Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2014 Innviðaráðuneytið

Félagsvísar um húsaleigumarkaðinn

Fjölbýli
Fjölbýli

Heimilum í leiguhúsnæði á almennum markaði hefur fjölgað hlutfallslega úr 15,4% árið 2007 í tæp 25% árið 2013. Árið 2012 voru um 13% Íslendinga á almennum leigumarkaði sem er heldur lægra en að meðaltali í löndum Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í nýjum Félagsvísum Hagstofunnar.

Félagsvísar eru safn fjölbreyttra tölulegra upplýsinga um velferð, efnahag, heilsufar og félagslegar aðstæður íbúa í landinu. Þeir draga upp mynd af þróun samfélagsins og lífsgæðum landsmanna og auðvelda stjórnvöldum og almenningi að fylgjast með þjóðfélagsþróun og samfélagsbreytingum. Gerð þeirra hófst að frumkvæði velferðarvaktarinnar árið 2009 og fyrsta skýrslan með safni félagsvísa fyrir árin 200-2010 leit dagsins ljós í febrúar árið 2012. Í júní sama ár var gerður samningur milli velferðarráðuneytisins og Hagstofu Íslands sem felur í sér að Hagstofan annast uppfærslu og birtingu félagsvísanna.

Nýbirtir félagsvísar um leigjendur á almennum leigumarkaði veita mikilvægar upplýsingar um þróun leigumarkaðarins á liðnum árum og gefa einnig kost á samanburði við aðstæður í öðrum Evrópuríkjum. Eins og fram kemur í tilkynningu frá Hagstofu Íslands hefur leigjendum á almennum markaði ekki aðeins fjölgað, heldur hefur samsetning hópsins breyst, bæði hvað varðar aldur, heimilisgerðir og tekjur. Eftir 2007 óx hlutfall fólks á aldrinum 25-34 ára á almennum leigumarkaði hraðar en í eldri aldurshópum, úr 8,6% í 23,7%. Á sama tíma hækkaði hlutfall leigjenda á almennum markaði í lægsta tekjubilinu hraðar en á hærri tekjubilum, úr 9,5% í 28,9%. Þá hækkaði hlutfallið á meðal heimila einhleypra með eitt eða fleiri börn úr 9,7% í 27,7%, sem er meiri aukning en mælist fyrir aðrar heimilisgerðir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum