Hoppa yfir valmynd
16. maí 2014 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nýtt samræmt mat á þjónustuþörf aldraðra

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Tilbúið er til notkunar matskerfi sem nýtast mun veitendum öldrunarþjónustu til að leggja samræmt, hlutlægt mat á þjónustuþörf aldraðra. Matstækið var þróað í samvinnu við fimm sveitarfélög og er markmiðið að forgangsraða á samræmdan, áreiðanlegan og réttmætan hátt þjónustunni í samræmi við þörf aldraðra.

Þróun matskerfisins hefur staðið yfir um nokkurt skeið og hófst í tengslum við vinnu vegna áforma um flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga. Þótt hægt hafi verið á undirbúningi að slíkri yfirfærslu er ekkert því til fyrirstöðu að hefja notkun matskerfisins og er það mat velferðarráðuneytisins að það muni efla og bæta samvinnu á sviði félagslegrar þjónustu og heimahjúkrunar við aldraðra.

Matskerfið, sem kallað er upphafsmat, er í sjálfu sér ekki nýjung, heldur byggist það á þekktu mælitæki, RAI Home Care, en er í raun mun styttri og einfaldari útgáfa. Embætti landlæknis mun annast og hafa eftirlit með notkun og framkvæmd matsins og tölvukerfinu sem heldur utan um niðurstöðurnar, líkt og gildir um RAI-mælitækið sem notað er á hjúkrunarheimilum.

Niðurstöður forprófunar lofa góðu

Eftir að forprófunum var lokið hjá sveitarfélögunum fimm sem tóku þátt í þróunarverkefninu voru niðurstöðurnar kynntar helstu hagsmunaaðilum, þar með töldum fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landsambands eldri borgara, Öldrunarráðs Íslands, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, Samstarfsnefndar um málefni aldraðra, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Sjúkraliðafélags Íslands og Eflingar, en allir þessir aðilar eiga fulltrúa í verkefnisstjórn um undirbúning að yfirfærslu málefna aldraðra til sveitarfélaga. Niðurstöður eru þær að upphafsmatið gefi glögga og raunhæfa mynd af heilsufari fólks og þörf þess fyrir þjónustu. Það gefi því kost á málefnalegum og vel rökstuddum, faglegum ákvörðunum og auknu jafnræði þegar ákvörðun er tekin um þjónustu, hvort sem hún er á sviði heimahjúkrunar, félagslegrar þjónustu eða annarri öldrunarþjónustu.

Ýmislegt bendir til að bæta megi forgangsröðun til að tryggja sem best þjónustu við þá sem eru í mestri þörf fyrir hana og upphafsmatið er liður í því.  

Mörg sveitarfélög sem spurnir hafa haft af upphafsmatinu hafa þegar sýnt áhuga á því að taka það í notkun. Vonir velferðarráðuneytisins standa til þess að sem allra flest sveitarfélög og stofnanir sem annast öldrunarþjónustu um allt land sjái sér hag í því að nýta sér upphafsmatið og byggja á því þegar ákvarðanir eru teknar um þjónustu. Með því móti megi stuðla að auknu jafnræði og markvissari þjónustu í þágu þeirra sem á henni þurfa að halda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira