Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra heimilað að undirbúa samkomulag ríkis og kirkju um leiðréttingu sóknargjalda

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra fékk í dag heimild ríkisstjórnarinnar til að hefja undirbúning að gerð samkomulags milli ríkis og kirkju á grundvelli tillagna starfshóps sem gera ráð fyrir að umframskerðing sóknargjalda verði jöfnuð út á fjórum árum. Markmiðið með samningnum er að upphefja þann hluta aðhaldskrafna árin 2009-2012 sem gekk lengra en gert var gagnvart öðrum aðilum sem byggja rekstur sinn á framlögum af fjárlögum.

Fram kom í skýrslu fyrrnefnds starfshóps að Þjóðkirkjan hafi orðið fyrir mikilli umframskerðingu borið saman við meðaltalsskerðingu gagnvart öðrum stofnunum sem heyra undir innanríkisráðuneytið. Fram kemur að sé miðað við framlag fjárlaga 2014 sé þörf á hækkunum til að jafna út umframskerðinguna samtals 663 m.kr.

Starfshópurinn leggur til að gert verði samkomulag milli innanríkisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og þjóðkirkjunnar um þessar hækkanir. Innanríkisráðuneytið hefur brugðist við með tillögugerð við undirbúning fjárlaga 2015 og er þar gert ráð fyrir að farið verði að tillögum starfshópsins á fjórum árum með leiðréttingu á sóknargjöldum til Þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Þessi tillaga innanríkisráðherra var staðfest á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Innanríkisráðherra skipaði áðurnefndan starfshóp í desember 2013 sem hafði það verkefni að endurskoða fjárhagsleg samskipti ríkis og þjóðkirkjunnar og safnaða hennar. Starfshópinn skipuðu þau Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrverandi ráðherra, Viðar Helgason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og séra Gísli Jónasson, prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira