Hoppa yfir valmynd
8. október 2014 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun ESA um endurkröfu ríkisaðstoðar

ESA
ESA

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst í dag að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hafi veitt ólögmæta ríkisaðstoð þegar gerðir voru fjárfestingarsamningar við fyrirtækin Becromal, Verne, Kísilfélagið, Thorsil og GMR Endurvinnsla. Umræddir fjárfestingarsamningar voru gerðir á tímabilinu frá 2010 til 2012 á grundvelli laga nr. 99/2010 um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Þau lög féllu úr gildi í lok árs 2013 en ESA hafði í október 2010 samþykkt þá löggjöf sem lögmætt ríkisaðstoðarkerfi. Niðurstaða ESA snýr því að framkvæmd laganna að því er þessa samninga varðar. 

Fréttatilkynning ESA

Samkvæmt ákvörðun ESA er ástæða þess að um ólögmæta ríkisaðstoð er að ræða annars vegar sú að tvö af viðkomandi verkefnum hafi þegar verið hafin áður en gengið var frá fjárfestingarsamningi, og því hafi ekki verið sýnt fram á að sú ívilnun sem í fjárfestingarsamningi felst væri forsenda þess að viðkomandi verkefni yrðu að veruleika. Hins vegar er bent á að í þremur tilvikum hafi ríkisaðstoð falist í rekstraraðstoð en ekki beinni fjárfestingaraðstoð, en slík aðstoð er almennt óheimil samkvæmt reglum EES samningsins um veitingu ríkisaðstoðar.

Af framangreindum fimm fjárfestingarsamningum er í tveimur tilvikum um að ræða fyrirtæki sem aldrei hófu rekstur. Í öðrum tveimur nemur áætluð endurgreiðsla ríkisaðstoðar smáum fjárhæðum, en í einu tilviki er áætluð endurgreiðsla á þriðja tug milljóna. Stjórnvöld munu á næstu dögum fara nánar yfir ákvörðun ESA í samstarfi við viðkomandi fyrirtæki. Ekki liggur fyrir hvort íslenska ríkið láti reyna á ákvörðun ESA fyrir EFTA-dómstólnum.

Í tilefni af ákvörðun ESA skal tekið fram að ákvörðunin hefur ekki áhrif á þau fjárfestingarverkefni sem eru til skoðunar eða gerðir hafa verið fjárfestingarsamningar um á þessu ári. Ákvörðunin snýr sem áður segir að lögum nr. 99/2010 sem féllu úr gildi í lok árs 2013. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um ívilnanir fyrir nýfjárfestingar á Íslandi. Við gerð þess frumvarps var m.a. tekið tillit til þeirra athugasemda sem borist höfðu frá ESA vegna rannsóknar ESA á lögum nr. 99/2010 og framkvæmd þeirra. Frumvarpið, sem og þeir fjárfestingarsamningar sem gerðir hafa verið á þessu ári, eru því með fyrirvara um samþykki ESA og hefur ráðuneytið átt í reglubundnum samskiptum við ESA um framgang þeirra mála.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum