Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2014 Matvælaráðuneytið

G. Ben útgerðarfélag ehf. kærir ákvörðun Fiskistofu um synjun á lækkun sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013.

Stjórnsýslukæra

Með bréfi, dags. á Akureyri 25. mars 2014 bar Enor ehf. upp kæru f.h. G. Ben útgerðarfélags ehf. vegna ákvörðunar Fiskistofu í bréfi dags. 22. janúar 2013 um synjun á lækkun sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013. Þess er óskað í kærunni að umsókn félagsins verði tekin til greina óbreytt, eins og nánar er rakið í kærunni.

Um meðferð kærunnar fer skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Atvik máls og sjónarmið aðilja.

Um rétt til tímabundinnar lækkunar sérstaks veiðigjalds fer samkvæmt reglugerð nr. 838/2012. Að því fram kemur í gögnum málsins ákvarðaði Fiskistofa Hraðfrystihúsinu – Gunnvör hf rétt til lækkunar sérstaks veiðigjalds með bréfi dags. 22. janúar 2013, en þar segir:

Fiskistofa hefur ákveðið að G. Ben útgerðarfélag ehf. fái ekki lækkun á sérstöku veiðigjaldi fyrir fiskveiðiárið 2012/2013.


Ástæða þess að ekki er um rétt til lækkunar að ræða er að útreiknuð vaxtagjöld eru lægri en 4% af reiknuðu stofnverði rekstrarfjármuna, sbr. 2. mgr. ákvæðis II. til bráðabirgða við lög nr. 74/2012 um veiðigjöld og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 838/2012 um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds. Fiskistofa gerði breytingar á útreikningi sem var í umsókn yðar, í samræmi við upplýsingar frá ríkisskattstjóra, en samkvæmt þeim er stofnverð rekstrarfjármuna í eignaskrá kr. xxxx, en ekki kr. xxxx eins og segir í umsókn. Uppreiknað stofnverð rekstrarfjármuna telst skv. því vera kr. xxxx. Peningalegar eignir teljast vera kr. xxxx, en ekki xxxx eins og segir í umsókn, en samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra er fjárhæð í reit 5990 í framtali umsækjanda kr. xxxx, en ekki kr. xxxx eins og segir í umsókn.

Í stjórnsýslukærunni er gerð grein fyrir málavöxtum, eins og þeir horfa við félaginu. Þar er rakið að Fiskistofa hafi gert breytingar á kennitölum í umsókninni, eins og rakið er í ákvörðun stofnunarinnar. Síðan segir:

... Við yfirferð á ársreikningi og framtali félagsins fyrir árið 2011 komu í ljós fastafjármunir sem ekki eru lengur í eigu félagsins. Samhliða umsókn um lækkun á sérstöku veiðigjaldi var send inn kæra á ríkisskattstjóra þar sem óskað var eftir að gerðar yrðu leiðréttingar á skattframtali og skattalegri eignaskrá félagsins. Ríkisskattstjóri samþykkti með úrskurði 26. febrúar 2013 breytingar á skattframtali félagsins fyrir árið 2011 og eignaskrá (RSK 4.01) en í þeim fólst að eignirnar sem vísað er til hér að ofan voru felldar út.

Í úrskurði Fiskistofu kemur einnig fram að peningalegar eignir félagsins teljist vera xxxx, en ekki xxxxeins og kom fram í umsókninni og er það einnig byggt á upplýsingum úr skattframtali félagsins. Í fylgigögnum með umsókninni kom fram að á eyðublaði „3. Efnahagur“ í umsókn félagsins um lækkun veiðigjalda voru heildareignir í útleiðslu á peningalegum eignum, lækkaðar um kr. xxxx eða sem nemur kröfu félagsins á móðurfélagið Sæþór EA101 ehf. Eini tilgangur Sæþórs EA 101 ehf. er að halda utan um eignarhlut í G. Ben útgerðarfélagi ehf. sem jafnframt er eina eign félagsins. Það var mat okkar að ekki væri um peningalega eign að ræða og því var krafan tekin út úr heildareignum í umsókninni.

Í framhaldi þessa er óskað eftir því að þessar skýringar og samþykktar breytingar á skattframtali verði teknar til greina og umsókn um lækkunina samþykkt eins og hún var borin fram. Með kærunni fylgdi m.a. tilvísaður úrskurður ríkisskattstjóra dags. 26. febrúar 2013.

Í framhaldi þessa óskaði ráðuneytið eftir því, með bréfi dags. 3. apríl 2013, að Enor ehf. mundi láta ráðuneytinu í té umboð til hagsmunagæslu f.h. G. Ben útgerðarfélags ehf. Gefinn var þriggja mánaða frestur til að láta það í té. Ekkert svar barst og varð það til þess að ráðuneytið, með bréfi dags. 23. ágúst 2013, ákvað að láta málið niður falla.

Með rafbréfi frá 30. ágúst 2013 barst umboð frá Enor ehf. frá G. Ben útgerðarfélagi, og ákvað ráðuneytið í framhaldi þess að taka málið fyrir að nýju. Samhlið því að bréfið barst beindi ráðuneytið svofelldri fyrirspurn að forsvarsmanni Enor ehf:

Hefur þú verið í sambandi við Fiskistofu vegna þessa máls? Ef félagið hefur fengið nýtt framtal samþykkt hjá skattyfirvöldum, þá ætti það að geta óskað eftir endurupptöku hjá Fiskistofu. Í ágúst, þegar við höfðum síðast samband, kom fram hjá Fiskistofu að ekki hafi verið óskað eftir endurupptöku. Athuga verður í þessu sambandi einnig þá fresti sem stjórnsýslulög mæla fyrir um.

Svofellt svar barst í framhaldi þessa frá forsvarsmanni Enor ehf:

Ég hef ekki verið í sambandi við Fiskistofu varðandi endurupptöku málsins. Kæran sem við sendum til ykkar snéri ekki eingögnu að þeim leiðréttingum sem gerðar hafa verið á skattframtali félagsins heldur einnig að því að tekin yrði til greina lækkun á peningalegum eignum félagsins líkt og skýrt er í kærunni og fylgigögnum sem fylgdu upphaflegri umsókn til fiskistofu.

Hvað er næsta skrefið í þessu? Eigum við að senda inn beiðni um endurupptöku þar sem þessi sjónarmið eru ítrekuð og úrskurður RSK einnig lagður fram eða mun það koma frá ykkur á grundvelli kærunnar?

Jafnhliða þessu, með bréfi dags. 30. ágúst 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna. Í bréfinu segir að nokkuð hafi dregist að taka kæruna til meðferðar. Síðan segir: „Veigamiklar ástæður mæla engu að síður með því að málið verði tekið til meðferðar.“ og var óskað umsagnar stofnunarinnar um kæruna innan þriggja vikna. Enor ehf. barst afrit þessarar beiðni.

Með bréfi dags. 4. febrúar 2014 barst ráðuneytinu umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna. Í bréfinu er vísað til rökstuðnings í hinni kærðu ákvörðun, en að auki segir:

Þegar umsókn kæranda um lækkun sérstaks veiðigjalds var afgreidd hafði leiðrétt framtal hans ekki hlotið afgreiðslu hjá Ríkisskattstjóra og var því ekki hægt að byggja á framtalinu að svo stöddu við afgreiðslu umsóknar.


Það hefur nú fengist staðfest að Ríkisskattstjóri hefur afgreitt leiðrétt framtal kæranda. Það felur í sér að verðmæti eigna á eignaskrá lækkar. Eignir samtals í reit 5990 lækka einnig lítillega. Ef byggt er á tölum úr hinu nýja framtali verður niðurstaða útreikninga samt sem áður sú að kærandi á ekki rétt á lækkun á sérstöku veiðigjald að mati Fiskistofu.

Kærandi vill byggja umsókn sína á því að draga eigi kröfu á móðurfélag frá eignum kæranda við útreikning á peningalegum eignum. Fiskistofa telur hins vegar að peningalegar eignir eigi að reiknast sem sú upphæð sem kemur fram í reit 5990 í framtali að frádregnum þeim liðum sem tilgreindir eru í 3. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 838/2012 um tímabundna lækkun veiðigjalds, en þeir liðir eru eftirfarandi: óefnislegar eignir, reitur 5010, fasteignir, reitur 5022, aðrir varanlegir rekstrarfjármunir, reitur 5027, hráefnisbirgðir, reitur 5090, vörur og verk í vinnslu, reitur 5100, birgðir fullunninna vara, reitur 5110 og vörubirgðir, reitur 5120. Fiskistofa telur að í þessu reglugerðarákvæði sé tæmandi talning á þeim liðum sem draga má frá samtölu eigna við útreikning á peningalegum eignum.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II. við lög um veiðigjöld nr. 74/2012 ber að byggja útreikning á lækkun sérstaks veiðigjalds á skattframtali fyrir árið 2011.

Að fenginni staðfestingu frá Ríkisskattstjóra um afgreiðslu framtals kæranda gerir Fiskistofa ekki athugasemdir við tölur í umsókn að öðru leyti en því að eignir alls í reit 5990 eiga að vera kr. xxxx,- en ekki xxxx,-

Með bréfi dags. 22. maí 2014 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Enor ehf. um umsögn Fiskistofu og barst umsögn félagsins með bréfi dags. 2. júní 2014 Þar er fjallað sérstaklega um afstöðu stofnunarinnar til ákvörðunar peningalegra eigna í umsókn G. Ben útgerðarfélags ehf. Í bréfinu segir:

Við ítrekum þá ósk okkar að leiðrétting á peningalegum eignum í umsókn kæranda um lækkun sérstaks veiðigjalds fái að standa, en sú leiðrétting er forsenda þess að kærandi eigi rétt á lækkun á sérstöku veiðigjaldi. Í fylgigögnum með umsókn til Fiskistofu var sú leiðrétting rökstudd en hún nemur kröfu félagsins á móðurfélagið Sæþór EA 101 ehf. Krafan milli félaganna myndaðist við kaup Sæþórs EA101 ehf. á félagi sem var svo sameinað G.Ben útgerðarfélagi ehf. G. Ben útgerðarfélag ehf. lánaði Sæþóri EA 101 ehf. fyrir kaupunum. Eini tilgangur Sæþórs EA101 ehf. er að halda utan um 100% eignarhlut í G.Ben útgerðarfélagi ehf. sem er jafnframt eina eign félagsins. Eins og skipulag félaganna er í dag má segja að krafan sé einskis virði og ef litið væri til samstæðureikningsskila félaganna þá fellur krafan út. Það er mat okkar að krafan teljist því ekki vera peningaleg eign og því sé eðlilegt að hún sé dregin frá heildareignum í útreikningi á stöðu peningalegra eigna.

Forsendur og niðurstaða

Í hinni kærðu ákvörðun er rakið að Fiskistofa taldi virði peningalegra eigna kr. xxxx, en ekki xxxx eins og tilfært var í umsókn. Það byggði á því að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra var fjárhæð í reit 5990 í framtali umsækjanda kr. xxxx, en ekki kr. xxxx eins og sagði í umsókninni. Um forsendur fyrir þeirri ákvörðun er að auki fjallað í umsögn Fiskistofu í bréfi til ráðuneytisins dags. 4. febrúar 2014.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar og þeirra nánari skýringa sem færðar eru fram í tilvísaðri umsögn Fiskistofu er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Jóhann Guðmundsson.

Arnór Snæbjörnsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum