Hoppa yfir valmynd
14. október 2014 Matvælaráðuneytið

Staðlar jafna samkeppni - Alþjóðlegi staðladagurinn er í dag

Staðlaráð
Staðlaráð

Alþjóðlegi staðladagurinn er haldinn í dag, 14. október, en þrenn alþjóðleg staðlasamtök standa að þessum degi; Alþjóða staðlasamtökin (ISO), Alþjóða raftækniráðið (IEC) og Alþjóða fjarskiptasambandið (ITU). Markmiðið með alþjóðlega staðladeginum er að vekja á athygli á mikilvægi staðla og staðlastarfs, en þema staðladagsins í ár er “Staðlar jafna keppnina”, sem vísar m.a. til þess að alþjóðlegir staðlar örva viðskipti, ryðja úr vegi tæknilegum viðskiptahindrunum og jafna þannig samkeppni.  

Staðall er opinbert skjal sem er ætlað til frjálsra afnota. Í staðli er að finna reglur, leiðbeiningar eða skilgreiningar sem miða að því að tryggja tiltekna virkni, að hlutir passi og að þeir skili því sem af þeim er krafist. Allt er þetta gert til þess að auka hagkvæmni, einfalda og draga úr kostnaði. Staðall er jafnan til frjálsra afnota en stjórnvöld geta gert notkun hans skyldubundna, t.d. með því að vísa til hans í reglugerð.

Dæmi um hluti sem allir þekkja og eru staðlaðir eru rafhlöður, ljósaperur, hleðslutæki fyrir farsíma, strikamerki, geisladiskar og stærðir pappírs. 

Samskipti á Internetinu og alþjóðleg notkun greiðslukorta eru dæmi um starfsemi sem ekki væri möguleg án alþjóðlegra staðla. Löng hefð er fyrir notkun staðla, t.d. við framleiðslu vélahluta og raftækja og á síðari árum hefur stöðlun innan þjónustugreina færst mjög í vöxt. 

Staðlaráð Íslands er samstarfsráð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af stöðlum á Íslandi og hefur það hlutverk að staðfesta alþjóðlega staðla og annast gerð íslenskra staðla í samvinnu við hagsmunaaðila, svo sem hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnanir, samtök og fyrirtæki. Staðlaráð Íslands á aðild að alþjóðasamstarfi staðlaráða fyrir Íslands hönd og fer með atkvæði landsins á þeim vettvangi. Staðlaráð Íslands á einnig aðild að evrópsku staðlasamtökunum CEN (European Committee for Standardisation) og CENELEC (European Committee for Electrotechnical Standardisation) sem eru sjálfstæðar stofnanir með umboð til að gefa út staðla, en Guðrún Rögnvaldardóttir framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands er einn af þremur varaforsetum CEN. Aðild að þessu evrópusamstarfi fylgir sú skuldbinding að gera alla staðla sem frá samtökunum koma að íslenskum stöðlum. Staðlaráð er jafnframt aukaaðili að ETSI (European Telecommunications Standards Institute).

Staðlamál falla undir EES-samninginn og í þeim tilvikum þar sem samhæfðir evrópskir staðlar eru til viðbótar löggjöf ESB, eru þeir staðlar innleiddir. Reglugerð Evrópusambandsins nr. 1025/2012 um evrópska stöðlun tók gildi hérlendis í september sl. og Staðlaráð Íslands hefur þegar aðlagað starfsemi sína að kröfum reglugerðarinnar og uppfyllt þær skyldur sem reglugerðin leggur á landsstaðlastofnanir, svo sem um birtingu vinnuáætlana, upplýsingaskipti og skýrslugjöf til evrópsku staðlastofnananna.

Staðlaráð Íslands

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum