Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 9/2014.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 26. maí 2014

í máli nr. 9/2014:

Ístak hf.

gegn

Isavia ohf. og

Ríkiskaupum           

Með kæru 13. maí 2014 kærir Ístak hf. ákvörðun Ríkiskaupa á vali tilboðs í útboði fyrir Isavia ohf. nr. 15606 auðkennt „Stækkun Suðurbyggingar til vesturs 2014, SSV14-07 Jarðvinna, burðarvirki og ytri frágangur“. Endanlegar kröfur kæranda eru að tilboði ÍAV verði vísað frá vegna formgalla og kærunefnd útboðsmála yfirfari tilboð sem bárust í heild sinni. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Hið kærða útboð lýtur að stækkun suðurbyggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Útboðið var lokað og haldið í kjölfar forvals 15614 sem auglýst var á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt grein 0.3.7. í útboðsgögnum skyldi samanburður tilboða byggjast á yfirfarinni (leiðréttri) heildartilboðsupphæð á tilboðsblaði. Þá sagði eftirfarandi: „Ef margföldunar‐ og/eða samlagningaskekkjur finnast í tilboðsskrá skal gera viðeigandi leiðréttingar á niðurstöðutölum tilboðs, en einingaverð er bindandi fyrir bjóðendur. Einingaverð er einnig bindandi, gagnvart þeim magnaukningum, viðbótarverkum og aukaverkum sem verktaki kann að verða beðinn um að framkvæma. Við yfirferð tilboða er einingarverð bjóðenda sett inn í tilboðsskrá útboðsgagna. Hafi bjóðandi breytt magni, fellt niður línur eða bætt línum við tilboðsskrána kemur það ekki fram við yfirferð, enda er slíkt óheimilt. Verkkaupi áskilur sér engu að síður rétt til að líta á slík tilboð sem gild, enda gildi þá ákvæði greinar 0.3.1 Gerð og frágangur tilboðs um að óútfylltir liðir teljist innifaldir í öðrum liðum. Verkkaupi áskilur sér rétt til að láta minni háttar vöntun eða formannmarka á fylgigögnum með tilboði ekki hafa áhrif á gildi tilboða, enda hafi vöntunin eða annmarkinn að mati verkkaupa ekki áhrif á tölulega niðurstöðu tilboðs, jafnræði bjóðenda sé ekki raskað og ógildi tilboðs fæli í sér strangari ákvörðun en nauðsynlegt væri vegna eðlis og umfangs annmarkans.“

Tilboð voru opnuð 8. maí 2014 og átti kærandi lægsta tilboð, kr. 1.281.496.887, en tilboð Íslenskra aðalverktaka hf. var næst lægst, kr. 1.319.234.897. Með tölvuskeyti varnaraðila 9. sama mánðar var kæranda tilkynnt um að við yfirferð tilboða hefði fundist reiknivilla í tilboði Íslenskra aðalverktaka hf. þar sem bjóðandinn hefði lagt tilboðsliði, sem voru valkostir í tilboðsskrá, saman við heildartilboðið. Tekið hefði verið fram í verklýsingu að liðurinn ætti ekki að vera innifalinn í heildarupphæð tilboðs. Samkvæmt þessu lækkaði tilboð Íslenskra aðalverktaka í kr. 1.272.391.997 og varð þannig lægsta tilboðið sem ákveðið var að taka.

            Kærandi reisir í grundvallaratriðum málatilbúnað sinn á því að varnaraðila hafi ekki verið heimilt að leiðrétta tilboð Íslenskra aðalverktaka hf. Tekið hafi verið fram að liðurinn, sem bjóðandinn bætti við tilboð sitt, hafi samkvæmt verklýsingu ekki átt að vera innifalinn í heildarupphæðinni. Af því leiði að tilboðið sé haldið formgalla en ekki reiknivillu og því beri að vísa tilboðinu frá. Kærandi telur að margar villur hafi verið í magntöflu fyrirtækisins á framlagðri excel-skrá. Jafnvel þótt sú magntafla hafi verið til leiðbeiningar krefst kærandi þess að nefndin yfirfari tilboð í heild sinni.

            Varnaraðilar telja að heimilt hafi verið að leiðrétta tilboðið. Þá er því byggt að kæran uppfylli ekki formkröfur enda sé ekki krafist ógildingar á vali tilboðs, en nefndin hafi ekki heimild til að yfirfara öll tilboð.

Niðurstaða

Skilja verður málatilbúnað kæranda á þá leið að krafist sé ógildingar á þeirri ákvörðun varnaraðila að velja tilboð Íslenskra aðalverktaka hf. í fyrrgreindu útboði. Að þessu leyti lýtur kæran því að úrræðum nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Krafa kæranda um yfirferð tilboða er að vísu ekki í samræmi við lögbundin úrræði nefndarinnar en það getur þó verið óhjákvæmilegur liður í rannsókn málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eru því engin efni til frávísunar kærunnar.

Í málinu er óumdeilt að Íslenskir aðalverktakar hf. bættu ranglega tilteknum liðum við tilboðsfjárhæð sína. Þannig er óumdeilt að tilboð Íslenskra aðalverktaka hf. var í raun lægsta tilboðið. Ræðst lögmæti ákvörðunar um val á tilboði þannig af því hvort varnaraðila hafi verið heimilt að leiðrétta tilboð fyrirtækisins.

Þótt bjóðanda sé almennt óheimilt að leiðrétta eða breyta tilboði sínu eftir opnun hefur kærunefnd útboðsmála talið kaupanda heimilt að leiðrétta tilboð ef um er að ræða augljósa villu við tilboðsgerð og fullnægjandi forsendur fyrir leiðréttingu koma fram í tilboðsgögnum. Er þá horft til þess að með slíkri leiðréttingu er í reynd ekki haggað við grundvallarþáttum tilboðs þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun sé að ræða. Var í útboðsgögnum að finna nánari ákvæði til samræmis við þessa meginreglu opinbera innakaupa. Samkvæmt gögnum málsins fólst breyting varnaraðila á tilboði Íslenskra aðalverktaka hf. eingöngu í því að dregnir voru frá liðir sem ekki áttu heima í heildartilboðsfjárhæð. Að mati nefndarinnar hafa ekki verið færð fyrir því rök að þessi breyting hafi verið varnaraðila óheimil samkvæmt þeim viðmiðum sem áður greinir.

Samkvæmt framangreindu telur nefndin ekki að slíkar líkur hafi verið leiddar að broti gegn lögum um opinber innkaup að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 94. gr. a laga um opinber innkaup eins og greininni var breytt með 12. gr. laga nr. 58/2013, sbr. 1. mgr. 96. gr. laganna. Verður stöðvun samningsgerðar því aflétt að kröfu varnaraðila.

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar varnaraðila, Isavia ohf., við Íslenska aðalverktaka hf. á grundvelli útboðs nr. 15606 auðkennt „Stækkun Suðurbyggingar til vesturs 2014, SSV14-07 Jarðvinna, burðarvirki og ytri frágangur.“

                                                                                              Reykjavík, 26. maí 2014.

                                                                                              Skúli Magnússon

                                                                                              Ásgerður Ragnarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn