Velferðarráðuneytið

Styrkir úr þróunarsjóði innflytjendamála

Frá afhendingu styrkjanna
Frá afhendingu styrkjanna

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, úthlutaði í gær styrkjum úr þróunarsjóði innflytjenda. Alls bárust 53 umsóknir í sjóðinn til margvíslegra verkefna en sautján verkefni hlutu styrki, samtals 9,4 milljónir króna.

Þetta er í sjöunda sinn sem úthlutað er úr sjóðnum frá því hann var settur á fót árið 2007. Frá þeim tíma hafa styrkir verið veittir til rúmlega 100 þróunarverkefna. Sjóðurinn gegnir veigamiklu hlutverki í að styðja og styrkja nýsköpunarverkefni í málaflokknum og jafnframt að styðja við áherslur stjórnvalda í málaflokknum hverju sinni og verkefni sem tilgreind eru í framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda.

Við úthlutun styrkja að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á þróunarverkefni og rannsóknir sem stuðla að bættri stöðu innflytjenda á vinnumarkaði og vinna gegn langtímaatvinnuleysi, rannsóknir og verkefni er varða stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaði og þróunarverkefni sem styðja við félög sem hafa það að markmiði að efla virka þátttöku innflytjenda í samfélaginu og vinna að hagsmunamálum þeirra.

Verkefni sem hlutu styrk


 • Mirra Miðstöð innflytjendarannsókna Reykjavíkur Akademíunnar, hlýtur styrk að fjárhæð 850.000 kr. í rannsóknina Housing conditions amongst Polish migrants in the Reykjavík metropolitan area en tilgangur rannsóknarinnar er að kortleggja húsnæðisstöðu Pólverjar í Reykjavík, hversu margir eru í eigin húsnæði, hversu margir eru í leiguhúsnæði og þá hversu margir eru í samþykktu eða ósamþykktu leiguhúsnæði.
 • Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og Helgi Þorbjörn Svavarsson hljóta einnar milljón króna styrk í rannsókn á aðstæðum innflytjenda á vinnumarkaði en markmið hennar er að varpa ljósi á viðhorf á vinnumarkaði gagnvart innflytjendum.
 • Rauði Krossinn í Reykjavík hlýtur 850.000 kr. í styrk til eigindlegrar rannsóknar á húsnæðisstöðu innflytjenda í Reykjavík.

Mikil gróska er í móðurmálskennslu og bárust fjölda umsókna þess efnis.

 • Magda Litwiniuk sem hlýtur 80.000 kr. styrk í verkefnið Mothertounge workshop þar sem pólskum nemendum verður boðin móðurmálskennsla og kennsla í pólskri menningu þeim að kostnaðarlausu. Námskeiðin verða haldin á Akureyri um helgar.
 • Bókasafnið á Dalvíkurbyggðar hlýtur 250.000 kr styrk í verkefnið Stuðningur við móðurmál. Markmiðið er meðal annars styðja við sjálfsmynd innflytjenda með móðurmálskennslu og kynningu á pólskri menningu meðal grunnskólabarna.
 • Tyrkneska íslenska menningarfélagið hlýtur 250.000 kr. styrk í verkefni sem hefur það markmið að bæta þekkingu tyrkneskra barna á móðurmáli sínu en jafnframt að styðja við íslenskunám fullorðinna Tyrkja hér á landi.
 • Vatra, félag Albana á Íslandi hlýtur 250.000 kr. styrk í verkefnið Albanski móðurmálsskólinn. Skólinn er ætlaður börnum á aldrinum 3-18 ára og verður einnig unnið að því að gera menningu Albana sýnilegri á Íslandi.
 • Móðurmál, samtök um tvítyngi, hlýtur 250.000 kr. styrk í verkefni sem fjallar um frekari uppbyggingu faglegs starfs hjá samtökunum en samtökin bjóða upp á móðurmálskennslu á fjölda tungumála.
 • Rætur, félag áhugafólks um menningarfjölbreytni á Ísafirði hlýtur styrk að fjárhæð 1.100.000 kr. í verkefnið Móðurmálskennsla fyrir börn á Ísafirði. Markmið verkefnisins er að stuðla að betri færni barna í sínu eigin móðurmáli og um leið auka skilning þerra á íslensku sem ætti að skila fleiri einstaklingum í framhaldsskólanna.

Í ár var lögð sérstök áhersla á stuðning við félagasamtök sem vinna að hagsmunamálum innflytjenda og það er einstaklega ánægjulegt að sjá þá fjölgun sem er meðal félagasamtaka sem vinna að hagsmunamálum innflytjenda og mikil gróska í starfsemi þeirra.

 • Projekt Polski hlýtur 700.000 kr. styrk í verkefni sem fjallar um að þróa sambandi milli pólskra og íslenskra menningar. Pólverjar eru  stærsti hópur innflytjenda á Íslandi og er markmið samtakanna að kynna Pólland, pólska menningu og vinna gegn fordómum.
 • Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi hlýtur 700.000 kr. styrk í verkefnið Taktu þátt í eigin aðlögun. Markmiðið er að  efla konur af erlendum uppruna utan höfuðborgarsvæðisins, virkja þær í gegnum skipulagða sjálfsstyrkingu til þátttöku í samfélaginu og kynna fyrir þeim þátttöku í virku félagsstarfi.
 • Hola, félag félag spænskumælandi á Íslandi, hlýtur 500.000 kr. styrk í verkefnið Samfélagsfræðsla fyrir spænskumælandi á Íslandi. Verkefnið felst í því að gefa spænskumælandi á Íslandi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í íslensku samfélagi, koma í veg fyrir einangrun þeirra og gera þeim kleift að nýta menntun og kunnáttu til fulls.

Mikil fjölbreytni einkennir þau verkefni sem hljóta styrk úr sjóðnum og eftifarandi eru þau sem ekki falla undir framantalda flokka.

 • Zane Brikovska hlýtur 200.000 kr. styrk til þess að halda vinnustofu þar sem unnið er með þær tilfinningar sem fylgja því að flytjast til nýs lands. Hvernig líður okkur, hvernig högum við okkur í nýju landi og hvað gerist þegar það umhverfi sem við erum vön breytist. Fjallað verður um hvernig nýta má þessa reynslu.
 • Mímir – símenntun hlýtur 675.000 kr. styrk til þess að þróa og halda túlkanámskeið með áherslu á sviði löggæslu og félagsþjónustu. Meginmarkmið er að efla virka þátttöku innflytjenda í samfélaginu, bæta stöðu þeirra á vinnumarkaði og að efla hæfni túlka í túlkun fyrir fólk af erlendum uppruna. Einnig er tilgangur námskeiðanna að auka gæði og fagmennsku í þjónustu túlka.
 • Félagsmiðstöðin Týr hlýtur 100.000 kr. styrk í verkefnið Ólíkur uppruni = fjölbreyttari reynsla. Markmiðið er að efla virka þátttöku innflytjenda í samfélaginu í samvinnu við íslenska íbúa á Dalvík og gera íbúa Dalvíkur að samstæðari hópi.
 • Exedra hlýtur 500.000 kr. styrk í verkefnið menntamæður. Markmiðið er að tengja konur af erlendum uppruna við fjölbreyttan hóp öflugra íslenskra kvenna og efla þannig tengslanet erlendra kvenna á Íslandi. Samhliða verður gert hvatningarmyndband þar sem konurnar, sem allar eru góðar fyrirmyndir, gefa góð ráð og sýna fram á kosti fjölbreytileikans í atvinnulífinu.
 • Ein milljón króna rennur til leikskólans Aspar í verkefnið Hagnýtir málörvunar-lyklar fyrir öll tungumál. Framleiða á myndbönd sem koma til móts við þarfir tvítyngdra foreldra á Íslandi. Myndböndin eiga að styðja við og efla foreldra með annað mál en íslensku í hlutverki þeirra sem málfyrirmyndir. Jafnframt eiga myndböndin að efla skilning samfélagsins á mikilvægi móðurmáls og stöðu tvítyngdra barna.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn