Hoppa yfir valmynd
6. október 2014 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður alþjóðlegar aðgerðir gegn ISIS

Íslensk stjórnvöld styðja að gripið sé til alþjóðlegra aðgerða gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir grimmdarverk samtakanna gagnvart almennum borgurum og brot þeirra á alþjóðalögum svo gengdarlaus að áríðandi sé að bregðast við af mikilli festu. Ísland sé herlaust ríki og muni því ekki leggja af mörkum til hernaðaraðgerða vegna árása á ISIS, heldur með framlögum til mannúðaraðstoðar. 

Írösk stjórnvöld hafa kallað eftir alþjóðlegum stuðningi í baráttunni gegn ISIS. Yfir fimmtíu ríki, þar með talið tíu ríki í Mið-Austurlöndum, öll aðildaríki Atlantshafsbandalagsins og öll Evrópusambandsríkin, hafa brugðist við ákallinu. 

Gunnar Bragi segir beiðni íraskra stjórnvalda vera grundvöll stuðnings Íslands við aðgerðirnar og að þær uppfylli þar með alþjóðalög hvað beitingu vopnavalds áhrærir. ISIS hryðjuverkasamtökin ógni friði og öryggi í Mið-Austurlöndum og á alþjóðavísu. Ísland styðji að hart verði brugðist við uppgangi samtakanna auk þess sem íslensk stjórnvöld muni leggja fram 50.000 bandaríkjadali til mannúðaraðstoðar á vegum Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna á svæðinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum