Hoppa yfir valmynd
20. september 2014 Dómsmálaráðuneytið

Breytt umdæmaskipan meðal umræðuefna á aðalfundi Sýslumannafélags Íslands

Breytt umdæmaskipan sýslumannsembætta, aðgerðaáætlun um breytingarnar, fjármál og fleira efni var til umræðu á aðalfundi Sýslumannafélags Íslands sem lauk í Borgarfirði í dag. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, ávarpaði fundinn í gær, flutti fundarmönnum kveðju innanríkisráðherra og þakkaði sýslumönnum fyrir góð samskipti og umræður við undirbúning breytinga á embættunum sem koma eiga til framkvæmda 1. janúar næstkomandi.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, ávarpaði aðalfund Sýslumannafélags Íslands.
Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, ávarpaði aðalfund Sýslumannafélags Íslands.

Auk ráðuneytisstjórans fluttu fleiri fulltrúar innanríkisráðuneytisins erindi á fundinum. Bryndís Helgadóttir skrifstofustjóri fjallaði um lagafrumvarp um frestun á nauðungarsölum, Oddur Einarsson stjórnsýslufræðingur greindi frá fjármálum, Ólafur Kr. Hjörleifsson lögfræðingur ræddi drög að reglugerð um aðalskrifstofur sýslumanna og ábendingar um drögin sem borist hafa ráðuneytinu og Arnheiður Ingjaldsdóttir sérfræðingur og Þuríður Árnadóttir, sem sitja báðar í stýrihópi um breytingarnar, tóku til umræðu þá vinnu sem framundan er varðandi breytingarnar. Einnig var rætt um breytingarnar í umræðuhópum. Þá flutti erindi á fundinum Kristín Kalmansdóttir, sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun. Fór hún yfir nokkrar sameiningar stofnana ríkisins undanfarin ár og ræddi hvernig til hefði tekist.

Öflugri embætti

Ragnhildur Hjaltadóttir fjallaði í ávarpi sínu einkum um breytingarnar á sýslumannsembættunum og sagði þær eiga sér langan aðdraganda. Ýmsar breytingar hefðu verið gerðar hjá embættunum síðustu tvo áratugina, til dæmis með aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdavalds en síðustu árin hefði umræðan einkum snúist um stækkun og eflingu embættanna. Ráðuneytisstjórinn sagði að margir málaflokkar ráðuneytisins ættu það sameiginlegt að leggja grunn að traustum innviðum samfélagsins, auka öryggi almennings og leysa flókin stjórnsýslumál og sagði hún stærð ráðuneytisins veita tækifæri til að eiga frumkvæði að umbótum í stjórnsýslunni. Hún kvaðst sannfærð um að með breytingunum yrðu sýslumannsembættin öflugri og þess umkomin að taka við nýjum verkefnum. Þannig hefði ráðuneytið þegar í byrjun þessa árs flutt nokkur verkefni til sýslumanna og sagði hún því verkefni ekki lokið. Samkvæmt lögunum um breytingar á embættunum væri nú unnið að því í samstarfi við forsætisráðuneytið að semja aðgerðaáætlun um mögulegan flutning verkefna frá stjórnarráðinu til nýrra embætta. Hefði innanríkisráðherra þegar skrifað öðrum ráðherrum bréf með ósk um samvinnu í því verkefni.

Frá aðalfundi Sýslumannafélags Íslands.

Ragnhildur lagði í lokin áherslu á að hugmyndir um verkefnaflutning kæmu einnig frá sýslumönnum og sagði ánægjulegt að nokkrir þeirra hefðu komið til ráðuneytisins ábendingum og tillögum um verkefni sem embættin gætu tekið að sér.

Fram kom meðal annars í umræðum sýslumanna að loknum inngangi ráðuneytisstjórans að auk þess sem embættin gætu tekið að sér ný verkefni gætu þau til dæmis einnig hýst og boðið aðstöðu fyrir fulltrúa annarra embætta sem veittu almenningi margs konar þjónustu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum