Hoppa yfir valmynd
Velferðarráðuneytið

Svara vegna biðlista leitað hjá stærstu sveitarfélögum landsins

Stærstu sveitarfélög landsins hafa verið krafin svara í bréfi frá velferðarráðuneytinu um stöðu biðlista eftir félagslegu húsnæði og hvort sveitarfélögin fullnægi lögboðnu hlutverki sínu.

Í bréfinu óskar ráðuneytið eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum fyrir 8. ágúst næstkomandi og vill fá skýr svör um hversu biðlistar eftir félagslegu húsnæði séu langir hjá sveitarfélögunum og hvort þau fullnægi lögboðnu hlutverki sínu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Í því samhengi vill ráðuneytið fá að vita hver sé heildarfjöldi umsókna um félagslegt leiguhúsnæði sem barst annars vegar á síðasta ári og hins vegar fyrstu sex mánuði þessa árs. Þá vill ráðuneytið fá svör um hversu mörgum umsóknum var hafnað á þessum tveimur tímabilum, hversu mörgum félagslegum leiguíbúðum var úthlutað hjá hverju sveitarfélagi um sig á þessum tímabilum og hver fjöldi einstaklinga og/eða fjölskyldna á biðlista eftir félagslegu húsnæði hafi verið 30. júní 2014.

Ráðuneytið vill enn fremur að sveitarfélögin upplýsi um fjölda einstaklinga og fjölskyldna sem þáði sérstakar húsaleigubætur hjá þeim, hver fjöldi félagslegra leiguíbúða í útleigu hafi verið 30. júní 2014 og loks spyr ráðuneytið hvort sveitarfélögin hafi uppi áætlanir um framboð á húsnæði og aðrar úrlausnir í húsnæðismálum þeirra sem ekki geta leyst þau sjálf, sbr. 45. og 46. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Velferðarráðuneytið telur brýnt að fá skýr svör við þessum spurningum enda um mikið hagsmunamál að ræða sem varpa þarf ljósi á.

Eins og áður sagði hafa sveitarfélögin frest til 8. ágúst til að svara bréfinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira