Hoppa yfir valmynd
5. ágúst 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um náttúruhamfaratryggingar

Fjármála- og efnahagsráðuneytið vekur athygli á drögum að frumvarpi til laga um náttúruhamfaratryggingar. Að meginefni til fylgja drögin þeirri hugmyndafræði sem gildandi lög um Viðlagatryggingu Íslands byggir á.  Eins og í þeim lögum gera frumvarpsdrögin ráð fyrir að húseigendum verði skylt að kaupa sérstaka vátryggingu gegn tilteknum skilgreindum vátryggingaratburðum.

Ólíkt því sem er í lögum um Viðlagatryggingu Íslands er lagt til í drögunum að eigendum íbúðarhúsnæðis sé skylt að kaupa lágmarks vátryggingarvernd fyrir innbú.  Miðast sú vernd við 5% af brunabótamati viðkomandi húsnæðis.  Jafnframt er lagt til að heimilt sé að kaupa viðbótarvernd, telji innbúseigandi lágmarksverndina ekki fullnægjandi, fyrir innbú og annað lausafé.  Með þessari tilhögun er það mat þeirra sem sömdu frumvarpsdrögin að draga megi úr ölmusuáhættu og þannig koma til móts við tillögur "tjónanefndar" forsætisráðuneytisins frá 2012.

Að öðru leyti eru helstu ákvæði frumvarpsdraganna þessi:

  • Eytt er vafa um að bætt verði efnisleg verðmæti sem ekki eru inni í brunabótamati en skemmst geta í náttúruhamförum (2. gr.);
  • skylt verður að vátryggja húseignir á smíðatíma (2. gr.);
  • skýrt er kveðið á um þau verðmæti sem hið opinbera vátryggingafélag vátryggir ekki (4. gr.);
  • ítarlegri skilgreining er á vátryggingaráhættu og beinu tjóni en í gildandi lögum (6. gr.);
  • eigin áhætta ("sjálfsáhætta") er lækkuð úr 5% niður í 2% en lágmarksfjárhæðir hækkaðar nokkuð til þess að draga úr matskostnaði og ágreiningsefnum (7. gr.);
  • sett er umgjörð um skilgreiningu á áhrifasvæði vátryggingaratburðar (9. gr.);
  • félagið hefur heimild til þess að láta þá sem búa utan skilgreinds áhrifasvæðis vátryggingaratburðar standa straum af kostnaði við matsgerð (11. gr.);
  • skylt verður að nýta vátryggingarbætur til endurbyggingar eða viðgerða á hinni skemmdu eign (11. gr.);
  • lagt er til ákvæði um hvernig standa skuli að áhættudreifingu (13. gr.);
  • lögð er niður hin sérstaka úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt gildandi lögum en verkefnin færð til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum (bráðabirgðaákvæði). 

Frumvarpsdrögunum fylgja reglugerðardrög um nánari útfærslu á ákvæðum um vátryggingarskyldu lágmarks innbús.

Stefnt er að framlagningu frumvarps um náttúruhamfaratryggingar við upphafs þings í haust og er þeim sem telja sig efni frumvarpsdraganna varða velkomið að senda ráðuneytinu athugasemdir eða ábendingar á [email protected] fyrir 4. september n.k.

Nánari upplýsingar veita Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri, [email protected] og Sóley Ragnarsdóttir, lögfræðingur, [email protected].

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum