Hoppa yfir valmynd
19. september 2014 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Skýrsla um vísinda- og nýsköpunarkerfið hér á landi

Úttekt á íslenska vísinda- og nýsköpunarkerfinu var gerð á vegum ráðgjafanefndar Evrópusambandsins um rannsóknir og nýsköpun

Úttektin á íslenska vísinda- og nýsköpunarkerfinu var gerð á vegum ráðgjafanefndar Evrópusambandsins um rannsóknir og nýsköpun (European Research Area and Innovation Committee (ERAC)). Um er að ræða svokallað jafningjamat (peer-review). Við gerð matsins var unnin sérstök sjálfsmatsskýrsla og lagði mennta- og menningarmálaráðuneytið ríka áherslu á víðtækt samráð við hagsmunaaðila í öllu ferlinu, meðal annars með því að bjóða til opins umræðufundar um málaflokkinn í lok janúar á þessu ári. Líta má svo á að ávinningurinn af matinu skapist ekki síður í umræðunum, sem eiga sér stað meðan á því stendur, en í skýrslunni sjálfri.

Ráðgjafarnir heimsóttu Ísland í byrjun apríl og ræddu þá við fjölmarga aðila úr kerfinu. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að höfundarnir voru hér hafa mikilvæg skref verið tekin til að efla rannsókna- og þróunarstarf hér á landi. Í lokagerð skýrslunnar er að finna umfjöllun ráðgjafanna um þessar aðgerðir.

Þann 23. maí 2014 samþykkti Vísinda- og tækniráð, sem í sitja sex ráðherrar, aðgerðaáætlun fyrir stefnu ráðsins fyrir árin 2014-2016. Í áætluninni er að finna 21 aðgerð og er hver aðgerð kostnaðargreind, tímasett og falin ábyrgðaraðilum. Með þessu móti vill Vísinda- og tækniráð tryggja marvissa eftirfylgni við stefnuna. Aðgerðaáætlunina má finna á heimasíðu Vísinda- og tækniráðs (www.vt.is).

Í aðgerðaáætluninni er meðal annars stefnt að stórauknum framlögum til Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs á næstu tveimur árum, eða sem nemur 2,8 milljörðum kr yfir tímabilið. Með hækkun framlaga til sjóðanna vill Vísinda- og tækniráð stuðla að því að Ísland komist, á árinu 2016, í hóp þeirra landa sem verja a.m.k. 3% af vergri landsframleiðslu til rannsókna og þróunar. Styrking sjóðanna er ekki það eina sem skiptir máli í þessu samhengi, heldur er einnig gert ráð fyrir að fyrirtæki efli rannsóknar- og þróunarstarfsemi sína um a.m.k. 5 milljarða kr. á næstu tveimur árum. Munu stjórnvöld styðja við það markmið með því að nýta skattahvata með markvissum hætti til að ýta undir rannsóknir og þróun fyrirtækja.

Í skýrslunni er bent á að hér á landi þurfi að efla greiningu á sviði vísinda og nýsköpunar. Í aðgerðaáætluninni er gert ráð fyrir að ríkið fjárfesti í upplýsingakerfi um rannsóknir og nýsköpun, sem veita mun samræmdar og ítarlegar upplýsingar um árangur rannsókna- og nýsköpunarstarfs. Með upplýsingakerfinu verður unnt að greina betur árangur aðgerða og stefnumótunar og þannig bæta ákvarðanatöku og áætlanagerð á sviðinu.

Skýrsla um vísinda- og nýsköpunarkerfið á Íslandi


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira