Hoppa yfir valmynd
3. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp um sameiningu þjónustustofnana

Leiðsöguhundar Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar.
Leiðsöguhundar Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti fyrir ríkisstjórn í dag lagafrumvarp um sérhæfða þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu. Frumvarpið felur í sér sameiningu þjónustustofnana í eina stofnun sem sinna mun börnum og fullorðnum vegna margvíslegrar fötlunar og sjaldgæfra sjúkdóma.

Stofnanirnar sem fyrirhugað er að sameina eru Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og TMF Tölvumiðstöðin. Markmið sameiningarinnar er að bæta aðgang notenda að heildstæðri þjónustu með því að samræma og samþætta þjónustuna og auka þannig gæði og skilvirkni.

Einnig er miðað við að sérfræðiteymi sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk muni heyra undir stofnunina, en því er ætlað að veita ráðgjöf um aðferðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlaða.

Ráðherra og Þorsteinn Sturla Gunnarsson ræða saman í húsnæði Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar.Nýja stofnunin mun sinna sömu hópum og stofnanirnar sem verða sameinaðar en það eru börn og fullorðnir sem þurfa þjónustu vegna heyrnarskerðingar, heyrnarleysis, talmeina, blindu, sjónskerðingar, daufblindu, þroskaraskana, einhverfu, meðfæddrar alvarlegrar hreyfihömlunar og sjaldgæfa sjúkdóma.

Við núverandi skipulag er ekki óalgengt að fólk með fjölþætta fötlun þurfi að leita til fleiri en einnar stofnunar eftir þjónustu. Með sameiningunni verður þjónustan aðgengileg á einum stað.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur hingað til sinnt börnum fyrst og fremst en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hún muni þegar fram í sækir sinna fólki á öllum aldri.

Auk þess að annast ráðgjöf, greiningu, meðferð, hæfingu og endurhæfingu verður hlutverk nýrrar stofnunar að afla og miðla upplýsingum og þekkingu og stuðla að nýsköpun og þróun tækni á starfssviði sínu. Einnig er henni ætlað að sinna rannsóknum og fræðastarfi, meðal annars í samstarfi við háskólastofnanir og stofnanir ríkis og sveitarfélaga.

Verkefnisstjórn sem ráðherra skipaði í fyrra hefur unnið að undirbúningi fyrirhugaðrar sameiningar stofnana og smíði frumvarps um málið. Áform um sameiningu voru kynnt fyrir starfsfólki þegar ráðherra og fulltrúar verkefnisstjórnarinnar heimsóttu stofnanirnar síðastliðið haust.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum