Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 2014 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 7/2014

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 7. ágúst 2014 í máli nr. 7/2014.

Fasteign: Skólavörðustígur [ ] og [ ], Reykjavík, fnr. [ ] og fnr. [ ].
Kæruefni: Fasteignamat fyrri ára


Árið 2014, 7. ágúst, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 7/2014 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 18. janúar 2012, kærði X f.h. A, kt. [ ], synjun Þjóðskrár Íslands frá 10. janúar 2012 um að endurskoða fasteignamat húseigna félagsins að Skólavörðustíg [ ] og [ ], fnr. [ ] og [ ], fyrir árin 2005-2008. Með úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 2/2012 var ákvörðun Þjóðskrár Íslands staðfest á grundvelli þess að ekki væri heimild til endurskoðunar á fasteignamati sem fallið væri úr gildi þegar krafa kæmi fram, samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna.

Með bréfi yfirfasteignamatsnefndar, dags. 13. júní 2014, var kæranda tilkynnt að nefndin hefði ákveðið að taka mál hans til meðferðar að nýju. Var sú ákvörðun tekin í kjölfar kvörtunar kæranda til Umboðsmanns Alþingis en í samskiptum bæði nefndarinnar og Innanríkisráðuneytisins við embættið í tilefni af henni kom fram sú afstaða að ákvæði laga nr. 6/2001 komi ekki í veg fyrir að ákvörðun um fasteignamat geti komið til endurskoðunar eftir almennum reglum stjórnsýsluréttarins um endurupptöku máls, þ.m.t. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda séu skilyrði fyrir hendi að mál geti verið endurupptekið. Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Við nánari skoðun máls nr. 2/2012 telur yfirfasteignamatsnefnd að erindi kæranda til Þjóðskrár Íslands, dags. 9. desember 2011, hafi í raun verið beiðni um endurupptöku máls á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en af hálfu Þjóðskrár Íslands hafi ekki verið tekin afstaða til þess hvort skilyrði til endurupptöku væru fyrir hendi. Er það því niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar að ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 9. desember 2011, skuli felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá Íslands að taka málið til meðferðar að nýju.

 Úrskurðarorð

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 9. desember 2011, um endurskoðun fasteignamats fyrir Skólavörðustíg [ ] og [ ], fnr. [ ] og [ ], skal felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá Íslands að taka málið til meðferðar að nýju.

 

__________________________________

Inga Hersteinsdóttir

 

______________________________           ________________________________

   Ásgeir Jónsson                                  Hulda Árnadóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum