðs, legu landsins, góðra innviða og náttúruauðlinda.

Hið stóra efnahagslega plan felst í því að trúa á Ísland, í því að virkja þann kraft sem býr í fólkinu, landinu og miðunum, trúa á okkur sjálf og þau tækifæri sem okkur bjóðast, hafa aga til að takast á við góða sem slæma tíma og ráða sjálf yfir okkar auðlindum. Stóra planið byggist á tveimur grunnstoðum; annars vegar virkum alþjóðasamskiptum og hins vegar agaðri hagstjórn.

Til að geta nýtt tækifæri okkar til fulls þurfum við að efla viðskiptasambönd okkar við önnur ríki, aðgang að mörkuðum, fríverslunarsamninga, fjárfestingarsamninga og tvísköttunarsamninga.

Lega Íslands er einkar athyglisverð í þessu sambandi.

Við þurfum að líta norður, vestur og austur í samskiptum okkar við umheiminn.

Við þurfum styrkari stjórnmála- og viðskiptatengsl við ríki Norður-Ameríku, við þurfum heildstæða nálgun í málefnum norðurslóða, við þurfum styrkari tengsl við rísandi efnahagsveldi Asíu.

Síðast en ekki síst þurfum við aukin samskipti við Evrópu m.a. á grundvelli EES samningsins.

Hin grunnstoð efnahagsstefnunnar er öguð hagstjórn.

Hún er þeim mun mikilvægari vegna sveiflukennds eðlis íslenska hagkerfisins.

Lélegt vatnsár getur skert tekjur stóriðjuvera sem sést strax í þjóðhagsreikningum. Loðnuvertíð getur brugðist með tilheyrandi tekjutapi fyrir þjóðfélagið.

Einna mikilvægast er að Íslendingar geti stjórnað peningamálum sínum sjálfir og hafi til að bera þann aga sem þarf til að safna í sjóði í góðæri.

Öguð hagstjórn lýtur ekki hvað síst að því að huga að samspili helstu stoða efnahagsumhverfisins; fjármálastjórn, peningamálastjórn og vinnumarkaði.

Þessir þrír þættir toga hver í annan og skapa umhverfi til hagvaxtar. Á öllum þessum sviðum eru umbreytingar í farvatninu sem eiga að tryggja agaðri og betri hagstjórn.

Fjármálastjórn hins opinbera mun taka byltingarkenndum breytingum verði frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um opinber fjármál að lögum.

Þá er, eins og ég gat um, í farvatninu vinna við peningamálastjórn og skipulag Seðlabanka Íslands.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa unnið að því að undanförnu að bæta gerð og umhverfi kjarasamninga með bættum vinnubrögðum sem eiga rætur sínar að rekja til Norðurlandanna.

Merki hinna bættu vinnubragða mátti sjá í kjarasamningum sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði þar sem áhersla er lögð á aukin kaupmátt með stöðugleika að leiðarljósi.

Einn af þeim þáttum sem koma til skoðunar þegar samkeppnishæfni þjóða er metin er hin lagalega umgjörð.
Ríkisstjórnin hefur einsett sér að ná markverðum árangri á því sviði og grisja þéttan og sívaxandi frumskóg laga og reglna sem atvinnurekendur þurfa að fara eftir.

Annars vegar verður farið markvisst yfir regluverk sem varðar tilteknar atvinnugreinar. Þannig standa forsætisráðuneytið, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Ferðamálastofa nú að því sameiginlega ásamt hagsmunaaðilum að greina regluverk ferðaþjónustu með það fyrir augum að einfalda leyfisveitingar og afnema flöskuhálsa í því ferli.

Í framhaldinu verður reynslan nýtt til að skoða fleiri atvinnugreinar.

Hins vegar er nú hvert stjórnarfrumvarp skoðað sérstaklega með tilliti til áhrifa á atvinnulífið.

Athygli ríkisstjórnar er vakin á því ef áhrif eru vanmetin.

Góðir gestir.
Að öllu þessu sögðu tel ég að stefnumörkun Samtaka atvinnulífsins sem miðar að því að bæta lífskjör og koma Íslandi í fremstu röð á næstu 10 árum sé rökrétt og vel framkvæmanleg.

Hún krefst framtakssamra og snjallra atvinnurekenda og góðra stjórnvalda. Sem betur fer höfum við hvort tveggja á Íslandi og getum leyft okkur að vera bjartsýn á framtíðina.

Takk fyrir!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira