Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2014 Utanríkisráðuneytið

Krossgötur í Dyflinni

Gunnar Pálsson á úlfalda
Gunnar Pálsson

Um Dyflinni liggja forvitnilegar krossgötur írskrar, norskrar og íslenskrar menningar.

 Á árinu er þess minnst að þúsund ár liðin frá Brjánsbardaga, sem talinn er marka endalok yfirráða víkinga á Írlandi.  Bardaginn var háður á föstudaginn langa 1014, á Nautsakri (Clontarf) í norðurhluta Dyflinnar, en þar tókust á herir undir forystu yfirkonungs Íra, Brjáns Borumha, og leiðtoga víkinga og írskra smáhöfðingja, Sigtryggs Silkiskeggs.  Áætlað er að um 10,000 manns af 14.500 kunni að hafa legið í valnum eftir bardagann.  Brjánn hafði sigur, en varð að gjalda fyrir með lífi sínu. Sigtryggur sat áfram  í Dyflinni, en neyddist til að votta nýjum yfirkonungi Íra, Máel Sechnaill, hollustu sína.  Sextán árum eftir bardagann, hóf Sigtryggur að byggja dómkirkjuna, Kristsskirkju, á bökkum Liffey. Hann varð brottrækur frá Dyflinni árið 1036.

 Margir hafa haldið því fram að í bardaganum hafi farið fram endanlegt uppgjör milli Íra og norrænna manna á Írlandi. Það væri mikil einföldun. Norrænir menn höfðu búið með Írum í nærri tvö hundruð ár og bundist þeim margvíslegum blóðböndum. Víkingar höfðu stofnað Dyflinni þegar árið 841 og einnig hernumið Cork, Waterford og Hlymrek. Frá írsku höfnunum höfðu þeir stundað umfangsmikil viðskipti og skipulagt víkingu. Í Dyflinni smíðuðu þeir skip og ráku umfangsmikla þrælaverslun, auk þess að kenna Írum að borða fisk, nota mynt og gera skó úr mjúku leðri.

(Mynd sótt á vefsíðu St.Mary´s Baldoyle) -Brjánsbardagi var háður á föstudaginn langa 1014)

Blendnar tilfinningar settu þó óhjákvæmilega svip á  endurminningar  Íra um víkingaöldina.  Á skólaárum undirritaðs í Dyflinni á áttunda áratugnum gengu enn um það sögur að ef vel væri að gáð mætti sjá móta fyrir litlum dindli á afkomendum víkinga bakatil. Síðan hafa Írar  fyrirgefið víkingum og viðurkennt að norrænir menn yfirgáfu í raun aldrei Írland, en blönduðust þess í stað keltneskum íbúum eyjarinnar grænu.

Einn fyrsti þeirra fjórtán herkonunga af norrænum ættum sem stýrðu Dyflinni var Ólafur hvíti. Eiginkona Ólafs, Auður djúpúðga Ketilsdóttir, fluttist síðar til Íslands og nam land í Dölum. Bergsveinn Birgisson heldur því fram í bók sinni Svarta víkingnum, sem útkom í Noregi 2013, að Geirmundur heljarskinn, norskur konungssonur frá Rogalandi á vesturströnd Noregs, hafi haldið í sína fyrstu ferð til Íslands á skipum frá Dyflinni þegar árið 867, um sama leyti og Ólafur hvíti réð ríkjum í Dyflinni. Geirmundur setti síðar upp bæ sinn á Skarðsströnd í Dalasýslu, þar sem nú heitir Skarð.  Telur Bergsveinn að Geirmundur hafi stundað viðskipti á milli Íslands og Dyflinnar fram til ársins 873; hann hafi einkum flutt rostungsafurðir utan en fengið greitt í dýrasta varningi Dyflinnar þess tíma, þrælum. Ef trúa má  Laxdælu, keypti Höskuldur Dalakollsson  írsku ambáttina Melkorku af Gilla gerzka fyrir þrjár merkur silfurs, en það jafngilti rúmum fjórum kýrverðum.

Líkt og norrænir menn, einkum norskir, urðu blóð af blóði Íra varð, landnám víkinga til þess að Íslendingar urðu Keltar að öðrum þæði. Blóðrannsóknir hafa sýnt. að um 80 af hundraði karla úr röðum landnámsmanna komu frá Skandinavíu, en að 62.5 af hundraði kvenna frá Bretlandseyjum, Írlandi og Skotlandi.

Þessi tengsl við keltneska forfeður gætu útskýrt ýmislegt í fari Íslendinga, svo sem hæfileikann til að setja samtímaleg atvik í hið stóra þjóðsögulega samhengi.  Til marks um það má e.t.v. hafa eftirfarandi sögu sem undirritaður heyrði á námsárunum í Dyflinni: Bóndi kom eitt sinn inn í ostaverslun í borginni og bað um að fá að skoða úrvalið. Verslunarmaður tók litríkan gráðost úr borðinu og setti fyrir bónda með þeim skýringum að bitinn væri danskur. Bónda varð starsýnt á ostinn, hann þagði lengi vel, en sagði síðan stundarhátt: Það var tuskuleg hefnd fyrir Brjánsbardaga þetta!

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum