Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Beiðni um endurupptöku á úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 10. janúar 2013.

Þann 10. janúar 2013 kvað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið upp úrskurð í kjölfar stjórnsýslukæru Gunnars Sturlusonar, f.h. Frostfisks ehf., og staðfesti ákvörðun Matvælastofnunar frá 31. maí 2012 um að krefjast þess að bætt yrði úr athugasemd um að taka við hráefni til matvælaframleiðslu í því formi að fá til sín hrygg, haus og innyfli samblandað í kari.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu barst bréf, dags. 5. mars 2013, frá yður, fyrir hönd Gunnars Sturlusonar hrl., þar sem óskað var eftir því að kæra Frostfisks yrði tekin til meðferðar á ný og komist að gagnstærði niðurstöðu, samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Leitast var eftir umsögn Matvælastofnunar með bréfi, dags. 7. mars 2013. Umsögn stofnunarinnar barst með bréfi dags. 26. mars 2013. Með tölvupósti dags. 11. apríl 2013 var óskað eftir frekari útskýringum á ljósmyndum sem fylgdu með umsögn Matvælastofnunar og barst svar stofnunarinnar með tölvupósti sama dag.

Niðurstöður við rannsókn Sýnis voru sendar til Sigurjóns Arasonar, M.Sc., yfirverkfræðings hjá MATÍS, með tölvupósti, þann 7. mars 2013, til álits. Álit hans barst samdægurs.

Athugasemdir við umsögn Matvælastofnunar barst frá Snorra Stefánssyni hdl., fyrir hönd Gunnars Sturlusonar hrl., með bréfi dags. 29. apríl 2013.

Kröfugerð

Í bréfi yðar er rakin niðurstaða úr rannsókn Sýnis ehf. frá 26. febrúar 2013 og er skoðunarskýrsla þess meðfylgjandi bréfinu. Í rannsókninni var borinn saman fiskur áður en hann fór til Frostfisks á Ólafsvík og þegar vinnsla átti að hefjast. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga örverufjölgun í hráefninu fyrir og eftir flutning frá Hafgæðum til Frostfisks í Ólafsvík. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að í öllum tilvikum sé ástand fisksins viðunandi og í flestum tilvikum gott. Ekkert þeirra sýna sem tekið var sýndi að um óhæft hráefni væri að ræða.

Frostfiskur telur niðurstöðuna sýna ótvírætt að hráefnið standist þær kröfur sem gerðar eru til hráefnis í matvælaiðnaði samkvæmt lögum um matvæli nr. 93/1995. Í ljósi niðurstöðu rannsóknarinnar er það afstaða Frostfisks að ákvörðun ráðuneytisins hafi verið efnislega röng þar sem hráefni það sem um ræðir telst samkvæmt rannsókn Sýnis vera að minnsta kosti viðunandi og samkvæmt flestum mælikvörðum gott. Veigamesta forsenda ákvörðunar ráðuneytisins sé ekki rétt.

Frostfiskur mótmælir þeirri staðhæfingu Matvælastofnunar að meðferð hráefnis af hálfu Frostfisks sé ekki í samræmi við reglur og að rannsóknir af hálfu Matvælastofnunar séu því óþarfar. Þá sé erfitt að henda reiður á afstöðu Matvælastofnunar til rannsóknar Sýnis.

Umsögn Matvælastofnunar

Beiðni yðar var send til Matvælastofnunar sem skilaði umsögn þann 26. mars 2013. Telur stofnunin að hafna beri beiðni um endurupptöku úrskurðarins frá 10. janúar 2013. Lagalegar kröfur séu skýrar um að aðskilja beri slóg og matvæli eins skjótt og hægt er og að frekar sýnatökur séu óþarfar. Einstaka sýnatökur sem sýna niðurstöður sem eru „viðunandi“ breyti engu um efni viðkomandi reglna.

Í umsögn stofnunarinnar eru viðeigandi ákvæði laga og reglugerða rakin. Þá kemur fram það mat stofnunarinnar að meðferð umrædds hráefnis sé ekki í samræmi við reglur um hollustuhætti og frekari rannsóknir óþarfar. Ekki þurfi að sýna frekar fram á óheilnæmi afurðanna enda snúist kröfur um hollustuhætti um að draga sem mest úr hættu á að óörugg matvæli séu á boðstólum. Þá hafnar stofnunin því að fara þurfi í sérstaka sýnatöku sem staðfesti sjúkdóm eða bakteríu, í hverju og einu tilviki, til að geta staðið á því að lagareglunni sé fylgt. Stofnunin eigi ekki að þurfa að sýna fram á tjón á heilsu og lífi fólks þar sem reglurnar séu settar til að fyrirbyggja hættu og það sé á ábyrgð stjórnenda matvælafyrirtækja að fara að þeim reglum hvort sem um meginreglur eða sértækari reglur sé að ræða.

Með umsögn Matvælastofnunar fylgdu þrjár ljósmyndir sem sýna starfsemi þar sem slóg er blandað saman við aðrar afurðir. Óskað var eftir frekari skýringum stofnunarinnar á ljósmyndunum og hvernig þær tengdust málinu. Í svari Matvælastofnunar segir að þær hafi ekki verið teknar í tilefni þessa máls heldur vegna annars máls en að þeim hafi verið komið á framfæri í dæmaskyni um sambærilega starfsemi til að setja málið í meira samhengi. Í ljósi þess að hér er ekki um ljósmyndir af vinnslu Frostfisks að ræða og þær hafa ekki beint gildi í máli þessu hefur ráðuneytið ákveðið að þær skuli ekki hafa gildi við afgreiðslu þessa erindis.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:
1.    ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2.    íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá þvi að ákvörðun var tekin.“

Frostfiskur heldur því fram að niðurstaða ráðuneytisins í úrskurði frá 10. janúar 2013 hafi verið efnislega röng þar sem veigamesta forsenda ákvörðunar ráðuneytisins var ekki verið rétt. Niðurstaða rannsóknar Sýnis ehf. sýni að hráefni það, sem um ræðir, telst vera að minnsta kosti viðunandi og samkvæmt flestum mælikvörðum gott.

Í úrskurði ráðuneytisins frá 10. janúar 2013 segir: „Ráðuneytið telur að notkun hráefnisins, þar sem blandað sé saman hrygg, haus og innyflum í fiskikari og það flutt með því móti, uppfylli ekki kröfur laga. Líkindi séu fyrir því að slík matvæli spillist. Þegar innihald meltingarvegar fisks blandast við þann hluta, sem ætlað er til manneldis, þá spillir það matvælunum bæði með meltingarensímum og miklu magni örvera. Það flýtir einnig mjög fyrir niðurbroti sem flýtir rotnun og þar með skemmdum. Meðhöndlun af þessu tagi veldur því að varan, sem unnin er úr hráefninu, er mun líklegri til þess að valda matareitrunum vegna örvera sem berast í flök og hausa við meðhöndlun og vinnslu.“

Ráðuneytið bendir á að í úrskurði segir að „líkindi séu fyrir því að matvæli spillist“. Ráðuneytið fullyrðir ekki um að slíkt muni gerast heldur að með þessu fyrirkomulagi við framleiðslu sé hætta á því. Rannsókn sem sýnir fram á heilnæmi afurða í tilteknu tilviki verður að mati ráðuneytisins ekki talin sönnun þess að matvæli muni alltaf vera talin heilnæm. Niðurstaða ráðuneytisins byggði á ákvæði matvælalaga og reglum um hollustuhætti sem miða að því að fyrirbyggja að á markað berist matvæli sem geta verið heilsuspillandi. Telur ráðuneytið því ekki að um ranga efnislega niðurstöðu hafi verið að ræða.

Ráðuneytið fellst því ekki á beiðni yðar um að taka málið aftur upp og snúa við niðurstöðu úrskurðar þess frá 10. janúar 2013.

Ráðuneytið biðst afsökunar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu þessa erindis.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Ólafur Friðriksson

        Eggert Ólafsson

            


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn