Hoppa yfir valmynd
26. júní 2014 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar um viðskiptamál í Kína

Gunnar Bragi ásamt Gao Gucheng, viðskiptaráðherra Kína

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, er þessa dagana í heimsókn í Kína ásamt viðskiptasendinefnd. Fundar hann þar með ráðamönnum og kynnir sér starfsemi íslenskra fyrirtækja í Kína og hvernig megi auka og víkka út viðskipti og samstarf Íslands og Kína á næstu árum.

Fyrr í dag átti utanríkisráðherra fund í Peking með viðskiptaráðherra Kína, Gao Hucheng, í tilefni af gildistöku fríverslunarsamnings Íslands og Kína 1. júlí nk. Ræddu ráðherrarnir vaxandi viðskipti ríkjanna og þau tímamót í samskiptum ríkjanna sem fríverslunarsamningurinn markar. Vonir standa til að samningurinn auki verulega viðskipti ríkjanna. Efnahagslegt samstarf af ýmsum toga var rætt, ekki síst þróun samstarfs í orkumálum, m.a. jarðvarma. Þá ræddu ráðherrarnir ferðamál, samvinnu á Drekasvæðinu og áhuga íslenskra fyrirtækja á sölu á ýmsum kjötafurðum og mjólkurvörum til Kína.Þá fundaði utanríkisráðherra með varautanríkisráðherra Kína, Wang Chao. 

Fögnuðu ráðherrarnir þeim tækifærum sem fælust í fríverslun milli ríkjanna, auknu samstarfi á ýmsum sviðum og því samráði sem hér væri hafið samkvæmt viljayfirlýsingu forsætisráðherra ríkjanna frá fyrra ári. Í því samhengi minntust þeir nýgerðs samkomulags um samráð á sviði vinnumála.  Norðurslóðamál bar hátt á fundinum, áherslur Íslands á því sviði og samstarfsmöguleikar m.a. á sviði umhverfisverndar. Evrópumál og efnahagsmál bar einnig á góma, sem og mikilvægi jafnréttismála.

Á morgun fundar Gunnar Bragi Sveinsson með utanríkisráðherra Kína, Wang Yi. Þá ávarpar hann viðskiptaþing íslenskra og kínverskra fyrirtækja en á þinginu er lögð áhersla á matvælaútflutning þ.m.t. sjávarafurðir. Ráðherra mun ennfremur funda með forstjóra Sinopec Group, sem er í samstarfi við Orka Energy um hitaveituverkefni í Kína.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum